Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra nýtur sín í eldhúsinu og gerir upp vinnudaginn á meðan hún eldar. Páskarnir eru handan við hornið og í tilefni þess svarar hún nokkrum laufléttum spurningum um páskahefðirnar og afhjúpar hvað hún ætlar að hafa í matinn á páskunum.
Hún er mikill gleðigjafi og hrókur alls fagnaðar. Henni þykir fátt skemmtilegra en að bjóða fjölskyldu og vinum í matarboð og leikur þá við hvern sinn fingur í eldhúsinu. Þegar kemur að hefðum í tengslum við páskana segir hún þær ekki vera margar, aðalatriðið sé að njóta.
„Páskarnir eru í uppáhaldi hjá mér vegna þess að þeim fylgja fáar skyldur. Lítið stúss en mjög gott frí. Við verðum heima um páskana, förum í sund og tökum því rólega,“ segir Sigríður með bros á vör.
Skreytið þið heimilið fyrir páskana?
„Ætli það sé ekki bara þetta hefðbundna, gulu kerti. Ég kaupi að vísu alltaf páskagreinar og skreyti þær.“
Föndrið þið fyrir páskana?
„Þegar stelpurnar voru litlar komu þær heim með skraut úr skólanum, sumt er til en margt hefur heimiliskötturinn Símon eyðilagt. Hann er öflugur við hvers kyns skemmdarverk. Við höfum sýnt hans lífstíl og venjum virðingu,“ segir Þorbjörg sposk á svip.
Hvað með páskaeggjaát, eigið þið fjölskyldan ykkar uppáhaldspáskaegg?
„Ég hef farið með lista út í verslun og verslað í samræmi við óskir. Dæturnar eru þrjár og það er allt frá þessu gamla góða og svo yfir í eitthvað lakkrískenndara. Mér finnst sjálfri nammið inni í egginu betra en súkkulaðið. Ég þarf að játa það á mig að vera óþarflega hrifin af sælgæti.“
Eftirminnilegasti málshátturinn?
„Mér finnst að ég eigi og verði að segja: „Með lögum skal land byggja“.
Ég fékk dómsmálaráðherra til að afhjúpa hvað hún ætlar að elda á páskadag fyrir fjölskylduna og gefa lesendum uppskriftina. Þorbjörg var meira en til í það og sagði jafnframt söguna bak við steikina sem verður borin fram á páskunum.
„Mér finnst skemmtilegt að elda. Og mér finnst gott að gera upp vinnudaginn meðan ég elda eins og fram hefur komið. Það er einhver furðuleg slökun sem felst í því. Ég er búin að prufukeyra páskasteikina,“ segir Þorbjörg og glottir út í eitt.
„Um daginn prófaði ég uppskrift frá Berglindi Guðmundsdóttur sem stofnaði á sínum tíma matarbloggsíðuna Gulur, rauður, grænn og salt sem er algjörlega frábær uppskriftasíða sem ég hef mikið notað.
Berglindi kynntist ég fyrst í kosningabaráttu Viðreisnar þar sem við unnum mikið saman. Hún er algjörlega frábær manneskja – og fyrir þau sem ekki hafa skoðað þessa uppskriftarsíðu þá mæli ég heilshugar með henni.
Þetta er úrbeinað lambalæri, fyllt með ýmsum kræsingum. Fyllingin samanstendur af döðlum, salatosti, steinselju og hvítlauk.Ég fór og keypti lærið hjá mínum mönnum í Kjötbúðinni á Grensásvegi. Það er engin ástæða til annars en að láta úrbeina lærið í búðinni,“ segir Þorbjörg alvörugefin.
„Með þessu borðuðum við brúnaðar kartöflur, ferskt og gott salat og heiðarlega sveppasósu. Þetta læri fékk fínustu dóma hjá fjölskyldunni, mjög gott sunnudagslæri sem passar vel sem páskalæri. Daginn eftir sagði ég Ragga bílstjóra hróðug frá þessum sigri mínum í eldhúsinu og þuldi upp það sem var í fyllingunni. Hann hreinlega slefaði eftir frásögnina,“ segir Þorbjörg og hlær dátt.
Fáránlega gott fyllt úrbeintað lambalæri
Fyrir 4-6
Aðferð: