Hildur Rut Ingimarsdóttir töfraði fram þessar ómótstæðilegu og bragðgóðu karamellu- og súkkulaðismákökur sem eiga vel við í aðventunni. Uppskriftina gerði hún fyrir uppskriftavefinn Gerum daginn girnilegan sem býður upp á fjölbreytt úrval uppskrifta fyrir sælkera.
Hildur Rut deildi uppskriftinni og aðferðinni á Instagramsíðu sinni og segir að þessar séu ómótstæðilega bragðgóðar, stökkar með dökku súkkulaði sem bráðnar í munni.
Karamellu- og súkkulaðismákökur
- 115 g smjör (við stofuhita)
- 100 g púðursykur
- 50 g sykur
- 1 stórt egg
- 1 tsk. vanilludropar
- 150 g hveiti
- ½ tsk. lyftiduft
- ¼ tsk. matarsódi
- ¼ tsk. salt
- 100 g dökkt eða mjólkursúkkulaði
- 10-12 Saltaðar karamellur frá Werther's
Aðferð:
- Forhitið ofninn í 180°C (blástur).
- Hrærið saman smjörið, púðursykurinn og sykurinn í hrærivél eða með handþeytara þar til blandan verður létt og loftkennd.
- Bætið egginu og vanilludropunum út í, og hrærið þar til allt hefur blandast vel.
- Blandið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti í annarri skál.
- Sigtið þurrefnin saman við smjörblönduna og hrærið varlega
- Blandið súkkulaðibitum og Werther's karamellubitum saman við.
- Passið að dreifa bitunum jafnt í deigið.
- Notið skeið til að móta litlar kúlur úr deiginu (u.þ.b. 1 matskeið í hverri köku) og raðið þeim á bökunarplötuna þakta bökunarpappír með góðu millibili.
- Bakið í 10-12 mínútur, eða þar til smákökurnar eru gylltar á köntunum. Þær mega líta aðeins mjúkar út í miðjunni.
- Leyfið kökunum að kólna á plötunni í 5 mínútur áður en þær eru fluttar á grind til að kólna alveg.