Vigdísarterta er himnesk blanda af möndlubotnum, silkimjúku rjómakremi með Baileys líkjöri og dáleiðandi súkkulaðihjúp. Þessi terta er fullkomin fyrir sérstök tilefni þar sem hún mun heilla alla gesti.
Árni Þorvarðarson bakari nýtur sín ávallt með hrærivélina.
mbl.is/Eyþór
Hér er uppskrift frá Árna Þorvarðarsyni, bakara og fagstjóra við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi, sem leiðir þig í gegnum öll skref til að búa til þessa ljúffengu tertu. Svo er fallegt að skreyta hana með íslenska fánanum.
Forsetaleg og ljúffeng djásn að njóta.
mbl.is/Eyþór
Vigdísarterta
Möndlubotnar
- 8 stk. eggjahvítur
- 100 g sykur
- 3 tsk. Cream of tartar
- 179 g möndlumjöl, (fínt malaðar möndlur)
- 200 g flórsykur
- 50 g hveiti
Aðferð:
- Aðskiljið eggjahvítur frá eggjarauðum og passið að engin eggjarauða fari í hvítuna.
- Þeytið eggjahvítur, cream of tartar og sykur saman þar til blandan verður stíf og glansandi.
- Blandið möndlumjöli, flórsykri og hveiti saman í skál. Bætið því varlega saman við eggjahvítublönduna með sleikju.
- Klæðið bökunarplötu með bökunarpappír og setjið marensdeigið í sprautupoka.
- Sprautið eða smyrjið deigið út í 2 cm þykka botna á bökunarpappír.
- Bakið við 210–230°C í 8–12 mínútur.
- Látið botnana kólna alveg áður en þeir eru notaðir.
Rjómakrem
- 4 dl rjómi
- 100 g rjómasúkkulaði
- 20 g smjör
- ½ dl Baileys-líkjör
- 10 g matarlím
Aðferð:
- Saxið súkkulaði og setjið í skál ásamt smjöri.
- Leggið matarlímið í volgt vatn í um það bil 15 mínútur.
- Hitið rjómann að suðu og hellið yfir súkkulaðið og smjörið. Hrærið þar til allt er bráðið og blandan er slétt.
- Hitið Baileys-líkjör upp og blandið matarlíminu við. Þessi blanda fer svo saman við restina af rjómanum og súkkulaðinu, hrærið vel.
- Setjið plastfilmu yfir skálina og geymið í ísskáp yfir nótt.
- Þeytið rjómablönduna upp eins og venjulegan rjóma.
Samsetning
- Setjið einn botn neðst í form og smyrjið helmingnum af rjómakreminu yfir.
- Setjið annan botn ofan á og smyrjið restinni af kreminu yfir.
- Setjið síðasta botninn yfir og þjappið aðeins niður. Geymið kökuna í frysti yfir nótt.
Súkkulaðihjúpur
- 2 dl rjómi
- 350 g rjómasúkkulaði
Aðferð:
- Saxið súkkulaði og hitið rjóma að suðu. Hellið rjómanum yfir súkkulaðið og hrærið þar til blandan er slétt.
- Látið blönduna kólna þar til hún þykknar örlítið.
- Hellið hjúpnum yfir kökuna og smyrjið varlega með spaða.
- Restin af súkkulaðibráðinni er kæld, hrærð upp og sprautuð á kantana.