Krónan gefur í á Vesturlandi

Guðrún, framkvæmdastjóri Krónunnar, og Sigurður, verslunarstjóri Krónunnar á Akranesi, skjótast …
Guðrún, framkvæmdastjóri Krónunnar, og Sigurður, verslunarstjóri Krónunnar á Akranesi, skjótast með sendingu frá versluninni á Dalbraut. Ljósmynd/Rúnar Kristmannsson

Krónan hefur nú opnað fyrir heimsendingarþjónustu Snjallverslunarinnar í Borgarnesi og nágrenni. Þjónustusvæðið í kringum Akranes hefur einnig stækkað og nær nú til fleiri íbúa á svæðinu. Þá hefst einnig heimsending á Kjalarnes frá versluninni á Akranesi. Með þessu verður aðgengi að einföldum, hagkvæmum og þægilegum matvöruinnkaupum betra en nokkru sinni fyrr fyrir íbúa á vestanverðu landinu að því fram kemur í fréttatilkynningu frá Krónunni.

Snjallverslun Krónunnar gerir viðskiptavinum kleift að versla matvöru í gegnum app Krónunnar og á kronan.is og fá vörurnar sendar heim að dyrum. Þjónustan var tekin í notkun á Akranesi í mars og hefur vakið afar jákvæð viðbrögð. Fjöldi íbúa í Borgarnesi og nágrenni hefur lýst áhuga á sambærilegri þjónustu og nú hefur Krónan svarað kallinu. 

Hafa fengið jákvæð viðbrögð

„Það er sannarlega ánægjulegt að geta boðið upp á þessa þjónustu á stærra svæði og létt þannig fólki lífið. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð á Akranesi og hlökkum til að bjóða íbúa Borgarness og nágrennis velkomna í hópinn en nú er þessi þjónusta aðgengileg fyrir rúmlega 60 þúsund manns á landsbyggðinni,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.

Bjóða upp á fleiri lausnir fyrir fyrirtæki og stofnanir

Krónan býður einnig fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu upp á reikningsviðskipti í gegnum Snjallverslunina og með þjónustunni Skannað og skundað. Þannig er hægt að versla á einfaldan og fljótlegan hátt, þetta er lausn sem veitir betri yfirsýn og sparar bæði tíma og fyrirhöfn.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert