„Ætlaði að gera vel við hana með rónasteik, steiktu kjötfarsi á brauði“

Guðmundur Ari Sigurjónsson ljóstrar upp sínum matarvenjum að þessu sinni …
Guðmundur Ari Sigurjónsson ljóstrar upp sínum matarvenjum að þessu sinni en þessa dagana stendur hann í ströngu í kosningabaráttu. mbl.is/Karítas

Guðmundur Ari Sigurjónsson ljóstrar upp matarvenjum sínum fyrir lesendum Matarvefsins að þessu sinni. Hann hefur nánast alltaf verið naslari og elskar fátt meira en bakkelsi og súkkulaði. En undanfarið hefur hann reynt að venja sig af þessu nasli og farinn að færa sig yfir í hollara fæði og bæta matarvenjur sínar.

Guðmundur Ari stendur í ströngu þessa dagana þar sem hann er í framboði til Alþingis og skipar 2. sætið fyrir Samfylkinguna í Suðurvesturkjördæmi. „Ég er bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi og vinn sem sérfræðingur hjá RANNÍS. Ég á líka mikið ríkidæmi, þrjú börn og eiginkonu, sem mér finnst mikilvægt að rækta vel og njóta góðra samverustunda með.“ 

Svartur kaffibolli á hlaupum 

Hann ljóstrar hér upp mat­ar­venj­um sínum fyr­ir les­end­um og viðurkennir fúslega að hann sé ekki góður kokkur. En góðan mat kann Guðmundur Ari að meta.

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Morgunmaturinn er svartur kaffibolli sem er tekinn á hlaupum á meðan ég reyni að koma börnunum mínum þremur á lappir og í skólann. Konan mín er íþróttafræðingurinn Nanna Kaaber sem byrjar sinn vinnudag á að þjálfa klukkan 6 á morgnanna svo við erum aðeins undirmönnuð á morgnanna.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Ég hef alla tíð verið mikill naslari og finnst fátt betra en að fá mér eitthvað gott með kaffinu eins og súkkulaði eða bakkelsi. Síðastliðið ár hef ég þó verið að taka matarvenjurnar mínar í gegn og er því minna í að borða milli mála en ég gríp í hnetur og ávexti ef ég þarf orku.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Hádegisverðurinn er mikilvægasta máltíð dagsins. Ég reyni að taka ræktina eða hlaupa alla daga klukkan 11 og því nauðsynlegt að fá góðan skammt af próteini í hádegismat. Best er að komast í gott kjöt en prótein þeytingur á Ísey hefur oft bjargað málunum.“ 

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Það helsta sem er í ísskápnum er maturinn fyrir börnin okkar en það sem ég þarf alltaf að eiga í ísskápnum eru próteindrykkir, grískt jógúrt, bláber og rjómi.“

Leyni rjómasveppasósan hennar Nönnu það besta 

Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„Ég elska mest allan grillmat og 90% af því sem ég elda geri ég á grillinu. Góð nautalund, hasselback kartöflur, gott salat og leyni rjómasveppasósan hennar Nönnu er það besta sem ég fæ.“

Hvað viltu á pítsuna þína?

Uppáhaldspítsan mín er pepperóní-og chilipítsa á veitingastaðnum Ráðagerði. Hún er með pepperóni, ferskum chili, döðlum, mascarpone og toppuð með chili hunangi. Hún er algjörlega sturluð.“

Færð þú þér pylsu með öllu?

„Alltaf.“ 

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Þegar við ætlum að gera virkilega vel við okkur þá förum við á Austur-Indíafjelagið. Það elska allir indverskan mat í fjölskyldunni okkar og Austur-Indíafjelagið er á heimsmælikvarða þegar kemur að bragði, gæðum og þjónustu.“ 

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja, sem er á bucket-listanum?

„Ég hef nú farið nokkrum sinnum á hann en uppáhaldsveitingastaður okkar hjóna heitir Frau Mittenmang og er í Berlín. Hann er ekki neinn Michelin stjörnustaður heldur er hann frábær veitingastaður inni í grónu hverfi þar sem þýskur heimilismatur er eldaður á hæsta plani. Matseðilinn er breytilegur milli daga en maður getur alltaf treyst á að komast í hágæða schnitzel. Væri til í að sjá svona veitingastað í Reykjavík.“

Gísli Matt uppáhaldskokkurinn

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Gísli Matt er uppáhaldskokkurinn minn en allir veitingastaðir sem hann opnar eru geggjaðir. Hann er frábær kokkur en eins og Slippurinn í sýnir þá er hann líka algjör snillingur í að búa til matarupplifun úr íslenskum hráefnum. Svo er hann líka í framboði fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi sem skemmir ekki fyrir.“

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Það er fátt sem toppar einn ískaldan bjór eftir langa vinnuviku.“

Ertu góður kokkur?

„Nei, það er ég ekki en ég er góður við grillið. Þegar ég eldaði fyrst fyrir Nönnu mína og ætlaði ég að gera vel við hana með uppáhaldsmatnum mínum sem var rónasteik, steikt kjötfars á brauði. Það sló ekki beint í gegn svo ég færði mig yfir á grillið og Nanna sér um sósur og meðlæti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert