Ég bauð upp á ómótstæðilega gott japanskt mjólkurbrauð um hátíðirnar og þeytti með því wasabi-smjör sem sló í gegn. Brauðið passar með ótrúlega mörgu, til að mynda bar ég það fram með villibráðarsmakki, dýrindis nautalund í trufflumaríneringu og jóladögurði af betri gerðinni. Vert er að leyfa ykkur lesendum að njóta þessarar uppskriftar og einnig að ljóstra upp þeim sem á heiðurinn af henni.
Svipti hulunni af uppskriftinni fyrst árið 2023
En það er Stefán Pétur Bachmann Bjarnason bakari hjá Hygge Café Micro Bakery sem svipti hulunni að uppskriftinni að hinu syndsamlega góða japanska mjólkurbrauði á matarvefnum á árinu 2023 rétt áður enn hann fór utan að keppa með landsliði íslenskra bakara. Þá var hann fyrirliði liðsins.
Einnig er hægt að fá þetta sælkerabrauð á kaffihúsinu Hygge Café Micro Bakery en ég mæli með því að þið prófið að baka þetta brauð. Það getur ekki klikkað.
Uppskriftin af wasabi-smjörinu fylgir einnig með.
Þeytt smjör er svo miklu betra og sérstaklega með wasabi-bragði og örlitlu sjávarsalti.
mbl.is/Sjöfn
Japanskt mjólkurbrauð með hunangsgljáa
- 310 g hveiti
- 195 ml mjólk
- 18 g sykur
- 5 g sjávarsalt
- 14 g ferskt ger eða 5 g af þurrgeri
- 30 g Tanzong (uppskrift fyrir neðan)
Tanzong
Hunangsgljái
Aðferð:
- Byrjið á því að hita Tanzong á vægum hita þar til það er farið að þykkna, takið það þá af hitanum.
- Setjið síðan öll hráefnin saman í skál og vinnið saman í fjórar mínútur á hægum hraða og átta mínútur hratt.
- Eftir það látið þið deigið hvíla í 30 mínútur undir rökum klút.
- Deilið síðan deiginu niður í þrjár kúlur og setjið í form. Látið hefast í klukkustund á rökum stað. Bakið síðan brauðin á 190°C hita eða þar til þau hafa náð fallegum gullnum lit eða í um það bil 10 mínútur.
- Á meðan brauðin eru í ofninum hitið þá smjör og hunang saman á lágum hita þar til smjörið er bráðið.
- Penslið síðan hunangsgljáanum yfir brauðin þegar þau koma úr ofninum.
Wasabi-smjör
- 250 g smjör
- wasabi-duft eftir smekk
- Örlítið salt
- Örlítill sítrónusafi úr ferskri sítrónu
Aðferð:
- Blandið wasabi-duftinu með vatni í lítilli skál.
- Leyfið að standa í 5 mínútur.
- Þeytið smjör, bætið wasabi-inu út í, smá salti og smá sítrónu eftir smekk.
- Setjið á fallegan disk og skreytið að vild.
- Parast vel með kjöti, fisk, bökuðum kartöflum og öllu því sem ykkur dettur í hug.