Mögulega besta brauð í heimi borið fram með wasabi-smjöri

Syndsamlega gott japanskt mjólkurbrauð borið fram með þeyttu wasabi-smjöri.
Syndsamlega gott japanskt mjólkurbrauð borið fram með þeyttu wasabi-smjöri. mbl.is/Sjöfn

Ég bauð upp á ómótstæðilega gott japanskt mjólkurbrauð um hátíðirnar og þeytti með því wasabi-smjör sem sló í gegn. Brauðið passar með ótrúlega mörgu, til að mynda bar ég það fram með villibráðarsmakki, dýrindis nautalund í trufflumaríneringu og jóladögurði af betri gerðinni. Vert er að leyfa ykkur lesendum að njóta þessarar uppskriftar og einnig að ljóstra upp þeim sem á heiðurinn af henni.

Svipti hulunni af uppskriftinni fyrst árið 2023

En það er Stefán Pét­ur Bachmann Bjarna­son bakari hjá Hyg­ge Café Micro Bakery sem svipt­i hul­unni að upp­skrift­inni að hinu syndsamlega góða japanska mjólkurbrauði á matarvefnum á árinu 2023 rétt áður enn hann fór utan að keppa með landsliði íslenskra bakara. Þá var hann fyrirliði liðsins.

Einnig er hægt að fá þetta sælkerabrauð á kaffi­hús­inu Hyg­ge Café Micro Bakery en ég mæli með því að þið prófið að baka þetta brauð. Það getur ekki klikkað.

Uppskriftin af wasabi-smjörinu fylgir einnig með.

Þeytt smjör er svo miklu betra og sérstaklega með wasabi-bragði …
Þeytt smjör er svo miklu betra og sérstaklega með wasabi-bragði og örlitlu sjávarsalti. mbl.is/Sjöfn

Japanskt mjólkurbrauð með hunangsgljáa

  • 310 g hveiti
  • 195 ml mjólk
  • 18 g sykur
  • 5 g sjávarsalt
  • 14 g ferskt ger eða 5 g af þurrgeri
  • 30 g Tanzong (uppskrift fyrir neðan)

Tanzong

  • 50 g mjólk
  • 10 g hveiti
Hunangsgljái
  • 100 g hunang
  • 25 g smjör

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita Tanzong á vægum hita þar til það er farið að þykkna, takið það þá af hitanum.
  2. Setjið síðan öll hráefnin saman í skál og vinnið saman í fjórar mínútur á hægum hraða og átta mínútur hratt.
  3. Eftir það látið þið deigið hvíla í 30 mínútur undir rökum klút.
  4. Deilið síðan deiginu niður í þrjár kúlur og setjið í form. Látið hefast í klukkustund á rökum stað. Bakið síðan brauðin á 190°C hita eða þar til þau hafa náð fallegum gullnum lit eða í um það bil 10 mínútur.
  5. Á meðan brauðin eru í ofninum hitið þá smjör og hunang saman á lágum hita þar til smjörið er bráðið.
  6. Penslið síðan hunangsgljáanum yfir brauðin þegar þau koma úr ofninum.

Wasabi-smjör

  • 250 g smjör
  • wasabi-duft eftir smekk
  • Örlítið salt
  • Örlítill sítrónusafi úr ferskri sítrónu

Aðferð:

  1. Blandið wasabi-duftinu með vatni í lítilli skál.
  2. Leyfið að standa í 5 mínútur.
  3. Þeytið smjör, bætið wasabi-inu út í, smá salti og smá sítrónu eftir smekk.
  4. Setjið á fallegan disk og skreytið að vild.
  5. Parast vel með kjöti, fisk, bökuðum kartöflum og öllu því sem ykkur dettur í hug.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert