Gummi Kíró kominn með sinn uppáhaldsfiskrétt í fiskborðið

Guðmundur Birkir Pálmason, betur þekktir sem Gummi Kiró og Bjarki …
Guðmundur Birkir Pálmason, betur þekktir sem Gummi Kiró og Bjarki Gunnarsson í fiskversluninni Hafinu með nýjasta fiskréttinn. mbl.is/Eyþór

Fiskverslunin Hafið í Hlíðarsmára í Kópavogi kynnti nýjan fiskrétt á dögunum sem ber heitið Bon appétit með Gumma Kíró. Ætlunin er að bjóða reglulega upp á nýja fiskrétti sem eru þróaðir af ástríðu-gestakokkum ef svo má að orði komast.

„Við hjá Hafinu, fiskversluninni, erum alltaf að leita leiða til að breiða út boðskapinn um hollustu fisksins og hvetja fólkið okkar til að borða meira af honum. Einnig viljum við ná til allra aldurshópa í því verkefni og þess vegna höfum við fengið gott fólk í lið með okkur sem kemur inn hvert á eftir öðru með nýja fiskrétti sem er saman settur úr þeirra uppáhaldshráefni,“ segir Bjarki Gunnarsson.

„Fyrstur í röðinni er Guðmundur Birkir Pálmason, betur þekktur undir nafninu Gummi Kíró en hann er búinn að vera viðskiptavinur hjá okkur hjá Hafinu í Hlíðasmára mjög lengi, enda hugsar hann vel um heilsuna og veit hvað fiskur er hollur og góður fyrir líkama og sál,“ bætir Bjarki við.

Gummi Kiró heldur mest upp á þennan fiskrétt, þorskhnakka í …
Gummi Kiró heldur mest upp á þennan fiskrétt, þorskhnakka í hvítlauks- og kryddjurtamaríneringu að hætti Parísarbúa, sem er borinn fram á sætri kartöflu með aprikósupestó og sriracha-smjöri. mbl.is/Eyþór

Þorskhnakki í hvítlauks- og kryddjurtamaríneringu

„Gummi vildi gera rétt úr þorskhnakka í þetta skipti og hafa hann í steikarformi sem væri hægt að setja beint inn í ofn og fá góða máltíð úr með stuttum fyrirvara. Hann setti saman fiskrétt sem við köllum Bon appétit sem passar bæði vel við réttinn og Gumma.“

Bon appétit inniheldur þorskhnakka í hvítlauks- og kryddjurtamaríneringu að hætti Parísarbúa, borinn fram á sætri kartöflu með aprikósupestó og sriracha-smjöri.

„Rétturinn hefur fengið mjög góðar viðtökur og verður hann til sölu hjá okkur eitthvað fram á sumarið, hver veit nema hann verði bara einn af okkar vinsælustu réttum sem fá fastan stað í borðinu hjá okkur.

Við erum með fleiri skemmtilega og áhugaverða einstaklinga í liði með okkur og næstur verður fyrirliðinn og athafnamaðurinn Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks í fótbolta. Síðan kemur hver kanónan á fætur annarri. Við hvetjum alla til að koma við hjá okkur í Hafinu Hlíðasmára og Spöng og prófa nýjasta réttinn frá Gumma Kíró í fiskborðinu,“ segir Bjarki að lokum og horfir björtum augum til sumarsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert