Ávaxta- og grænmetisdeildin á Granda lifnar við á HönnunarMars

Tanja Levý , Jökull Jónssin og Rökkvi litli á HönnunarMars.
Tanja Levý , Jökull Jónssin og Rökkvi litli á HönnunarMars. Ljósmynd/Rúnar Kristmannsson

Hönnunarteymið Studio Pluto og Krónan standa fyrir Frískleikunum þar sem ávaxta- og grænmetisdeild Krónunnar á Granda breytist í litríkt sýningarrými frá og með deginum í dag, til 6. apríl næstkomandi í tilefni HönnunarMars að því fram kemur í tilkynningu frá Krónunni.

Markmið sýningarinnar er að skapa fræðandi og skemmtilegt ævintýri fyrir börn og um leið minna á mikilvægi þess að neyta grænmetis og ávaxta. Jafnframt er markmið sýningarinnar að hvetja foreldra til að vera meðvituð um holla valkosti og þeirra hlutverk í að leggja grunn að góðum matarvenjum barna sinna.

Gera hollustu að leik

Verkefnið er hluti af sýningunni Fruitful Futures ii og sýnir hvernig skapandi hönnun getur gert hollustu að leik og lærdómi fyrir unga neytendur. Verkefnið styður einnig við nýlega uppfærðar ráðleggingar embættis landlæknis þar sem ráðlagt er að borða að minnsta kosti fimm skammta af grænmeti, ávöxtum og berjum á dag, helst í öllum máltíðum og sem millibita.

Markmiðið er að skapa jákvæða tengingu við ávexti og grænmeti

Studio Pluto samanstendur af þeim Jökli Jónssyni arkitekt og Tönju Levý hönnuði og leggur hönnunarteymið einna helst áherslu á upplifunar- og rýmishönnun í verkum sínum. Þau eru einnig par og eiga saman ungan son sem hefur fengið að fylgjast með ferlinu nánast frá fæðingu.

Jökull og Tanja á vinnustofunni Studio Pluto þar sem töfrarnir …
Jökull og Tanja á vinnustofunni Studio Pluto þar sem töfrarnir gerast. Ljósmynd/Rúnar Kristmannsson

Jökull og Tanja eru sammála því að uppbyggjandi hvatning í bland við skemmtilega og fræðandi upplifun sé góð leið til að kynna ung börn fyrir töfrum og kostum ávaxta og grænmetis.

„Frískleikarnir – ferðalag um ávexti og grænmeti varð til eftir gott samtal við Krónuna þar sem það er þeirra ósk að gefa ungu kynslóðinni kost á að kynnast þessari hollu og heilnæmu fæðu á lifandi hátt, leyfa þeim að leysa einfaldar þrautir og þannig taka virkan þátt í innkaupaferlinu með fjölskyldunni.

Við munum því setja upp fjórar mismunandi stöðvar í ávaxta- og grænmetisdeildinni og á milli þeirra verður sérmerktur slóði með fróðlegum skilaboðum og leikjum sem leiða börnin í gegnum upplifunina. Við erum virkilega spennt að sjá börnin, og ekki síst foreldra þeirra, skapa jákvæða og fjöruga tengingu við ávexti og grænmeti á sýningunni sem vonandi leiðir af sér aukinn áhuga á lýðheilsu og hollustu,“ segir Tanja sem er afar spennt að sjá viðtökurnar.

Skapar fræðandi upplifun um kosti hollustunnar

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir þau lengi hafa fylgst með hönnunarvegferð Tönju og Jökuls og lá í augum uppi að fá þau í lið með Krónunni fyrir HönnunarMars þetta árið.

„Fruitful Futures er önnur sýning Krónunnar og samstarfsaðila á HönnunarMars og hefur verið ævintýralegt að vinna að þessu verkefni með Jökli og Tönju. Við hjá Krónunni vildum gera ávexti og grænmeti aðlaðandi og spennandi í augum ungu kynslóðarinnar, hvetja fjölskyldur til að skoða og velja ferskvörur saman og jafnframt að skapa skemmtilega og fræðandi upplifun í versluninni þar sem börn og jafnvel foreldrar upplifa hollustu sem leik og ævintýri. Það er aldrei að vita nema sýningin fái að ferðast yfir í aðrar Krónuverslanir eftir sýningarhelgina á Granda til að gefa enn fleiri börnum tækifæri til að upplifa Frískleikana okkar,“ segir Guðrún.

Hönnunarsýningin Fruitful Futures ii verður opin í Krónunni á Granda á opnunartíma verslunarinnar frá klukkan 9 til 21, frá og með deginum í dag, 4. apríl til 6. apríl næstkomandi.

Hönnunarteymin Studio Pluto og Krónunnar sameina krafta sína fyrir sýninguna …
Hönnunarteymin Studio Pluto og Krónunnar sameina krafta sína fyrir sýninguna Fruitful Futures ii á HönnunarMars Ljósmynd/Rúnar Kristmannsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert