Calor er sá eini á Vesturlandi sem státar af þessari viðurkenningu

Herborg Svana Hjelm hótelstjóri á Hótel Varmalandi er afar stolt …
Herborg Svana Hjelm hótelstjóri á Hótel Varmalandi er afar stolt af viðurkenningunni sem þau fengu á dögunum fyrir veitingastaðinn Calor og hótelið. Samsett mynd

Hótel Varmaland, sem staðsett er í Varmalandi í Borgarfirði, ásamt veitingastaðnum Calor hlutu gæða- og umhverfisvottun Vakans og fjögurra stjörnu flokkun á dögunum og bronsmerki í umhverfishluta.

Hótel Varmaland er vottað sem fjögurra stjörnu hótel samkvæmt gæðaviðmiðum Vakans en það er eina viðurkennda hótelflokkunin hérlendis. Gæðaviðmið Vakans fyrir hótel byggja á viðmiðum Hotelstars sem samtals tuttugu og eitt Evrópuland vinnur eftir.

Hótelstjórinn Herborg Svana Hjelm er í skýjunum með viðurkenninguna og stolt af vinnu teymisins á Hótel Varmalandi og veitingastaðnum Calor. Hún horfir björtum augum til framtíðarinnar.

Leggja metnað sinn í að matarupplifun gesta sé góð

Veitingastaðurinn Calor á hótelinu er eini staðurinn á Vesturlandi sem státar af þessari viðurkenningu. Vottunin er staðfesting á framúrskarandi gæðum í bæði matreiðslu og þjónustu, sem endurspeglar metnað og skuldbindingu Calor til að bjóða gestum einstaka upplifun.

„Calor er þekktur fyrir matseðil sem byggir á norrænni matargerð með áhrifum frá Frakklandi, þar sem hráefni úr héraði fær að njóta sín. Gæðavottunin undirstrikar markmið staðarins um að veita hámarks gæði í öllu sem gert er, frá matargerð til framreiðslu og upplifunar gesta,“ segir Herborg með bros á vör.

Lagt er upp úr því að vera með gæðahráefni úr nærumhverfinu og matreiða frá grunni. Einnig er lagt upp úr því að bjóða upp á sérstaka matarupplifunarviðburði, til að mynda var Sindri Guðbrandur Sigurðsson matreiðslumeistari og stjörnukokkur með pop-up á veitingastaðnum á árinu sem sló í gegn. Sindri er á leið til Lyon á nýju ári að keppa í stærstu og virtustu matreiðslukeppni í heimi, Bocuse d'Or, og mun án efa gera flotta hluti þar.

„Við erum mjög stolt af því að vera eini gæðavottaði veitingastaðurinn á Vesturlandi. Þetta er mikil viðurkenning á þeirri vinnu sem hefur verið lögð í að skapa stað sem sameinar gæði, nýsköpun og sjálfbærni,“ segir Herborg jafnframt.

Herborg segir að þessi árangur endurspegli einnig skuldbindingu Hótel Varmalands til umhverfisábyrgðar og sjálfbærni.

„Hótelið sjálft hefur hlotið staðfestingu á því að uppfylla 4 stjörnu kröfur Vakans og leggur áherslu á að bjóða gestum þjónustu sem byggir á ábyrgri nýtingu auðlinda og verndun náttúrunnar.“

Calor er nú til að mynda með aukinn sýnileika á ýmsum vettvangi, þar á meðal VisitIceland.com, ferdalag.is og vefjum áfangastaðastofanna, og stendur sem fyrirmynd um hágæða veitingastað á Vesturlandi.

Var ferlið langt til að ná þessari gæðavottun?

„Já, ferlið er ítarlegt og krefst mikillar vinnu. Það felur í sér að uppfylla strangar gæðakröfur á öllum sviðum starfseminnar, bæði hvað varðar þjónustu við gesti og sjálfbærni. Við fórum í gegnum alla þætti starfseminnar, frá innviðum og starfsferlum til umhverfisáætlunar og samfélagsábyrgðar. Þetta er því verkefni sem krefst bæði skipulagningar og samstarfs meðal starfsfólks.

Calor er þekktur fyrir matseðil sem byggir á norrænni matargerð …
Calor er þekktur fyrir matseðil sem byggir á norrænni matargerð með áhrifum frá Frakklandi, þar sem hráefni úr héraði fær að njóta sín. Ljósmynd/Aðsend

Styrkir ímynd okkar og eykur sýnileika

Hvað þýðir þetta fyrir ykkur, að vera komin með þessa gæðavottun?

„Þetta er mikilvæg viðurkenning á því starfi sem við höfum lagt í að veita framúrskarandi þjónustu og stuðla að sjálfbærni. Vottunin er einnig traustsyfirlýsing til gesta okkar um að við uppfyllum alþjóðleg gæðaviðmið. Hún mun hjálpa okkur að styrkja ímynd okkar og auka sýnileika Hótel Varmalands og veitingastaðarins Calor.“

Er veitingastaðurinn mikið heimsóttur af matargestum utan hótelsins?

„Já, veitingastaðurinn Calor hefur orðið vinsæll meðal gesta bæði innan og utan hótelsins. Við fáum reglulega heimsóknir frá fólki í nágrenninu og ferðamönnum sem leita að mat í hæsta gæðaflokki. Útsýnið yfir Borgarfjörð og áherslan á norræna matargerð með frönskum áhrifum gerir staðinn að sérstakri upplifun.“

Finnst ykkur skipta sköpun að bjóða upp á veitingar í hæsta gæðaflokki?

„Algjörlega. Maturinn er stór hluti af upplifun gesta og við viljum að Calor standi fyrir gæði, sköpun og frumlegheit. Að bjóða upp á veitingar í hæsta gæðaflokki eykur ekki bara ánægju gesta heldur styrkir það ímynd Hótel Varmalands sem staðar sem leggur áherslu á gæði í öllum þáttum.“

Meðvituð um kröfu um umhverfisábyrgð og sjálfbærni

Hvað er það sem þarf að einkenna gott hótel á landsbyggðinni að þínu mati?

„Á landsbyggðinni er mikilvægt að skapa hlýlegt og persónulegt andrúmsloft þar sem gestir finna fyrir gestrisni og fagmennsku. Að bjóða upp á þægindi, hreinlæti, góða þjónustu og einstaka upplifun sem tengist umhverfinu er lykilatriði. Að vera staðsettur í fallegri náttúru eins og Hótel Varmaland krefst þess líka að nýta það og bjóða gestum eitthvað einstakt, eins og norðurljósaferðir eða afþreyingu í nánasta umhverfi,“ segir Herborg.

„Við erum meðvituð um að sífellt meiri krafa er gerð af neytendum um umhverfisábyrgð og sjálfbærni. Því leggjum við mikla áherslu á þessa málaflokka í okkar starfsemi, án þess að fórna gæðum eða þægindum í þjónustu við gesti okkar.“

Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina í hótelrekstrinum í Varmalandi?

„Ég vil leggja áherslu á að við erum staðráðin í að þróa áfram hótelið og veitingastaðinn með áherslu á gæði og sjálfbærni. Við erum stolt af okkar vinnu og hlökkum til að taka á móti gestum sem vilja njóta þess besta sem Borgarfjörður og Vesturland hafa upp á að bjóða,“ segir Herborg að lokum.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert