„Það var í byrjun þessa árs er við tókum við rekstri sælkeraverslunarinnar HYALIN. Verslunin hefur fest sig í sessi í hjörtum og bragðlaukum þeirra sem eru búsett á Íslandi og hafa ástríðu fyrir erlendri matargerð. Ætli HYALIN sé ekki nyrsta sælkeraverslunin í Evrópu sem sérhæfir sig í innflutningi og framboði á hágæðamatvöru frá Frakklandi og öðrum Miðjarðarhafsríkjum? Verslunin var stofnuð af Arnaud-Pierre Fourtané og Didier Fitan árið 2017 og er nú til húsa að Skólavörðustíg 4a, með útsýni út á líflegustu regnbogagötu miðbæjarins,“ segja hjónin tilvonandi, þau Karl Ólafur Hallbjörnsson og Védís Eva Guðmundsdóttir.
Ástæða þess að þau ákváðu að kaupa reksturinn, er að stofnendur HYALIN vildu flytja aftur til Frakklands. „Við höfum búið erlendis til fjölda ára, og ferðast vítt og breitt um heiminn og deilum ást okkar á Frakklandi. Því kviknaði sú hugmynd að kaupa reksturinn. Við göntuðumst með hugmyndina í matarboði hjá stórfjölskyldunni síðastliðinn desember en við höfum bæði verið miklir „frankófílar“ og fastakúnnar hjá HYALIN,“ segja þau.
Védís talar frönsku eftir þriggja ára búsetu í Brussel og Karl er mikill ástríðukokkur og bakari. Bæði deila þau áhuga á frönskum vínum og suður-evrópskri matargerð. „Fræinu var sáð og við bókuðum fund með Arnaud og Dider. Niðurstaða þess fundar var að við stukkum á tækifærið, til að halda á lofti merkjum þessarar hálfgerðu stofnunar franskrar matargerðar og menningar í miðbæ Reykjavíkur,“ segja þau.
Hvað er planið hjá ykkur í dag á Alþjóðlegum degi franskrar tungu?
„Að tilefni dagsins munum við að sjálfsögðu spila valda franska tónlist í búðinni og afgreiða alla með okkar besta franska hreim! Það er aldrei að vita nema að við verðum með smá „crémant“ á kantinum þegar klukkan nálgast sælustundina og bjóðum viðskiptavinum smá smakk af frönsku saltkaramellunum frá Bretagne-skaganum sem við seljum í HYALIN. Svo er auðvitað toppurinn að geta komið heim og undirbúið kvöldmat með litlu umstangi á svona merkisdegi en við myndum allan daginn grípa Canard á l´orange eða Cassoulet með okkur úr HYALIN sem þarf bara að hita upp og bera fram með besta „baguettinu“ frá Sandholti og rauðvínsglasi - „et voilá“. Það verður meistaramatur á boðstólum!“
Þegar kemur að nýjungum fyrir viðskiptavini verslunarinnar í dag benda þau öllum súkkulaðielskendum á súkkulaðið frá Cluizel Paris sem þau voru að flytja inn. „Þetta er 72% dökkt súkkulaði með m.a. „fleur de sel“ eða salti frá frönsku eyjunni Île de Ré sem er þekkt fyrir aldagamla saltverkun. Það verður enginn svikinn af því með kaffibollanum, þar sem salt og hæfileg sæta mætast á tungunni!“
Karl Ólafur og Védís Eva ferðast reglulega til Parísar. „Við eyddum æðislegri viku í París þegar Védís var ófrísk af dóttur okkar, Áróru, fyrir rúmum 2 árum. Á þeim tíma vorum við að velja nafn á stúlkuna og leyfðum okkur að máta nafnið við hana í ferðinni. Eftir heimkomu var svo nafnið einhvern veginn komið til að vera og „aurore“, eða sólarupprás/dögun á frönsku, átti svo fallega við litla glókollinn okkar sem kom í heiminn fáeinum mánuðum seinna,“ segir Karl Ólafur og Védís Eva tekur við: „Svo fórum við í svokallaða „fæðingarorlofsferð“ til Frakklands í fyrravor þar sem við eyddum fimm vikum á flakki um Frakkland með þá 8 mánaða gamalli dóttur okkar. Við flugum fyrst til Parísar og dvöldum í viku í rólegheitum í 16. hverfi, þar sem okkur langaði að prufa nýtt og barnvænna hverfi.
Mægðurnar nutu sín vel þessa Parísardaga, röltu milli kaffihúsa og almenningsgarða, á meðan Karl leysti út jólagjöfina sína frá árinu áður en hann fékk þriggja daga bökunarnámskeið í Le Cordon Blue-matreiðsluskólanum að gjöf og þreytti það undir harðri stjórn fransks bakarameistara. Karl bakaði brauð í átta tíma á dag, þrjá daga í röð, og kom með heim að loknum kennsludegi fullt fangið af „baguette“ og mismunandi gerðum af brauði. Við höfum líklega aldrei borðað jafn mikið brauð á ævinni!“
Að vikunni liðinni tóku þau lest til Búrgúndí-héraðsins þar sem þau dvöldu í litlum kastala sem eldri hjón voru að gera upp. „Við vorum einu gestirnir þeirra, enda á ferð utan háannatímans, og þau svoleiðis „nostruðu“ við okkur öll dagana sem við dvöldum hjá þeim með heimagerðum sultum, kökum og helltu í okkur frönskum líkjörum úti í garði í kvöldsólinni. Við keyrðum síðan til Beaujolais í framhaldinu sem er réttnefni en það var guðdómlega fallegt að keyra um allar grænu, fögru hlíðar héraðsins,“ segir hún.
Karl er einmitt mikill aðdáandi góðs og létts Beaujolais-víns sem er svo afslappandi og þægilegt fyrir bragðlaukana að þeirra sögn. „Þegar maður nennir ekki alvarleikanum og þyngslunum sem geta fylgt góðu Búrgúndívínunum. Við keyrðum síðan suður landið gegnum Drôme og Provence, gistum á sveitahótelum hér og þar og heimsóttum óvart, trekk í trekk, ýmsa smábæi sem voru vottaðir sem „Les Plus Beaux Villages de France“ eða fallegustu bæir Frakklands, þar sem maður þræddi litlar steingötur, dáðist að túrkísgrænum gluggakörmum og leyfði sér að njóta letilegs hádegismatar og rósavíns með útsýni yfir lítil torg og kirkjur. Við enduðum ferðina á vikudvöl í Aix-en-Provence sem er hæfilega lítil borg til að geta labbað þar um og náð áttum en samt nógu stór til að hafa upp á mannlíf og menningu að bjóða,“ segir hann.
Eigið þið ykkar uppáhaldshverfi í París?
„Við höfum saman og í sitt hvoru lagi dvalið mest í og umhverfis Montmartre, Pigalle eða La Marais sem eru iðandi og full af lífi. Þar er frábært úrval af vínbörum, kaffihúsum og skemmtilegum hátískuverslunum og búðum með tímabilsfatnaði. Í La Marais er gaman að rölta um markaðinn Marché des Enfants Rouges, kíkja í Fleux eða Merci og kaupa eitthvað fallegt fyrir heimilið, dást að flíkum og fylgihlutum í Sézanne, sem er uppmáluð Parísardama í búðarformi, eða hreinlega drepa tímann á teppi með rósavínsflösku í einhverjum garði, svo sem Parc des Vosges, á hlýjum dögum,“ segir Védís Eva og bætir við að hún og Karl hafi síðast farið barnlaus til Parísar og gist á æðislegu hóteli á mörkum Pigaelle og Montmartre. „Það var á Le Ballu hótelinu sem er með frábærum veitingastað með Michelin-lykli eða viðurkenningu. Í þeirri ferð fórum við á eftirminnilegan, sætan gamaldags sjávarréttarstað sem heitir La Mascotte, þar sem Karl raðaði í sig ostrum og kampavíni á meðan ég var að sjálfsögðu ófrísk og saup á vatni. Við myndum líka alltaf mæla með heimsókn í l'Orangerie-safnið þar sem má sjá fallegu vatnaliljuverk Monet þekja veggina. Annars er klassískt að ganga um í Lúxemborgargarðinum sem og að kíkja inn á Louvre sem þolir auðvitað mörg innlit yfir eina mannsævi!“
Í næstu ferð til Parísar langar þau að borða á Le Bon Gorges. „Einnig á Septime eða La Cave Septime, Petrelle og Parcellles, til að nefna nokkra staði sem eru á óskalistanum,“ segja þau Karl Ólaf Hallbjörnsson og Védís Evu Guðmundsdóttir, eigendur HYALIN verslunarinnar á Skólavörðustíg.