Ofnbakaðar lasanjarúllur sem allir munu elska

Ofnbakaðar lasanjarúllur með ítölsku- og mexíkósku ívafi sem allir eiga …
Ofnbakaðar lasanjarúllur með ítölsku- og mexíkósku ívafi sem allir eiga eftir að fá dálæti af. Ljósmynd/Valgerður Gréta Gröndal

Þessi kryddaði og frumlegi réttur er fullkominn fjölskylduréttur sem tekur stuttan tíma að gera og yngri kynslóðin mun elska.

Hér mætast ítalskar og mexíkóskar hefðir. Búin er til einföld og bragðgóð hakksósa sem síðan er rúllað upp með rifnum osti í mexíkóskar vefjur. Heiðurinn af þessari uppskrift á Valgerður Gréta Gröndal, sem flestir þekkja undir gælunafninu Valla, sem heldur úti sínum eigin uppskriftavef.Hún segir þennan rétt vera eitthvað óskilgetið afkvæmi enchiladas og lasajna og allir á sínu heimili elski þessa frumlegu og skemmtilegu útgáfu. Þetta gæti líka verið frábær partíréttur til að njóta í Eurovision-gleðinni.

Ofnbakaðar lasanjarúllur

Fyrir 5

  • 450-500 g nautahakk
  • ólífuolía til steikingar
  • 1 stk. laukur
  • 2 stk. hvítlauksrif
  • 2 tsk. þurrkað óreganó
  • 1 tsk. þurrkuð basilíka
  • 1 msk. nautakraftur í dós
  • Salt og svartur pipar eftir smekk
  • 680 g pastasósa í dós
  • 2 msk. tómatpúrra
  • 150 g kotasæla
  • 200 g rifinn gratínostur
  • 8 stk. tortillavefjur, meðalstórar
  • fersk basilíka, ef vill
  • rifinn Goðdala Feykir, ef vill

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja hakkið og hafa það gegnsteikt.
  2. Þegar hakkið er orðið gegnumsteikt, takið þá 1 dl af pastasósunni til hliðar og hellið restinni úr dósinni saman við ásamt tómatpúrru og kotasælu og látið malla í 5 mínútur.
  3. Smakkið hakksósuna til með salti, pipar og ef til vill hinum kryddunum. Það fer allt eftir smekk.
  4. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og hafið vefjurnar tilbúnar.
  5. Takið pönnuna af hellunni og setjið hakksósu í miðjuna á einni vefju, passið að setja ekki of mikið og ekki alveg út á brún.
  6. Stráið gratínosti eftir smekk yfir hakkið, rúllið upp og leggið á bökunarplötu.
  7. Endurtakið með restina af vefjunum.
  8. Takið þá pastasósuna sem þið tókuð til hliðar og smyrjið með skeið yfir vefjurnar og stráið vænu magni af gratínosti yfir.
  9. Bakið í ofni í 20 mínútur eða þar til osturinn er orðinn fallega gylltur.
  10. Stráið saxaðri ferskri basilíku yfir ef vill, einnig er mjög gott að rífa niður svolítið af Feyki yfir vefjurnar.
  11. Berið fram með fersku salati og snittubrauði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert