Á morgun, miðvikudaginn 9. apríl, frá klukkan 17:00 til 21:00 breytist Le KocK við Tryggvagötu 14 í hjarta miðborgarinnar í leikvöll fyrir bragðlauka.
Þá mun hinn einstaki Gísli Matt, eigandi Slippsins í Vestmannaeyjum, taka yfir eldhúsið og bjóða gestum upp á úrval rétta sem hann er þekktur fyrir og sett fram í sínum einstaka stíl og með smá Le KocK tvisti.
Á matseðlinum má meðal annars finna heimsfrægu umami þorskvængina, djúsí „smash“ borgara, kleinuhringi með mysukaramellu og ekki síst hinn goðsagnakennda þorskborgara með piparrótarsósu og lamb x.o. kartöflubrauði.
„Viðburðurinn er samstarfsverkefni milli mín og Le KocK, þar sem óheflað andrúmsloft verður í forgrunni, frumleg matargerð og djörf bragðsamsetning fara hönd í hönd,“ segir Gísli Matt og bætir við að þetta verði aðeins þetta kvöld.
Þeir sem þekkja til vita að Gísli lætur ekkert eftir sér þegar kemur að því að bjóða upp á eftirminnilega matarupplifun og þetta kvöld verður engin undantekning.