Róbert Aron Garðarsson Proppé kom, sá og sigraði Íslandsmeistaramót barþjóna árið 2025 með glæsibrag. Kokteilahátíðinni Reykjavík Cocktail Week lauk þar síðustu helgi með glæsilegu galakvöldi í Gamla Bíó og Petersonsvítunni þar sem úrslit í kokteilakeppnunum hátíðarinnar fóru fram.
Róbert er einungis 21 árs gamall og starfar sem barþjónn niður á Drykk bar í Pósthús mathöllinni við Pósthússtræti 5 í hjarta miðborgarinnar. Þar reiðir hann fram dýrindis kokteila fyrir þyrsta gesti eins og hann kemst að orði.
Hann segir að það hafi verið mikill tilfinningarúsibani að hafa staðið uppi sem sigurvegari keppninnar.
„Orð fá því ekki lýst hvernig er að vinna svona titil. Ég satt að segja á enn erfitt með að trúa því að ég hafi hreppt fyrsta sætið, það er þó hægt og rólega að detta inn,“ segir Róbert meyr.
„Það er náttúrulega alltaf markmiðið að gera sitt besta og reyna að grípa í gullið. Það má segja að ég hafi lagt allt í það að taka bikarinn heim.“
Aðspurður segist Róbert ekki enn búinn að ákveða hvað hann langi til að vera þegar hann verður orðinn stór. „Ég held satt að segja að ég viti það ekki 110% enn þá, í dag skemmti ég mér konunglega á bak við barinn þannig að þar mun ég halda mig í dágóðan tíma.“
Hefur þú ávallt haft ástríðu fyrir því að starfa sem barþjónn?
„Ég hef ávallt verið mjög ástríðufullur þegar kemur að mat og matargerð, en kokteilaáhuginn kviknaði ekki fyrr en síðar þegar ég fylgdist með barþjóninum á veitingastað sem ég þjónaði á. Um leið varð ég heltekinn og byrjaði að sækjast í að læra meira um kokteila. Ég var svo heppinn og fékk að hendast í lið með snillingunum niður á Drykkbar fyrir tveimur árum þar sem þeir kenndu mér helstu grunntæknina. Eftir það var ekki aftur snúið.“
Hvað er það sem er svo heillandi við kokteilagerð?
„Það heillar mig hversu mikil áskorun er að þróa og búa til nýja drykki. Allt frá því hvernig þú blandar bragði saman í það hvernig þú ákveður að bera drykkinn fram varðandi glasaval, skraut og annað sem til að gera upplifunina spennandi. Ég hef alla tíð verið mjög listrænn og því er þetta tilvalið starf.“
Hvernig myndir þú lýsa þínum barþjónastíl?
„Ég myndi segja að hann væri frekar tilraunagjarn og ímynda ég mér oft sjálfan mig í hvítum slopp líkt og brjálaður vísindamaður frekar en barþjónn. Mér finnst fátt skemmtilegra en setja saman skrýtnar bragðsamsetningar sem ættu ekki að passa saman og nýta í þá tækni sem ég hef aldrei notað áður sem getur oft reynst mikil áskorun.“
Hvaða hæfileikum þarf góður barþjónn að búa yfir að þínu mati?
„Góður barþjónn í mínum huga þarf að hafa frjótt hugmyndaflug og kunna að hugsa í lausnum, en aðallega að hafa ástríðu fyrir starfinu og kunna að njóta sín bak við barinn. Þegar öllu er á botninn hvolft gerir það gæfumuninn. Að hafa gaman að þessu er lykilatriði, enda hægt að kenna flestum hvernig á að framreiða drykki, en það getur verið töluvert flóknara ef aðilinn hefur engan áhuga á því.“
Hefur þú tekið þátt í mörgum barþjónakeppnum?
„Þær hafa verið nokkrar. Ég hef rosalega gaman að því að taka þátt í keppnum og fá að skemmta mér með fólki sem deilir sama áhugamáli. Auk þess er það ávallt ákveðin áskorun að vinna í keppnisdrykkjum, maður lærir mikið af því og þá hefur maður tækifæri til þess að prófa nýja hluti og gera drykki sem myndu annars vera of flóknir fyrir hina hefðbundna vakt.
Það hjálpar reyndar að ég er með mikið keppnisskap og læt fátt sem heitir „keppni“ fram hjá mér fara,“ segir Róbert og hlær.
„Nú hefst til að mynda mikill undirbúningur og æfingar fyrir heimsmeistaramótið í Kólumbíu í vetur og mun það vera verkefni númer 1. Það fylgir Íslandsmeistaratitlinum að fara á mótið.
Síðan eru fullt af öðrum keppnum á dagskrá hér heima sem er ekkert ólíklegt að ég taki þátt í. Næsta keppni sem ég tek líklega þátt í er Hennessy my way, þar sem barþjónar keppast við að búa til kokteila með Hennessy-koníaki, með sjálfbærni í huga. Það verður líklega áhugavert að spreyta sig þar.“
Hvað þarf að gera til að heilla dómnefnd upp úr skónum í keppnum sem þessum?
„Fyrst og fremst þarf drykkurinn að vera í lagi. Síðan er sviðsframkoma lykilatriði. Ef barþjónn nýtur sín greinilega á sviðinu og er í góðu stuði er ekkert ólíklegt að dómararnir sem og áhorfendur fylgi eftir. Allt er betra þegar maður er í dúndur góðu skapi og það á líka við um bragðsamsetninguna á drykknum, að minnsta kosti að mínu mati.“
Átt þér þín uppáhaldsvín þegar þú ert að búa til kokteila?
„Ekkert vín er í sérstöku uppáhaldi. Mér finnst alltaf best að nýta vínið sem krydd til að styðja við önnur hráefni í drykknum. Hugmyndin kemur oft upp í kringum ákveðið hráefni eða bragðpörun sem mig langar að skapa, líkt og í „pinky promise“, drykknum sem ég fór með í úrslitin. Þar langaði mig að endurskapa bragð úr eftirrétt sem ég smakkaði fyrir nokkrum árum og tók svo ákvörðun um að gin væri rétta vínið til þess að passa með hinum bragðsamsetningunum.“
Aðspurður segir Róbert að hráefnaval í drykki skipti sköpun og þá gæðin. „Það er töluvert erfiðara að græja framúrskarandi góðan kokteil úr lélegu hráefni, þó ekkert sé ómögulegt. Ferskt hráefni, hvort sem það eru safar, kryddjurtir eða ávextir verður ávallt betra í lokaniðurstöðunni. Mitt fyrsta ráð þegar ég er spurður hvernig er hægt að taka drykki upp á næsta plan þá er það val á gæða hráefni.“
Þegar það kemur að vali á glösum, skipta þau máli?
„Já, ekki spurning. Ekki bara upp á lúkkið, heldur einnig hvernig tilfinningin er að njóta drykkjarins. Til dæmis er allt annað að drekka rauðvín úr vínglasi, heldur en úr pappamáli. Þó svo að vínið sé það sama, þá er það allt önnur tilfinning þegar hellt er í almennilegt glas. Hins vegar þurfa góð glös ekki alltaf að kosta fúlgu af seðlum.“
Róbert gefur lesendum hér uppskriftina að sigurkokteilnum sínum, Pinky Promise, ásamt aðferð og gerir það af kostgæfni.
„Þetta er frekar flókin uppskrift en hún nýtist við tækni sem heitir „milk clarification“ á ensku. Þá er mjólk notuð til þess að fjarlægja lit og óhreinindi úr vökva og skilur síðan eftir kremáferð,“ segir Róbert að lokum.
Pinky Promise
Aðferð við púnsgerðina:
Skraut
Aðferð við kokteilagerðina: