Yfirkokkurinn, Óðinn Birgir Árnason og einn eigenda, á nýja fiskistaðnum Mar á Frakkastíg er snillingur að töfra fram dýrðlega fiskrétti sem lokka til sín svanga munna. Ilmurinn er lokkandi á Frakkastígnum og ekki hægt að komast hjá því að finna hann þegar gengið er frá veitingastaðnum.
Á dögunum þegar blaðamaður Morgunblaðsins bar að garði galdraði Óðinn fram þennan ljúffenga fiskrétt, léttsaltaðan þorsk í tómatbasilsósu, sem hann bar fram á koparpönnu.Hann ljóstraði upp uppskriftinni fyrir lesendur Morgunblaðsins og nú er bara að prófa og njóta.
Léttsaltaður þorskur í tómatbasilsósu
Fyrir fjóra
- 1 kg létt saltaður þorskur skorinn í steikur
Sósa
- 300 g heilir tómatar í dós
- 300 g vatn
- 70 g rauðvín
- 2 stk. skallottlaukur skorinn gróflega (má nota aðra lauka)
- 25 g basilika
- 30 g ólífur
- salt eftir smekk
Aðferð:
- Setjið lauk í pott með olíu og fulleldið án mikillar brúnunar.
- Hellið rauðvíni yfir og sjóðið niður um helming.
- Bætið tómötum og vatni við og sjóðið á vægum hita í um klukkutíma eða þar til bragðið á sósunni mýkist.
- Saxið basiliku og bætið út í sósuna.
- Hér getur maður valið hversu matarmikil sósan er með því að setja töfrasprota í hana eða sleppa því.
- Takið sósuna af hellunni og bætið ólífum við. Saltið eftir smekk.
- Steikið fiskinn á funheitri pönnu með smjöri og/eða ólífuolíu. Þegar góð steiking er komin á aðra hliðina má snúa fisknum við og hella sósunni yfir.
- Út í það má bæta kirsuberjatómötum og ef til vill fleiri ólífum og leyfa fiskinum að malla í sósunni þar til hann er fulleldaður.
- Gott er að bera fram með kartöflum eða góðu pasta.