Sólveig Jóhanna Jónsdóttir, matgæðingur með meiru, ljóstrar upp nokkrum skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni.
Sólveig er 35 ára gömul og býr við þau forréttindi að vinna við það sem hún elskar, mat og vín. Hún er veitingastjóri á Reykjavík Konsúlat-hótelinu og Iceland Parliament-hótelinu og það er ávallt líf og fjör kringum vinnuna hjá henni.
„Það sem er helst á dagskrá þessa dagana í vinnunni er að opna malasískan veitingastað á Konsúlat. Staðurinn mun heita Selera og opnar í sumar. Ég er mjög spennt fyrir því verkefni og að kynna fyrir alþjóð þá blöndu af kínverskri og indverskri matargerð sem Malasía hefur upp á að bjóða,“ segir Sólveig og brosir.
„Einnig stýri ég með góðu teymi öðrum vörumerkjum hótelanna: Konsúlat Wine room, Telebar, Hjá Jóni restaurant, viðburðadeild Parliament hótels þar sem Sjálfstæðissalurinn er eða gamla Nasa sem er eitt af helstu viðburðarrýmum bæjarins í dag,“ bætir Sólveig við.
Sólveig bjó í París í þrjú ár og lærði heilmikið um matarmenningu þar. „Dvöl mín þar kveikti í mér þetta bál, ástríðu mína fyrir mat og víni. Ég elska að elda mat og að prófa mig áfram með ný hráefni, smakka ólíka rétti og para þá með vínum sem lyfta upplifuninni upp á hærra plan. Ég nýt þess að dekra bæði mig og aðra með góðum réttum. Ég er bara algjör sælkeri og stolt af því,“ segir Sólveig með reisn og bætir við: „Matur á að vera partur af skemmtun og samveru. Prófaðu nýja hluti, paraðu réttina og njóttu þess að deila með öðrum.“
Hún svarar hér nokkrum laufléttum spurningum um matarvenjur sínar og siði og deilir með lesendum matarvefsins.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Allir morgnar byrja á kaffi með flóaðri hleðslu til að hámarka próteininntöku.
Á þeim dögum sem ég gef mér meiri tíma fæ ég mér góða ristaða súrdeigsbrauðsneið með eggjum, hrærðum eða hleyptum t.d. og öðru meðlæti.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég er algjör maulari en passa að millimálin séu í hollari kantinum. Er alltaf með próteinstykki eða saltaðar möndlur í veskinu til að grípa í. Einnig fæ ég mér oft ostbita.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, ég borða hádegisverð alla daga til að hafa góða orku út daginn.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Það eru alltaf til ostar, margir ostar og Dijon sinnep. Ostar eru ómissandi.“
Borðar þú páskaegg?
„Já, ekkert er páskalegra en að byrja páskadagsmorgun í sófakúri með páskaeggjaáti og teiknimynd á skjánum með fjölskyldunni.“
Hver er uppáhaldspáskaeggjategundin þín?
„Nói Siríus hefur ávallt verið í uppáhaldi, og strumpasafnið í takti við það frá yngri árum.“
Geymir þú málshættina þína?
„Já, ég geymi þá sem mér finnst skemmtilegir og innihaldsríkir. Set þá árlega í fallega skál með páskaskrautinu og dreg einn og einn öðru hverju til lesturs. Á þetta ekki vel við núna?
„Allt lifir það sem matinn etur“.
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Þó að ég segi sjálf frá, Hjá Jóni restaurant. Hvort sem það er í kampavínsbröns, léttan hádegisverð eða fínan kvöldverð. Það er allt fyrir alla og dásamlegir kokteilar framreiddir frá Telebar.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Uppáhaldspítsan mín er með kartöflum, lauk, lardons og rjómaosti.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þínu?
„Eina með öllu og jafnvel kartöflusalati með á góðum degi.“
Hver er uppáhaldsrétturinn þinn?
„Indverskur Tandoori-kjúklingur með öllu tilheyrandi.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Ég er algjör aðdáandi fyrir kartöflum, í öllum heimsins útgáfum. Ef það væri aðeins eitt hráefni sem ég myndi þurfa að borða að eilífu, yrðu sennilega kartöflur fyrir valinu.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Kampavín – það lyftir stemningunni upp. Það gerir ekki bara lífið betra, heldur matinn líka. Kampavín parast sérstaklega vel með mat og það er ekkert betra en nautasteik og ein góð Blanc de noir, sem er kampavín gert aðeins úr rauðum berjum.“