„Aldrei séð mann taka jafn hraustlega til matar síns“

Vestmannaeyjingurinn knái, Sigurgeir Jónsson, deilir með lesendum sinni uppáhaldsuppskrift að …
Vestmannaeyjingurinn knái, Sigurgeir Jónsson, deilir með lesendum sinni uppáhaldsuppskrift að fiskrétti, sem ber heitið Javor-fiskur. Samsett mynd

Vestmannaeyingurinn Sigurgeir Jónsson er iðinn við matargerðina og baksturinn þrátt fyrir háan aldur, en hann er 83 ára gamall og hefur mikið dálæti af því að dunda sér í eldhúsinu. Hann hefur gefið lesendum Matarvefsins nokkrar uppskriftir úr smiðju sinni að undanförnu og nú ætlar hann að deila uppskrift að sínum uppáhaldsfiskrétti.

Hér er á ferðinni fiskréttur sem ber heitið Javor-fiskur og Sigurgeir liggur á skemmtilegri sögu bak við nafnið á réttinum.

„Fyrir liðlega tveimur áratugum gaukaði Grímur kokkur, sá mikli matargerðarmeistari, að mér uppskrift sem hét Fiskur í Kaj P-sósu. Hún var mjög einföld og ég prófaði hana við góðar undirtektir og síðan hefur þetta verið nokkuð fastur liður á matseðlinum hér og ekki hvað síst í uppáhaldi hjá barnabörnunum,“ segir Sigurgeir dreyminn á svip.

Búlgarinn tók hraustlega til matar síns

„Svo gerðist það fyrir nokkrum árum að dóttir mín og tengdasonur komu í heimsókn til Eyja og með þeim búlgarskur vinur þeirra, Javor að nafni, sem þau höfðu kynnst í námi sínu í Englandi. Þeim var að sjálfsögðu boðið í mat og eldað vel af áðurnefndum fiskrétti eða um tvö kíló. Og ég held ég hafi aldrei séð mann taka jafn hraustlega til matar síns og þennan Búlgara.

Hann hætti ekki fyrr en allt var búið af fatinu og sagði síðan að þetta væri besti fiskur sem hann hefði nokkru sinni fengið. Mér sýndist sem hann hefði torgað vel ríflega hálfu kílói ásamt kartöflum og grænmeti. Eftir þetta var nafni uppskriftarinnar breytt og heitir hún síðan Javor-fiskur.

Upphaflega var steinbítur í uppskriftinni en ég hef síðan prófað bæði þorsk og löngu og mér finnst langan best enda úrvals matfiskur. En nú hefur sá fiskur verið ófáanlegur í Vestmannaeyjum það sem af er árinu en ég á von á að úr rætist á næstunni,“ segir Sigurgeir vongóður.

Fiskréttinn gerði hann á dögunum fyrir gesti sem komu frá Reykjavík og viðtökurnar voru eins og hefð er fyrir.

„Eins og venjulega kláraðist allt og fuglarnir, sem einnig halda upp á þennan mat, urðu að láta sér nægja afganginn af kartöflunum,“ segir Sigurgeir og glottir.

Fiskrétturinn Javor úr smiðju Sigurgeirs.
Fiskrétturinn Javor úr smiðju Sigurgeirs. Ljósmynd/Jarl Sigurgeirsson

Javor-fiskur

Fyrir 2

  • 500 g fiskflök (langa, steinbítur eða þorskur – langan er best)
  • Kaj P grillolía (original)
  • Svartur pipar eftir smekk
  • 3-4 dl rjómi

Aðferði:

  1. Skerið steinbítsflökin í hæfilega bita. 
  2. Kryddið með svörtum pipar eða sítrónupipar og hellið grillolíunni yfir. 
  3. Látið marínerast í einn til tvo tíma. 
  4. Snöggsteikið bitana í olíu á báðum hliðum á vel heitri pönnu. 
  5. Setjið fiskinn í eldfast fat.
  6. Hellið rjóma á pönnuna og smávegis af grillolíunni til að búa til sósu.
  7. Hrærið saman og látið smásjóða í 2-3 mínútur.
  8. Hellið síðan yfir fiskinn og bakið í 180°C heitum ofni í um það bil 10-12 mínútur.
  9. Gott er að hafa rösti-kartöflur með, ásamt steiktum sveppum og rauðlauk en einnig má bera hann fram á einfalda mátann og hafa soðnar kartöflur og hrásalat.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert