„Getur farið alveg með mig ef ég fæ vondan mat“

Rakel María Hjaltadóttir ljóstrar upp matarvenjum sínum og ást sinni …
Rakel María Hjaltadóttir ljóstrar upp matarvenjum sínum og ást sinni á súkkulaði. Ljósmynd/Aðsend

Rakel María Hjaltadóttir hlaupari sviptir hulunni af matarvenjum sínum að þessu sinni en hún elskar góðan mat og þegar hún leggst á koddann á kvöldin hugsar hún um hvað hún ætlar að borða daginn eftir.

Hún er 31 árs gömul og fyrir utan að vera hlaupari er Rakel María líka þjálfari og förðunarfræðingur.

„Ég starfa sem förðunarfræðingur hjá Stöð 2 ásamt því að þjálfa hlaup og lyftingar hjá Hreyfingu. Ég er algjör sælkeri og elska góðan mat, það kemur sér því afar vel að ég stunda ultra hlaup og hleyp þar af leiðandi og hreyfi mig mikið. Gott jafnvægi skiptir mig miklu máli og er ein af mínum ástríðum,“ segir Rakel María og brosir sínu gullfallega brosi.

Rakel María hefur svo sannarlega farið víða í hlaupum sínum.
Rakel María hefur svo sannarlega farið víða í hlaupum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Líka algjör nammigrís

Matarástríðan mín er mikil, ég elska góðan mat og þegar ég leggst á koddann á kvöldin hugsa ég um hvað ég ætla að borða daginn eftir. Ég er líka algjör nammigrís og ég gæti ekki lifað af án súkkulaðis. Það getur verið vandasamt að vera með svona mikla matarást því ég er líka mjög matsár. Eins og ég er nú glöð manneskja að eðlisfari þá getur það alveg farið með mig ef ég fæ vondan mat. Þá er mér hreinlega ekki skemmt og ég get orðið verulega sár,“ segir Rakel María á einlægan hátt.

„Mér finnst mjög mikilvægt að halda í jafnvægi í mataræðinu. Passa upp á að fá alltaf inn góða orku og rétta næringu svo ég hafi orku í öll verkefni dagsins en svo þarf sælkerinn í mér líka að fá að njóta sín. Mér finnst mikilvægt að leyfa sér líka það sem manni þykir gott, lífið er bara of stutt til að leyfa sér ekki gott súkkulaði.“

Hefur ekki borðað morgunmat í mörg ár

Rakel María gaf sér tíma til að svara nokkrum laufléttum spurningum í tengslum við matarvenjur sínar og ást á mat þar sem hún er í fríi í Kólumbíu.

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Ég hef ekki borðað morgunmat í mörg ár. Ég hef hreinlega ekki lyst á morgnanna svo ég hef tamið mér að fasta fram á hádegi. Ég drekk ekki heldur kaffi svo ég byrja daginn alltaf á að drekka 500 ml af vatni og set tvær skeiðar af Amino dufti, það er amino-sýrir með smá koffíni, út í til að koma mér í gang fyrir daginn.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Ég er óttalegur nartari og þyrfti kannski að reyna að venja mig af því. Ég reyni helst að grípa í eitthvað hollt, eins og egg eða Hleðslu svo finnst mér æði að grípa mér sæta papriku, þessar löngu. Ég get svo ekki neitað því að ég gríp mér einn súkkulaðimola hér og þar yfir daginn.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Já, algjörlega. Það er yfirleitt fyrsta máltíð dagsins hjá mér. Þá er ég oftast búin að hlaupa eða æfa og passa mig því að fá mér alltaf næringarríkan og góðan hádegisverð.“

Rakel María Hjaltadóttir er líka þjálfari hjá Hreyfingu.
Rakel María Hjaltadóttir er líka þjálfari hjá Hreyfingu. Ljósmynd/Aðsend

Alltaf til egg í ísskápnum

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Ég borða mjög mikið af eggjum og á alltaf til egg í ísskápnum. Ég drekk svo að minnsta kosti eina Hleðslu á dag svo hún verður að vera til líka.“

Ferðu á þorrablót?

„Ótrúlegt en satt þá hef ég aldrei farið á þorrablót. Ég er nýlega flutt upp í Árbæ svo ég set það á listann hjá mér að breyta þessu og skella mér á Fylkisblótið.“

Borðar þú þorramat?

„Ég get verið gikkur og þorramaturinn er eitthvað sem ratar ekki inn fyrir matarástina hjá mér. Ég hef reyndar ekki mikið gefið honum séns en ég þykist vita að þetta sé ekki minn tebolli.“

Hvað finnst þér best af þorramatnum?

„Ég reyndar elska harðfisk, hann er bæði bragðgóður og algjör próteinbomba.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað, hvert ferðu?

„Ég fer í mat og drykk á Tapas-barnum. Ég elska stemninguna þar. Ég fæ oft mikinn valkvíða þegar ég fer út að borða, hrædd við að verða matsár, þess vegna elska ég smárétti. Mér finnst svo gaman að geta pantað alls konar rétti. Ég fer síðan til að fullkomna kvöldið á Fjallkonunni í eftirrétt.“

Ekki pítsa nema það sé ananas á henni

Hvað vilt þú á pítsuna þína?

„Ég er alveg dugleg að breyta til en alltaf ananas. Það er ekki pítsa nema það sé ananas á henni. Undanfarið hef ég líka elskað að setja döðlur og rjómaost.“

Hvað færð þú þér á pylsuna þína?

„Ég borða ekki pylsur og hef aldrei gert. Þegar ég var barn vildi ég alltaf bara fá pylsubrauð með tómatsósu.“

Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?

„Ég er mikil salatkona og elska að borða gott, matarmikið salat með kjúkling eða risarækjum. Helst að hafa einhverja góða ávexti í því eins og vínber, mangó eða perur og góða dressingu.
Svona fyrir utan það þá er hátíðarkalkúnninn hans pabba bestur. Sætkartöflumúsin, fyllingin og allt sem fylgir gerir þetta að uppáhaldsmáltíð ársins hjá mér.“

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Alltaf frekar salat.“

Drekkur meira og minna bara vatn

Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Ég er með ofboðslega leiðinlegt svar við þessu en ég drekk meira og minna bara vatn. Ég er alltaf með vatnsbrúsa með mér hvert sem ég fer. Ég er reyndar algjör kálfur og mér finnst gott að drekka mjólk, Kókómjólk er náttúrlega best en heilsunnar vegna er ég búin að skipta henni út fyrir Hleðslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert