Fyrirliðinn deilir þakkargjörðaruppskriftum

Ari Posocco og Ísak Aron Jóhannssonn eru í veisluteyminu hjá …
Ari Posocco og Ísak Aron Jóhannssonn eru í veisluteyminu hjá Múlakaffi. Þeir eru tilbúnir að græja kræsingarnar fyrir þakkargjörðardaginn. mbl.is/Eyþór Árnason

Ísak Aron Jóhannsson hjá veisluþjónustu Múlakaffis er þrátt fyrir ungan aldur einn af eftirtektarverðustu matreiðslumönnum okkar Íslendinga og fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins. Nú þegar þakkargjörðarhátíðin nálgast ætlar Ísak að deila með lesendum vefsins sínum uppáhaldsuppskriftum að kalkúnafyllingu og dásamlegu sætkartöflu-casserole með pekankrömbli“.

Þakkagjörðarmáltíðin að hætti Ísaks, kalkúnn borinn fram með sætkartöflu „casserole“ …
Þakkagjörðarmáltíðin að hætti Ísaks, kalkúnn borinn fram með sætkartöflu „casserole“ með pekankrömbli, fyllingu og hátíðarsósu. mbl.is/Eyþór Árnason

Þakkargjörðarhátíðin í Múlakaffi

„Þessar ljúffengu uppskriftir eru hluti af þakkargjörðaruppskriftum Múlakaffis í ár en eins og hefð er fyrir þá er þakkargjörðarhátíðin haldin hátíðleg á veitingastað Múlakaffis í Hallarmúlanum bæði í hádeginu og að kvöldi dags. Þar geta matargestir bragðað þessa ljúffengu rétti frá mér ásamt himneskum kalkúni og meðlæti af ýmsu tagi,“ segir Ísak og bendir jafnframt á að ef matgæðingar vilja „stytta sér leið“ og slá í gegn heima fyrir þá er hægt að hringja í Múlakaffi og panta þakkargjörðarréttina og sækja þá í Hallarmúlann á leið heim úr vinnunni.

Fyllingin lítur vel út.
Fyllingin lítur vel út. mbl.is/Eyþór Árnason

Uppruni þakkargjörðarhátíðarinnar

Bandaríski þakkargjörðardagurinn er haldinn hátíðlegur fjórða fimmtudag í nóvember ár hvert og er einn af fáum hátíðisdögum sem eru alfarið upprunnir í Bandaríkjunum. Fyrsta þakkargjörðarhátíðin var haldin af enskum pílagrímum haustið 1621 en þeir höfðu árið áður hrökklast með skipinu Mayflower frá borginni Plymouth á Englandi að strönd Massachusettsflóa og stofnað þar nýlenduna Plymouth. Eftir harðan vetur en góða sumaruppskeru ákváðu þeir að þakka Guði fyrir alla hans velgjörninga með þriggja daga hátíð og buðu þeir innfæddum einnig að taka þátt í veislunni sem samanstóð aðallega af kalkúni og villibráð.

Freisting að horfa á þessa dýrð, sætkartöflu „casserole“ með pekankrömbli.
Freisting að horfa á þessa dýrð, sætkartöflu „casserole“ með pekankrömbli. mbl.is/Eyþór Árnason

Kalkúnafylling og sætkartöflu „casserole“ með pekankrömbli

Kalkúnafylling

  • 2 stk. súrdeigsbrauð, skorið í teninga (u.þ.b. 950 g)
  • 200 g smjör
  • 1 stk. laukur
  • 2 stilkar sellerí
  • 3 stk. smáar gulrætur
  • 2 tsk. salt
  • 1 tsk. pipar
  • 250 ml kjúklingasoð
  • 2 egg
  • 8 timiangreinar

Aðferð:

  1. Skrælið og skerið smátt lauk, sellerí og gulrætur.
  2. Komið grænmetinu fyrir í potti með repjuolíu og léttsteikið þar til grænmetið hefur fengið gullinbrúnan lit, bætið við smjöri og leyfið að bráðna saman.
  3. Hellið smjörinu og grænmetinu yfir súrdeigsbrauðteningana og blandið vel saman.
  4. Tínið timianlaufin gróflega af timiangreinunum og bætið við súrdeigsbrauðteningana ásamt, salti, pipar, kjúklingasoði og eggi.
  5. Komið fyllingu fyrir í eldföstu móti og bakið á 175°C hita í 30 mínútur. Ef fyllingin á að fara inn í kalkúninn þá mælir Ísak með að gera það rétt áður en kalkúnninn fer inn í ofn og vera viss um að kalkúninn nái 72°C kjarnhita.

Sætkartöflu- „casserole“ með pekankrömbli

  • 4 stórar sætar kartöflur
  • 250 g ósaltað smjör
  • 300 g púðursykur
  • 2 egg
  • 3 tsk. salt
  • Pekankrömbl (sjá uppskrift fyrir neðan)

Aðferð:

  1. Bakið sætar kartöflur inni í ofni á 180°C hita í u.þ.b. 1 klukkustund.
  2. Skerið í helming á meðan þær eru heitar og kreistið innihaldið í stóra skál.
  3. Bætið við smjöri, púðursykri, eggjum og salti.
  4. Setjið síðan í mót eða fat og dreifið pekankrömbli yfir.

Pekankrömbl

  • 100 g smjör
  • 200 g púðursykur
  • 300 g pekanhnetur, skornar gróft
  • 100 g Kelloggs morgunkorn

Aðferð:

  1. Bræðið smjör og púðursykur saman í potti.
  2. Blandið saman pekanhnetum og Kellogs-morgunkorni í skál.
  3. Hellið púðursykursblöndunni yfir og blandið vel saman með sleikju.
  4. Þegar „krömblið“ hefur kólnað er það tilbúið og hægt að setja það yfir sætkartöflumúsina.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert