Þessi dýrðlegi þorskhnakki úr smiðju Eyþórs á eftir að slá í gegn

Synsamlega ljúffengur þorskhnakki með kóríandersósu borinn fram með steiktum kartöflum, …
Synsamlega ljúffengur þorskhnakki með kóríandersósu borinn fram með steiktum kartöflum, spínati og baunaspírum úr smiðju Eyþórs Rúnarssonar. Ljósmynd/Eyþór Rúnarsson

Hér erum við að tala um steiktan þorskhnakka með kóríandersósu sem bráðnar í munni sem erfitt er fyrir sælkera að standast. Þessi uppskrift frá Eyþóri Rúnarssyni matreiðslumeistara og yfirkokki á Múlakaffi sem heldur úti heimasíðunni Eyþór kokkur.

Með þorskhnakkanum ber Eyþór fram steiktar kartöflur með spínati og baunaspírum, sem passar mjög vel með kóríandersósunni.

Eyþór Rúnarsson er yfirkokkur á Múlakaffi og heldur líka úti …
Eyþór Rúnarsson er yfirkokkur á Múlakaffi og heldur líka úti uppskriftavef þar sem hann deilir með lesendum sínum uppáhaldsuppskriftum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Steiktur þorskhnakki með kóríandersósu og steiktum kartöflum með spínati og baunaspírum

Þorskhnakkar

  • 800 g þorskhnakkar
  • 100 g gróft salt
  • 100 g smjör
  • Ólífuolía
  • Svartur pipar úr kvörn eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið þorskhnakkann á bökunarplötu og saltið yfir og undir hann með grófa saltinu og látið hann standa á honum í 20 mínútur.
  2. Skolið saltið af þorskhnakkanum með köldu vatni og þerrið hann með eldhúsbréfi.
  3. Skerið hnakkann í 4 steikur og hitið pönnu með vel af ólífuolíu.
  4. Setjið þorskinn á heita pönnuna og steikið í um það bil 3 mínútur eða þar til hann er orðinn gylltur og fallegur.
  5. Snúið steikunum við og bætið smjörinu út á pönnuna og ausið því yfir á meðan þið steikið hnakkann í ca 4 mínútur í viðbót, eða þar til hann er eldaður í gegn.

Steiktar kartöflur með spínati og baunaspírum

  • 800 g soðnar kartöflur (gullauga)
  • ½ rauður chili (gróft skorinn)
  • 1 stk. rauðlaukur (skrældur og gróft skorinn)
  • 1 pk. spínat
  • 4 msk. sojasósa
  • 20 g smjör
  • ½ box baunaspírur
  • ½ búnt kóríander (gróft skorinn)
  • Ólífuolía eftir smekk
  • Sjávarsalt eftir smekk
  • Svartur pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið kartöflurnar í 6 til 8 hluta og setjið á pönnuna með vel af ólífuolíu og steikið þar til kartöflurnar eru farnar að gyllast að utan.
  2. Bætið smjöri, chili og rauðlauknum út á pönnuna og steikið í um það bil 3 mínútur í viðbót.
  3. Hellið sojasósunni út á pönnuna og smakkið allt til með salti og pipar eftir smekk. Blandið spínatinu, baunaspírunum og kóríander út í í lokin.

Kóríandersósa

  • 2 stk. hvítlauksrif (fínt skorin)
  • 1 stk. laukur (fínt skorinn)
  • 1 msk. engifer (fínt skorið)
  • 3 msk. hrísgrjónaedik
  • 3 msk. sojasósa
  • 2 msk. fiskisósa
  • 1 dós kókosmjólk (400 ml)
  • 5 stilkar fínt skorinn kóríander
  • 1 stk. límóna
  • Ólífuolía til steikingar
  • Sjávarsalt eftir smekk
  • Svartur pipar úr kvörn eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið pott með olíu í og steikið laukinn, hvítlaukinn og engiferið saman þar til það er mjúkt í gegn.
  2. Bætið svo edikinu, fiskisósunni og sojasósunni í pottinn og látið sjóða í 2 mínútur.
  3. Hellið því næst kókosmjólkinni ofan í pottinn og látið sjóða í um það bil 20 mínútur.
  4. Maukið blönduna með töfrasprota og smakkið til með saltinu, piparnum og safa úr 1 límónu.
  5. Bætið svo kóríander út í sósuna í lokin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert