Stórfenglegar fermingarveislur skarta sínu fegursta víða um land allt þessa dagana og hver og einn er með sinn stíl og persónulega áferð á veislunni sem lýsir gjarnan fermingarbarninu í hnotskurn.
Undirrituð rak augun í undurfallegt fermingarborð á samfélagsmiðlum á dögunum og fékk aðstandendur veislunnar til að segja aðeins frá tilurð þess og samsetningu.
Móðir fermingarbarnsins, Anna Margrét Björnsson, er svo heppin að eiga dásamlegar vinkonur sem eru algjörir matarsnillingar, þær Áslaugu Snorradóttur matarlistakonu og ljósmyndara með meiru og Eirnýju Sigurðardóttur ostadrottningu Íslands sem færðu töfra sína inn í bjartan lítinn sal á Háteigsvegi þar sem nánustu ættingjar komu saman til að fagna með fermingarbarninu.
Fermingarstúlkan var með nokkrar hugmyndir sem voru svo útfærðar, hún vildi hafa mikið af gylltum og hvítum blöðrum, hún vildi bjóða upp á sashimi sem er í miklu uppáhaldi, heitt í ofni fyrir afana og svo eitthvað pínu franskt þar sem móðurfjölskylda hennar tengist Frakklandi sterkum böndum.
Síðan vildi hún hafa „DIY“ photobooth og „DIY“ myndavegg þar sem hún er mjög listræn og sniðug. Hún og pabbi hennar útfærðu hvort tveggja með glæsibrag.
Stjúppabbi hennar tók sig til og bakaði heita brauðrétti fyrir heila hersveit, systir hennar bakaði pavlovur og amma bakaði franskar súkkulaðikökur, þannig þetta var mjög heimilislegt og heiðarlegt.
Skreytingardrottningin og ostadrottningin sameinuðu krafta sína
Töfrarnir í veislunni áttu sér svo stað þegar Áslaug og Eirný mættu á svæðið eftir athöfnina og breyttu salnum í fallega gleðisprengju.
Eirný sauð karamellu og límdi saman turn úr litlum vatnsdeigsbollum og karamelluþráðum en þessi kaka kallast „Croque-en-bouche” á frönsku og er borin fram við fermingar og brúðkaup í Frakklandi. Gestirnir eiga þá hver um sig að brjóta bollurnar af turninum.
Áslaug bjó til fagurbleika Ribena-bollu með myntu og sítrónu, sem var vinsæl hjá fullorðnum sem og börnum, og raðaði kleinuhringjum í turna á borðinu og gerði fjall af jarðarberjum til að dýfa í súkkulaði.
Hún gerði einnig sashimi úr Vestfjarðableikju sem var borið fram með engifer, daikon og wasabi sem sló í gegn.
Áslaug fór hamförum og skreytti allt sem hægt var að skreyta með rósum í bleikum og rauðum tónum. Eirný bauð svo upp á geggjaðan gorgonzola í peruskógi með döðlum og dökku súkkulaði og einnig var örlítið franskt cremant á boðstólum til að skála fyrir fermingarstúlkunni. Minnstu gestirnir í veislunni fengu svo að lita mynd af fermingarstúlkunni í Studio Ghibli-stíl á sér borði með djús og kexi.
Þemað í veislunni var að hafa þetta lítið og heimilislegt en umfram allt fallegt og skemmtilegt þar sem áhersla var á að gleðja augað og gesti.
Fyrir áhugasama, sér í lagi þá sem elska franskar sælkerakræsingar þá er Croque-en-bouche, sem stundum er kallað croquembouche eða brakar í munni. Það er vegna stökku karamellunnar í kökunni. Kökuturninn úr vatnsdeigsbollunum var sennilega fundinn upp af Antonin Carrême sem setti uppskriftina í frönsku uppskriftabókina Le Pâtissier Royal Parisien frá árinu 1815.