Kryddsósan hans Rúnars eru töfrar fyrir bragðlaukana að njóta

Rúnar Gíslason er meistari í grillsósugerð og ómetanlegt að komast …
Rúnar Gíslason er meistari í grillsósugerð og ómetanlegt að komast í uppskriftirnar hans fyrir grillsumarið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Gíslason matreiðslumeistari, eigandi Spírunnar og veisluþjónustunnar Kokkanna, er meistari í því að gera kaldar og bragðgóðar grillsósur sem passa nánast með öllum grillmat.

Ein af sósunum hans sem hafa slegið í gegn í grillveislunum sem hann hefur slegið upp er þessi ljúffenga kryddsósa sem töfrar bragðlaukana upp úr skónum og nær þessu fimmta bragði, umami-bragðinu. Bragðsamsetningin er svo dásamleg.

„Þessa sósu eða aðferð nota ég þegar ég er að taka til í kælinum hjá mér. Maður þarf samt að passa sig hvað maður setur en þessi innihaldsefni passa vel saman,“ segir Rúnar.

Kryddsósan hans Rúnars Gíslasonar er ómótstæðilega góð og bragðbomba að …
Kryddsósan hans Rúnars Gíslasonar er ómótstæðilega góð og bragðbomba að njóta í munni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kryddsósan

  • 3 stk. skallot-laukar
  • 1 þumall engifer
  • 2 stk. sæt paprika
  • 2 stk. hvítlauksrif
  • 2 stk. sveppir
  • 1 stk. gulrót
  • 2 stk. chili
  • 30 g blaðlaukur
  • ½ stjörnuanís
  • 1 lárviðarlauf
  • 1 dl. balsamik edik
  • 4 dl vatn
  • 1 dl ólífuolía
  • Sjávarsalt eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 160°C hita.
  2. Snyrtið allt grænmeti og grófskerið.
  3. Setjið í ofnskúffu ásamt stjörnuanis og lárviðarlaufi og setjið smá af ólífuolíu og sjávarsalti.
  4. Bakið í ofni við 160°C í 25 mínútur.
  5. Setjið allt úr ofnskúffunni í vitamix eða matvinnsluvél.
  6. Setjið balsamikedikið og vatnið með og vinnið í eina til tvær mínútur eða þangað til blandan er silkimjúk.
  7. Það má setja meira vatn ef ykkur finnst blandan of þykk.
  8. Að lokum er ólífuolían sett út í og saltað eftir smekk.
  9. Setjið vélina aftur í gang í svona 30 sekúndur.
  10. Hellið síðan sósunni í viðeigandi skál eða ílát ef þið ætlið að geyma í kæli fyrir notkun.
  11. Berið fram með því sem hugurinn girnist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert