Heit spínatídýfa sem steinliggur með snakkinu í kvöld

Þessi er dýrðleg, heit ídýfa með spínati og góðri ostablöndu …
Þessi er dýrðleg, heit ídýfa með spínati og góðri ostablöndu sem passar fullkomnlega vel saman. Ljósmynd/Aðsend

Ef ykkur vantar góða uppskrift að ídýfu fyrir Eurovision-partíið í kvöld, þriðjudaginn 13. maí þegar VÆB-bræðurnir, Matthías Davíð og Hálfdán, stíga á svið í Basel í Sviss þá er vel hægt að mæla með þessari dýrð. Þetta er heit og bragðgóð spínatídýfa sem passar einstaklega vel með snakki.

Fyrri undankeppni Eurovision fer fram í kvöld og verður sýnt beint frá keppninni á RÚV og hefst útsendingin klukkan 19:00. VÆB-bræðurnir verða með upphafslag keppninnar svo það er eins gott að vera með veitingarnar tilbúnar fyrir útsendinguna.

Heit spínatídýfa

  • 2 stk. skalottlaukur, saxaður
  • 25 g smjör
  • 450 g frosið spínat
  • 1-2 tsk. hvítlauksduft
  • 1 krukka þistilhjörtu, sigtuð frá olíu
  • 400 g rjómaostur
  • 180 g sýrður rjómi
  • 2 tsk. pipar
  • Salt eftir smekk
  • 50 g parmesan ostur, rifinn
  • 50 g cheddar, rifinn
  • 50 g gouda, rifinn
  • Fersk steinselja til að toppa ídýfuna ef vill

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C hita
  2. Saxið skalottlauk.
  3. Opnið krukku af þistilhjörtum, sigtið olíuna af þeim og saxið fínt.
  4. Rífið parmesan ost, cheddar ost og gouda ost.
  5. Steikið skalottlaukinn á vægum hita upp úr smjöri á stórri pönnu.
  6. Bætið frosnu spínati út í pönnuna.
  7. Steikið þar til það hefur þiðnað og allt vatn hefur gufað upp.
  8. Bætið þistilhjörtum út í pönnuna og blandið.
  9. Bætið út í rjómaostinn og blandið vel.
  10. Bætið næst rifnum parmesan osti og pipar.
  11. Bætið síðan hvítlauksdufti við.
  12. Að lokum bætið út í sýrðum rjóma og svo salti eftir smekk.
  13. Blandið vel og færið í eldfast mót.
  14. Stráið yfir gouda og cheddar osti.
  15. Bakið þar til osturinn er bráðnaður og brúnaður.
  16. Toppið með saxaðri ferskri steinselju og berið fram með snakki eða því sem ykkur langar í.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert