Stefán Pétur Bachmann Bjarnason bakari hjá Hygge coffee and micro bakery svipti hulunni af sinni uppáhaldslagtertu á dögunum í viðtali hjá undirritaðri í Morgunblaðinu. Hann er að eigin sögn jólabarn og nýtur þess að baka kræsingar sem minna hann á bernskuárin á jólunum.
Stefán deilir með lesendum uppskrift að lagköku með smjörkremi. „Þessi er í miklu uppáhaldi hjá mér og er ómissandi með heitu kakói á jóladagsmorgun,“ segir Stefán og brosir.
Lagterta með smjörkremi
- 1070 g hveiti
- 320 g smjörlíki
- 320 g smjör
- 430 g sykur
- 2 stk. egg
- 430 g síróp
- 35 g lyftiduft
- 40 g matarsódi
- 20 g negull
- 25 g kakó
- 25 g kanill
Aðferð:
- Setjið allt hráefnið saman í hrærivélarskál og vinnið saman með spaðanum og geymið síðan inni í kæli yfir nótt.
- Rúllið daginn eftir á tvær bökunarplötur og bakið á 200°C hita með blæstri í 8 mínútur. Kælið síðan plöturnar niður og skerið til helminga.
Smjörkrem
- 540 g smjör
- 180 g smjörlíki
- 720 g flórsykur
- 55 g mjólk
- 11 g vanilludropar
Aðferð:
- Vinnið allt saman í hrærivél með spaðanum þar til kremið er orðið ljóst og loftkennt.
- Munið eftir að skafa reglulega niður kantana á hrærivélarskálinni.
Samsetning
- Leggið einn helminginn af botni á skurðarbretti eða bökunarpappír og smyrjið 500 g af smjörkremi ofan á hann jafnt.
- Leggið síðan annan helming af botni ofan á og smyrjið 500 g af smjörkremi ofan á hann jafnt.
- Endurtakið þetta einu sinni enn og leggið svo síðasta botninn yfir, það eiga að verða þrjú lög af smjörkremi og fjögur lög af kökubotnum á endanum.
- Látið tertuna standa yfir nótt með plast yfir sér áður en þið skerið hana niður í viðeigandi stærðir.