Stefán Jakobsson, alla jafna kallaður Stebbi JAK, tónlistarmaður og brallari með meiru, finnst matur bæði góður og skemmtilegur. Hann deilir með lesendum matarvefsins skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur að þessu sinni.
Miklar annir eru hjá honum þessa dagana en á morgun, laugardaginn 8. febrúar, keppir hann á fyrra undanúrslitakvöldinu í Söngvakeppni Ríkissjónvarpsins með lagið „Frelsið mitt“. Þá kemur í ljós hvort hann kemst í aðalkeppnina og eigi þá séns að verða fulltrúi Íslands í Eurovision í vor. Hann var því á hlaupum á milli staða í viðtöl þegar undirrituð náði í skottið á honum til að fá innsýn í matarvenjur hans.
„Matur er góður og það á að smakka allan mat,“ segir Stefán með bros á vör og bætir við að fyrir utan það þá sé hann líka lífsnauðsynlegur. „Ég elska mat, allur matur á að fara upp í munn og ofan í maga.“
Hann deilir hér með lesendum matarvefsins skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég er oftast strangheiðarlegur og fæ mér hafragraut, egg og súrmat.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég hef minnkað það mikið. Millumálið, eins og ég kalla það, er mjög oft harðfiskur, próteinstykki eða einhver gamall ostur.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Hádegismatur er bráðnauðsynlegur, honum má alls ekki sleppa.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Ég á alltaf til mjólk, kotasælu, ost(a), pepperóní, grænmeti og ávexti.“
Borðar þú þorramat?
„Ég elska þorramat. Ég borða súrt allt árið um kring, í uppáhaldi er slátur og sviðasulta. Á þorranum bætist við hákarl, súr hvalur og kæst egg. Algjör veisla í munninn.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Við hjónin elskum góð steikhús og pöntum þá oft þrírétta, sem er þá kjöt, kjöt og aftur kjöt. Steikhúsið Tryggvagötu er ofarlega á lista hjá okkur.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Mín uppáhalds pítsa er með pepperóní, ananas og jalapeno. Annars borða ég allt.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„Allt, líka kál.“
Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?
„Nesti er besti réttur sem ég fæ.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Ég vel bæði.“
Finnst þér súkkulaði gott?
„Já, auðvitað.“
Hefur þú borðað á Michelin-veitingastjörnustað?
„Já, oft. Ég var líka með leiðsögn um Michelin-stjörnukokka fyrir nokkrum árum. Það var veisla.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Vatn er langbest.“