„Er í samúðarbindindi af því konan mín er ólétt“

Snorri Másson oddviti Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður og kettlingurinn Dóra …
Snorri Másson oddviti Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður og kettlingurinn Dóra Júlía sem fær sér reglulega vatn úr eldhúskrananum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snorri Másson blaðamaður, rithöfundur og oddviti Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður ljóstrar upp skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni.

Snorri er mikill kaffiaðdáandi og segist kunna að laga gott kaffi en ekki að elda. Hann kann þó að njóta góðs matar og bætir við að eiginkona hans, Nadine Guðrún Yaghi, sé afar góð í matargerðinni.

Miklar annir hafa verið hjá Snorra síðustu daga og vikur svo hann hefur ekki náð að halda í sínar föstu matarvenjur.

„Ástríða mín fyrir mat hefur legið í láginni á undanförnum vikum enda vill það víst brenna við í kosningabaráttu að næring mætir afgangi hjá fólki og ef hún kemst að stenst hún ekki ýtrustu gæðakröfur. Ég borða bara eitthvað þegar ég man eftir því – það er svo mikið að gera,“ segir Snorri sposkur á svip. 

Kettlingurinn Dóra Júlía fær sér vatn úr eldhúskranunum.
Kettlingurinn Dóra Júlía fær sér vatn úr eldhúskranunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ástríðan beinist að nýrri kaffivél

„Mín ástríða í matartengdum efnum núna beinist hins vegar almennt að nýrri kaffivél minni sem við fengum í brúðkaupsgjöf í sumar. Ég átti mér draum sem unglingur að verða kaffibarþjónn en fékk aldrei vinnu. Núna læt ég gamlan draum rætast og menn eru almennt ánægðir með frammistöðuna. Þetta er mikil list,“ segir Snorri og brosir.

Snorri hefur mikið dálæti af nýju kaffivélinni sem þau hjónin …
Snorri hefur mikið dálæti af nýju kaffivélinni sem þau hjónin fengu í brúðargjöf í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snorri gaf sér tíma til að svara nokkrum laufléttum spurningum í tengslum við matarvenjur sínar og ást á mat þó að kjördagur nálgist óðfluga. Einungis einn dagur er til kosninga en kjördagur er á morgun, laugardag 30. nóvember.

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Fullt af steiktum eggjum, þegar allt er eðlilegt. En þessa dagana dett ég stundum í beyglu með kanil, rúsínum og smjöri. Reyndar líka hafragrautur og gef yngsta stráknum mínum með.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Hleðsla og eldstafir er eitthvað sem ég gríp reglulega í.“

Mikilvægt að borða góðan mat með góðum vinum

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Ef það er mikið að gera finnst mér ekkert heilagt að það þurfi að vera heitur réttur á afmörkuðum matartíma. En það getur verið mikilvægt að borða góðan mat með góðum félögum.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Sódavatn, smjör, egg, majónes og ost.“

Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„Lambakórónur.“

Hvað viltu á pítsuna þína?

„Helst kjötálegg; pepperóní, skinku, beikon. Konan mín er aðeins fágaðri, þannig að pepperóní, rjómaostur og eitthvað grænmeti verður venjulega fyrir valinu.“

Færð þú þér pylsu með öllu?

„Auðvitað! Tvíhleypa getur líka átt vel við.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?

„Ég prófaði nýlega staðinn OTO og var mjög hrifinn. Fönix á Höfða er líka mikið tekinn í fjölskyldunni.“

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja, sem er á „bucket-listanum“?

„Ég held að ég hafi aldrei farið á Michelin-veitingastað. Þyrfti að taka góðan þannig í Þýskalandi eða á Ítalíu.“

Hefur matarást á konu sinni

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Konan mín. Það er ótrúlegt hvernig hún fer að í eldhúsinu og eiginlega sama hverju hún kemur nálægt, þá kemur einhver veisla út. Fjölmargir hafa á henni sérstaka matarást og ég hef það auðvitað og svo líka almenna ást.“

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Það er ekki til fyrirmyndar, en hvítur Monster getur dimmu í dagsljós breytt. Í víni er ég hrifinn af freyðivíni og auðvitað bjór. Ég er samt í samúðarbindindi einmitt núna af því að konan mín er ólétt.“

Ertu góður kokkur?

„Nei, ég kann ekki að elda en hafði það alltaf á stefnuskránni með hækkandi aldri. Svo kynntist ég konunni minni og það er bara ekki rökrétt að ég reyni fyrir mér í eldhúsinu eins og hún er góð í þessu. Eina lausnin væri að hún skildi við mig af því að ég kann ekki að elda en þá þyrfti ég náttúrulega að læra að elda og þá væri forsendan fyrir skilnaðinum brostin. Þannig að þetta er pattstaða.“

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert