Ísak Aron Jóhannsson fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins ætlar að bjóða upp á saltkjöt og baunir á morgun, sprengidag, en hann heldur fast í fjölskylduhefðina. Þá verður borðað þangað til allir eru að springa.
Þegar Ísak lagar súpuna nostrar hann aðeins meira við hana og til að bragðbæta baunasúpuna frekar notar hann garðablóðberg og graslauk. Það gefur súpunni aðeins meira extra bragð.
Ísak er í kokkateyminu hjá Múlakaffi þar sem hann blómstrar alla daga í sínu fagi. Hann ætlar sér stóra hluti með kokkalandsliðinu og keppir á næsta heimsmeistaramóti 2026 og hefur þegar hafið æfingar með liðinu af fullum krafti.
Hann gefur hér lesendum uppskriftina að sinni uppáhaldsbaunasúpu með sínu fingrafari og mælir með að gefa sér tíma í súpugerðina.
Saltkjöt og baunir
2 kg saltkjöt frá Kjarnafæði
8 stk. beikonsneiðar
1 laukur
800 g gullauga kartöflur
500 g íslenskar gulrætur
400 g gular baunir
2 l vatn
1 grænmetisteningur
20 g garðablóðberg
30 g graslaukur
Aðferð:
Byrjið á því að sjóða gular baunir með vatni, grænmetistening og garðablóðberg í um það bil klukkustund, fjarlægið garðablóðbergið og leyfið baunum að standa.
Sjóðið gullauga kartöflur, þegar kartöflur eru soðnar er hýðið fjarlægt og þær leyfðar að þorna.
Skerið lauk og beikon og steikið það saman á pönnu, þegar það er orðið gullinbrúnt þá er kartöflum bætt við og þær fengnar smá litur.
Skerið gulrætur í teninga og blandið við baunasúpuna, því er leyft að malla saman til að klára að elda gulræturnar, bætið við steiktum kartöflum, beikon og lauk.
Í öðrum potti er saltkjöti komið upp að suðu og við vægan hita er því leyft að malla í u.þ.b. 45 mínútur. Muna að skúma froðuna burt.
Næst er að skera graslauk fínt og bæta við súpuna rétt áður en hún er borin fram. Súpan er að sjálfsögðu smökkuð til með salti einnig.
Saltkjötið er rifið af beininu og skellt í skál með góðum skammti af súpu, tími til að njóta.