Nína Björk Gunnarsdóttir, fagurkeri og áhugamennskja um innanhússhönnun og fasteignir, segir að eldhúsið sé hjartað í húsinu hjá sér. Hún og fjölskyldan hennar býr í fallegu húsi með sál við Grettisgötuna. Það er rómantískur blær yfir húsinu og eldhúsið er hlýlegt í dökkum litum í anda hússins. Hún segir að þar líði öllum best og njóti samverustundanna við matargerð.
Undirrituð fékk Nínu Björk til að opna eldhúsið sitt fyrir lesendum matarvefsins og fara aðeins yfir þá hluti sem prýða rýmið. Í eldhúsinu eru nokkrir hlutir sem Nínu Björk finnst ómissandi að eiga. Sumir eru nauðsynlegri en aðrir.
„Það allra nauðsynlegasta við að eiga í eldhúsinu er að eiga mann sem er góður kokkur, ég er svo lánsöm að eiga einn slíkan. Hann eldar sannkallaðan sælkeramat, við erum öll með matarást af Aroni mínum. Leðursvuntan sem ég gaf honum setur líka punktinn yfir i-ið. Askur hundurinn okkar elskar eldhúsið og situr oftast hjá eldavélinni og vonast til að fá einn góðan matarbita,“ segir Nína Björk og hlær.
„Annars finnst mér líka ómissandi eiga góða kaffivél, góð kaffivél er lykilatriði í eldhúsi og vera með sinn malara, getur verið pínu maus en ég tilbið góðan kaffibolla. Einnig finnst mér skipta máli að eiga góðan blandara til að búa til þeytinga, síðan er það teketill og brauðrist. Við keyptum nýlega sódastreamtæki en það er mjög sniðugt og umhverfisvænna heldur að safna þessum flöskum út um allt. Síðan eru góðir pottar og pönnur ómissandi hlutir í eldhúsið.
Góður hnífur er mikilvægasta verkfærið í eldhúsinu. Það er ekkert verra en lélegur hnífur. Gott bretti til að skera matinn. Kitchen Aid hrærivélin fyrir baksturinn, hún eru líka svo falleg og prýðir eldhúsið. Síðan er það líka salt og pipar baukar sem verða að vera til staðar. Góð krydd eru mjög nauðsynleg, þau setja punktinn yfir i-ið í eldamennskunni.“
Áttu þér uppáhaldsglasalínu?
„Falleg glös eru augnayndi, skiptir engu máli hvaða merki þau eru. Ég kaupi það sem mér finnst fallegt og svo er betra að þau séu þægileg og gott að drekka úr þeim. Glösin úr Epal eru mörg mjög fögur. Ég hef til dæmis séð falleg glös í Góða Hirðinum. Kampavínsglös eru oftast mjög flott og stemningin gerir þau heillandi, gaman að skála í þeim fyrir skemmtilegum augnablikum í lífinu.“
Hvað finnst þér vera heitasta trendið í eldhúsið núna?
„Eldhús í litum, fallegur viður, marmari, granít og eldhúseyjur er það heitasta í dag að mér finnst. Rýmið hefur líka allt að segja hvort þetta sé gamalt eða nýtt hús. Trendið er að búa til stemningu sem hentar rýminu best að hverju sinni.“
Uppáhaldsmatarstellið þitt?
„Ég er ekki byrjuð að safna neinum stellum en mér finnst allt úr keramiki fallegt. Ég væri til í að fjárfesta í þannig matarstelli.“
Áttu þér uppáhaldshnífasett?
„Hnífasettin úr KOKKU ALPHA eru mín uppáhalds. Þau eru úr hnotu og eik, mjög falleg en við erum með meiri eik í okkar húsi svo við ákváðum að elta hana áfram svo við værum ekki með mikið af mismunandi viði.“
Hvort velur þú plast eða viðarbretti til að skera á?
„Ég vel viðarbretti allan daginn. Betra að skera matinn á því og fallegt til að skreyta eldhúsið með þeim.“
Áttu þér þinn uppáhaldskaffibolla?
„Ég á minn uppáhaldskaffibolla en ég hef verið að safna kaffibollum úr keramiki frá frönsku búðinni á Mýrargötu, La Boutique Design. Það er alltaf gaman að drekka kaffi úr fallegum kaffibolla.“
Breytir þú eldhúsinu eftir árstíðum, hvað varðar liti og annað slíkt?
„Nei, ekki mikið.“
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn í eldhúsinu?
„Eldhúseyjan, þar er notalegt að vera að nostra við matargerð. Horfa út um gluggana, það er alltaf skemmtileg sjón að sjá alls konar fólk að labba hér á Grettisgötunni.“
Áttu þér draumaeldavél? Viltu gas eða spam?
„Við erum með gaseldavél, maturinn verður einfaldlega betri og það tekur styttri tíma að elda, maður stýrir hitanum svo vel. Draumaeldavélin mín fæst hjá Eirvík, eldavél með gasbrennurum, Victoria úr Smeg-línunni.“
Ertu með kerti í eldhúsinu?
„Ég elska kerti og er kölluð kertaperri heima hjá mér, ég nota kerti á hverjum degi, aðallega sprittkerti. Kertaljós gera allt betra og fallegra.“
Finnst þér skipta máli að leggja fallega á borð?
„Já, mér finnst mjög mikilvægt að taka upp fallegar servíettur og skreyta smá fyrir matarboð.“
Hvað dreymir þig um að eignast í eldhúsið?
„Nýja eldavél, þessa sem ég nefndi áðan frá Smeg.“