Alþjóðlega veitingakeðjan Wok to Walk opnaði í dag fyrsta veitingastað sinn á Íslandi á Smáratorgi og verða tveir til viðbótar opnaðir innan tíðar. Wok to Walk rekur yfir eitt hundrað veitingastaði við í mörgum helstu stórborgum heims í 18 löndum og nú hefur Ísland bæst í hópinn.
Wok to Walk er í eigu japanska stórfyrirtækisins Toridoll en er rekið af Einari Erni Einarssyni hér á landi, að því er fram kemur í tilkynningu.
Vinsælasti götubitinn í Evrópu
„Wok to Walk er líklega öflugasta keðjan í hópi Wok veitingastaða í heiminum og vinsælasti asíski götubiti Evrópu og það er mjög spennandi að taka þátt í opnuninni hér heima, enda maturinn frábær og vörumerkið sterkt að því segir í tilkynningu. Gæði og úrval er lykilatriði hjá Wok to Walk og það tryggjum við,” er haft eftir Einari Erni Einarssyni, framkvæmdastjóra Wok to Walk, í tilkynningu.
Fyrsti Wok to Walk veitingastaðurinn á Íslandi er á Smáratorgi en reiknað er með að næsti staður opni að Reykjavíkurvegi 66 í Hafnarfirði og þriðji staðurinn í Borgartúni 29 í Reykjavík.
„Ég hreinlega elska asískan mat og féll algjörlega fyrir Wok to Walk þegar ég kynntist þessum asíska götubita. Ég er sannfærður um að Íslendingar verða jafn hrifnir og ég af þeim frábæra mat sem þar er matreiddur. Við munum bjóða upp á mikið úrval gæðarétta á borð við Pad Thai, Yakisoba, Donburi og grænmetisrétti, svo eitthvað sé nefnt. Við getum fullyrt að bragðgæði, ferskleiki, gott úrval og strangir gæðastaðlar fylgi öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur. Við vinnum með traustum og ábyrgum aðilum eins og Hollt & Gott, Esju og Sýru sem framleiða fyrir okkur og tryggja bestu mögulegu gæði og allt okkar starfsfólk er sérþjálfað til starfa,” segir Einar Örn enn fremur í tilkynningunni og kveðst hann vera orðinn mjög spenntur fyrir opnuninni.
Einar Örn hefur áratuga reynslu af rekstri veitingastaða, en hann stofnaði Serrano árið 2002 og er framkvæmdastjóri Zócalo, sem rekur m.a. veitingastaði í London, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn.