Á jólum og áramótum er öllu tjaldað til í mat og drykk. Flestir eru vanafastir og halda í hefðirnar en tilvalið er að finna einhverjar nýjar og spennandi uppskriftir til að bera fram með matnum. Löng hefð er fyrir því að hafa rauðkál og rauðrófur á þessum árstíma en það jafnast fátt á við að hafa þessar kræsingar heimalagaðar. Eins getur gott jólamauk lyft steikinni í hæstu hæðir. Hér bjóðum við upp á dásamlega uppskrift úr rauðu og jólalegu hráefni sem gera allan hátíðarmat enn betri.
Þetta rauðkál er tilvalið að gera daginn áður því þá nær það að draga í sig kryddið og bragðið verður dýpra fyrir vikið. Rauðkálið er bæði gott heitt og kalt. Uppskriftin ætti duga vel sem meðlæti fyrir fjóra.
Heimagert jólarauðkál með eplum og kanil
- 1 lítill haus rauðkál eða ½ stór, skorið í þunnar ræmur
- 1 grænt epli, afhýtt og rifið
- 2 msk. granateplasíróp (eða trönuberjasafi)
- 40 ml eplaedik
- 40 ml balsamedik eða rauðvínsedik
- 3 msk. púðursykur
- 2 tsk. salt
- 1 kanilstöng
Aðferð:
- Setjið allt hráefnið í stóran pott og látið sjóða í u.þ.b. 5 mínútur, hrærið í á meðan. Setjið lok yfir og lækkið hitann, látið sjóða við vægan hita í 40-45 mínútur.
- Hrærið reglulega í og bætið við ögn af vatni ef þurfa þykir. Þegar u.þ.b. 5 mínútur eru eftir af suðutímanum, smakkið þá til og bætið við sýru, sætu eða kryddi ef þurfa þykir.
- Þegar rauðkálið er orðið mjúkt, þykkt og glansandi er það tilbúið til að bera fram.
- Það geymist vel í ísskáp í u.þ.b. 5 daga í vel lokuðu íláti og því tilvalið að gera það á Þorláksmessu.