Ivan Svanur Corvasce barþjónn ljóstrar upp skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni. Það er fátt sem gerir hann ánægðari en að elda góðan mat og njóta með sínum bestu.
Gott rauðvín er líka eitt af því sem Ivan kann vel að meta og svo er hann eflaust mörgum kunnugur fyrir að kenna fólki að búa til fallega og ljúffenga kokteila. Ivan er stofnandi Reykjavík Cocktails, Kokteilaskólans og Vínskólans á Spritz og hefur því verið iðinn að kenna öðrum list sína þar.
Matarástríða Ivans er sterk og hefur ávallt verið til staðar að hans sögn. „Ég er hálfur Ítali og er með sterkar rætur þaðan. Ég á eina ömmu sem er mér mikil fyrirmynd þegar kemur að mat,“ segir Ivan og brosir.
„Ég vanda valið þegar kemur að hráefni og tek aukakrók í innkaupaleiðangrinum til að velja vel. Ég er ekkert sérstaklega þolinmóður svo ég baka lítið en ég get eytt mörgum klukkutímum í eldhúsinu að nostra við matinn.
Á sumrin grilla ég mikið á kolagrillinu mínu og glugga ég þá oft í Sumac matreiðslubókina hans Þráins Freys Vigfússonar stjörnukokks til að sækja mér innblástur enda bókin uppfull af öðruvísi grilluðum grænmetis- og fiskiréttum sem ég kann vel að meta. Síðan geri ég mitt eigið súrkál, konan gerir Kombucha og Kefir sem mér finnst mjög áhugavert, okkur finnst báðum gaman að grúska í gerjuðum mat.“
Ivan gaf sér tíma til að svara nokkrum laufléttum spurningum í tengslum við matarvenjur sínar og ást á mat en það er ekki víst að hann fái sér þorramat þó að þorrinn nálgist óðfluga.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Það er frekar einfalt en ég fæ mér alltaf það sama eða 300 g af hreinu skyri og 40 g af hnetu- og fræblöndu sem ég blanda sjálfur.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég er ekki mikið í því og gleymi oft að borða þegar ég er önnum kafinn í vinnunni en annars er markmiðið að borða eins lítið unnið og hægt er. Þá er það banani, hnetur eða eitthvað slíkt.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Þegar ég er í vinnutörn þá finnst mér það ekki. Ég bara gríp það sem er auðveldast og reyni að hafa það hollt en þegar ég er í fríi eða um helgar þá finnst mér hádegismaturinn vera ómissandi. Ég lít á hádegismat sem auka tækifæri til að borða eitthvað gott á daginn og svo finnst mér bröns ofboðslega góður.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Rjómaost, ost, skyr, gott úrval af grænmeti og Sriracha.“
Ferðu á Þorrablót?
„Nei, ég á það alveg inni.“
Borðar þú þorramat?
„Nei, því miður, ég á það inni fyrir efri árin.“
Hvað finnst þér best af þorramatnum?
„Ég verð að játa að ég hef ekki smakkað margar sortir og því dettur mér bara ekkert í hug sem mér finnst gott, ég er alveg opinn fyrir því. Ég hef bara ekki enn borið mig eftir því að smakka nóg af þorramat.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Brut er alltaf ofarlega á lista hjá mér enda frábær staður með frumlegan matseðil og áhugaverðan vínseðil. Svo fer ég oft á Kol í hádeginu og geng aldrei vonsvikinn út af Snaps. Fiskfélagið hefur líka verið í uppáhaldi hjá mér en mér finnst þeir gera besta sushi á Íslandi.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Klassíska parmapítsan með hráskinku, klettasalati, parmesan, trufluolíu og ristuðum furuhnetum. Svo fæ ég mér glas af Isole & Olena Chianti með ef það er föstudagur. Frábær samsetning sem kemur mér alltaf á óvart.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„Allt nema hráan, meira af sinnepi en remó.“
Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?
„Lasanja sem konan mín eldar er frá annarri plánetu og slær alltaf í gegn. Annars elska ég líka gott sushi og heimagerðar pítsur.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Salat, allan daginn, alla daga.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Rauðvín en annars finnst mér líka frábært hvað er mikið til af óáfengum bjór og léttbjór. Ég drekk ekki gos eða orkudrykki og dagurinn minn byrjar ekki fyrr en ég fæ mér espresso.“