„Maðurinn minn er úrvalskokkur og sér að langmestu um eldamennskuna“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á heiðurinn af vikumatseðlinum að …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins á heiður­inn af vikumat­seðlin­um að þessu sinni. Þórdís Kolbrún nýtur þess að borða góðan mat og sérstaklega í faðmi fjölskyldunnar en hún og eiginmaður hennar, Hjalti Sigvaldason Mogensen, eiga tvö börn og búa þau í Kópavoginum.

„Okkur finnst meiriháttar notalegt að fá fólkið okkar og vini í mat, hvort sem það er í létt kaffi, bröns eða kvöldmat, kæruleysislega afslappað og heimilislegt,“ segir Þórdís Kolbrún um ástríðu fjölskyldunnar á mat.

„Undanfarnar vikur, og kannski almennt bara til að vera alveg heiðarleg, hafa verið þannig að ég legg lítið af mörkum við matargerð heimilisins. Maðurinn minn er algjör úrvalskokkur og sér almennt að langmestu leyti um alla eldamennsku á heimilinu. Við reynum að hafa þetta einfalt en í hollari kantinum á virkum dögum en leyfum okkur aðeins meira um helgar,“ segir Þórdís Kolbrún og brosir.

Föstudagskvöldin sérstaklega heilög

„Ég tek meira að mér baksturinn, þótt maðurinn minn sé orðinn betri en ég í því líka. Við sonur minn bökum gjarnan saman, stundum bara til að borða deigið, áður en það fer í ofninn. Mestu gæðastundir fjölskyldunnar eru oft í eldhúsinu. Þar förum við yfir daginn, spjöllum og njótum þess að vera saman. Föstudagskvöld eru sérstaklega heilög þegar kemur að þessu með heimagerðar pítsur úr pítsaofninum.“

„Mestu gæðastundir fjölskyldunnar eru oft í eldhúsinu. Þar förum við …
„Mestu gæðastundir fjölskyldunnar eru oft í eldhúsinu. Þar förum við yfir daginn, spjöllum og njótum þess að vera saman.“ mbl.is/Eyþór Árnason

Þórdís Kolbrún gaf sér tíma til að setja saman sinn draumavikumatseðil þrátt fyrir miklar annir þessa dagana og vonast til að ná einhverjum stundum við matarborðið með fjölskyldunni í vikunni.

Mánudagur – Einfaldur góður kjúklingaréttur

„Einfaldir kjúklingaréttir eru klassískur kvöldmatur á heimilinu. Við vinnum líka oft með úrbeinuð kjúklingalæri. Ég er sjálf ekki alveg nógu dugleg að borða prótein og þess vegna reynum við að hafa hollan eða góðan  kjúkling í hverri viku í allskyns útgáfu.“

Þriðjudagur – Lasanja að hætti Evu Laufeyjar

„Gott lasanja er mjög vinsæll réttur hjá fjölskyldunni. Við grípum gjarnan í uppskrift hjá Evu Laufeyju vinkonu minni sem er fyrirmynd fjölskyldunnar í matargerð og bakstri. Mér finnst lasanja vera svona matur sem allir eru til í. Á öllum aldri og klikkar aldrei.

Miðvikudagur – Smjörsteiktur þorskur

„Á miðvikudögum borðum við oft hjá tengdaforeldrum mínum og hún er oftast með einhvers konar fiskmeti. Það toppar auðvitað ekkert íslenskan ferskan fisk og lykilatriðið er að hafa nóg af smjöri með.“

Fimmtudagur – Gómsætt takkó

„Ef við erum öll heima á fimmtudögum þá finnst okkur mjög gaman að nota það sem er til í ísskápnum til græja gott takkó. Þá velur bara hver það sem hann vill í sitt og allir verða ánægðir með útkomuna. Við höfum alltaf tamið okkur að leyfa börnunum að ákveða sjálf hvað þau borða mikið, þótt það fylgi að sjálfsögðu að það sé ekki annar matur í boði og þá hvenær þau eru orðin södd sem ég tel mikilvægt. Þess vegna er gott að hafa eitthvað svona eins og takkó sem er í hollari kantinum, fullt af grænmeti, en samt eru allir sáttir.“

Föstudagur – Pítsa með parmaskinku og furuhnetum

„Föstudagar eru nokkuð heilagir fyrir fjölskylduna. Eftir langa viku þá græjum við öll saman heimatilbúna pítsu. Þá er ég komin í heimagallann og við hjónin opnum rauðvínsflösku. Þetta er uppáhaldstími vikunnar hjá mér og eftir langar og strembnar vikur er mikil jarðtenging að ná samverustund í rólegheitum, spjalli og spila saman eða horfa á mynd með nammi.“

Laugardagur – Kálfasnitsel með ljúffengu meðlæti

„Þegar ég var skiptinemi í Vínarborg kynntist ég einum að mínum uppáhaldsrétti sem er kálfasnitsel. Það er fátt sem toppar gott snitsel og meðlæti. Örugglega spilar inn í hughrifin við tímann minn í Vínarborg.“

Sunnudagur – Mexíkósk kjúklingasúpa og meðlæti

„Eftir hafragraut og sundferð sem er fastur liður um helgar förum við heim og fáum okkur egg, avókadó og íslenska tómata með góðri olíu og salti. Á sunnudögum förum við oft upp á Skaga í góðan pabbamat hjá foreldrum mínum. Ef við erum heima  reynum við að nýta bara það sem er til og hendum stundum í góða súpu. Sérstaklega á köldum dögum eins og undanfarið. Við bökum oftast pönnukökur annað hvort á laugardögum eða sunnudögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert