Hugi býður upp á grillaða tindabikkju

Hugi Rafn Stefánsson, vaktstjóri á veitingastaðnum Fröken Reykjavík, veit fátt …
Hugi Rafn Stefánsson, vaktstjóri á veitingastaðnum Fröken Reykjavík, veit fátt skemmtilegra en að grilla og fiskur á beini er eitt af því sem hann elskar að grilla. mbl.is/Eyþór

Hugi Rafn Stefánsson landsliðskokkur elskar fátt meira en að grilla allan ársins hring. Hann afhjúpar fyrir lesendum Morgunblaðsins uppskriftina að einum vinsælasta fiskréttinum sem er á matseðlinum á veitingastaðnum Fröken Reykjavík

Hugi er vaktstjóri á veitingastaðnum sem er í miðbæ Reykjavíkur við Lækjargötu. Hann er aðeins 24 ára gamall og hefur þrátt fyrir ungan aldur unnið til verðlauna í keppnismatreiðslu og vakið athygli fyrir hæfileika sína á því sviði.

Hugi vann meðal annars bronsverðlaun með íslenska kokkalandsliðinu á Ólympíuleikunum í matreiðslu árið 2024, fyrstu verðlaun fyrir Eftirrétt ársins í fyrra og tók þátt í keppninni um titilinn Kokkur ársins með góðum árangri svo fátt sé nefnt. Nú stefnir hann á heimsmeistaramótið í matreiðslu, sem fram fer á næsta ári, með kokkalandsliðinu sem ætlar sér ekkert annað en að fara á verðlaunapall. Sérsvið Huga með landsliðinu er eftirréttagerðin.

Hugi hefur haft áhuga á matargerð frá því hann man eftir sér og eitt af því skemmtilegasta sem hann gerir er að grilla. „Matargerðin breytist ekki beint mikið á sumrin hjá mér en ég fer bara að grilla miklu meira. Skelli öllu á grillið. Mér finnst virkilega gaman að grilla yfirhöfuð. Allt frá grænmeti yfir í fisk og kjöt,“ segir Hugi með bros á vör.

Fiskinn penslar Hugi með unagi og grillar síðan á funheitu …
Fiskinn penslar Hugi með unagi og grillar síðan á funheitu grilli sem gefur henni fallega áferð og bragð. mbl.is/Eyþór

Beinin gefa mikinn safa og bragð

Huga finnst líka skipta máli hvort hann er að grilla á kolagrilli eða gasgrilli. „Mér finnst skemmtilegra að grilla á kolagrilli því þar get ég stjórnað hitanum betur, bragði og áferð á því sem grillað er. Upp á síðkastið hef ég mikið verið að grilla fisk á beini sem mér finnst ótrúlega gaman og gott. Beinin gefa nefnilega svo mikinn safa og bragð frá sér sem gerir fiskinn enn betri.“

Grænmetið grillar Hugi líka.
Grænmetið grillar Hugi líka. mbl.is/Eyþór

Á Fröken Reykjavík er einn vinsælasti rétturinn einmitt grillaður fiskur á beini og Hugi gefur lesendum uppskriftina að þessum girnilega fiskrétti ásamt meðlætinu. Hér er á ferðinni tindabikkja á beini, gljáð með unagi og poppuðu kínóa og með henni er boðið upp á grillað bock choy með Feykisosti og miso sabayon-sósu. Hugi mælir með að grilla fiskinn með en segir vert að skafa hann síðan af beininu þegar hann er snæddur.

Sabayon-sósan passar einstaklega vel með grilluðu tindabikkjunni og lyftir henni …
Sabayon-sósan passar einstaklega vel með grilluðu tindabikkjunni og lyftir henni í hæstu hæðir. mbl.is/Eyþór

Grilluð tindabikkja á beini, gljáð með unagi og poppuðu kínóa og borin fram með bock choy, rifnum Feykisosti og miso sabayon-sósu

Unagi-gljái

  • 162 g sake
  • 375 g mirin
  • 135 g sojasósa
  • 30 g sykur
  • 20 g ferskt engifer
  • 40 g sítrónugras
  • 8 g hvítlaukur

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið saman í pott og sjóðið niður á meðalhita um 20-30%.
  2. Sigtið síðan og þykkið með maizenamjöli.

Tindabikkja á beini (eða annar fiskur á beini)

  • 1 stk. tindabikkja (600-700 g)
  • unagi-gljái
  • salt eftir smekk

Grillun á fiski

  1. Saltið fiskinn eftir smekk, penslið gljáann yfir hann og skellið honum á grillið.
  2. Gott er líka að bæta smátt og smátt við af gljáanum á fiskinn meðan hann er á grillinu.

Bok choy

  • 1 pk. bok choy, eða magn eftir smekk
  • noisset-smjör, eftir smekk
  • salt, eftir smekk
  • Feykisostur, eftir smekk

Aðferð:

  1. Veltið bok choyinu upp úr smjöri og saltið eftir þörfum.
  2. Skellið því svo á grillið og léttgrillið, aðeins svona sirka tvær mínútur.
  3. Takið það síðan af grillinu og rífið ostinn yfir, því meiri ost sem þið notið því betra.

Sabayon-sósa

  • 2 stk. eggjarauður
  • 200 g smjör
  • 10 g sojasósa
  • 10 g mirin
  • 20 g hvít misó

Aðferð:

  1. Takið allt hráefnið nema smjör í vatnsbað og eldið upp í 82°C hita.
  2. Bræðið smjör í potti og hellið því rólega út í vatnsbaðið.

Poppað kínóa

  • 100 g vatn
  • 50 g kínóa

Aðferð:

  1. Sjóðið kínóa í vatninu þar til allt vatnið er gufað upp og leggið það síðan á viskustykki í fimm mínútur.
  2. Djúpsteikið kínóað við 190°C hita í 30-50 sekúndur.
  3. Berið réttinn fram á fallegan hátt sem fangar bæði auga og munn.
Grilluð tindabikkja á beini er algjört lostæti að njóta og …
Grilluð tindabikkja á beini er algjört lostæti að njóta og það verður eniginn svikinn af þessari máltíð. mbl.is/Eyþór
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert