Elenora Rós Georgsdóttir bakari er engum lík og kann svo sannarlega að gleðja aðdáendur sína með ómótstæðilegu bakkelsi með sumarívafi. Hún henti í þessa súkkulaðikleinuhringi nokkrum sinnum í síðustu viku og sló rækilega í gegn.
Allir sem smökkuðu misstu sig alveg og kláruðu kleinuhringina á augabragði. Hún setti síðan punktinn yfir i-ið þegar hún skreytti þá með ætisblómum. Hún býr í Lundúnaborg og starfar þar í bakaríi þar sem hún heillar alla með sinni einlægu framkomu og útgeislun í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.
Sjáið Elnoru leika listir sínar í kleinuhringjabakstrinum hér fyrir neðan.
Ómótstæðilega girnilegir súkkulaðikleinuhringir með sumarlegu ívafi.
Ljósmynd/Elenora Rós
Heimagerðir kleinuhringir með súkkulaði
Kleinuhringir
- 14 g þurrger
- 60 ml volgt vatn
- 360 ml volg mjólk
- 70 g sykur
- 30 g púðursykur
- 2 stk. egg
- 3 g salt
- 80 g smjörlíki
- 700 g hveiti
- Bragðlítil olía til steikingar
Súkkulaðiganche
- 200 g suðusúkkulaði frá Freyju
- 30 ml mjólk
- 270 g rjómi
Aðferð:
- Byrjið á að búa til súkkulaði ganache.
- Hitið rjómann og mjólkina upp að suðu.
- Hellið rjómanum og mjólkinni yfir súkkulaðið og látið standa þar til súkkulaðið fer að bráðna. Hrærið súkkulaðinu saman við rjómann með sleif þar til allt er komið vel saman.
- Setjið til hliðar á meðan þið gerið kleinuhringina.
- Byrjið á að velgja mjólkina og vatnið, bætið svo þurrgerinu saman við og leysið þurrgerið upp í vatninu og mjólkinni.
- Setjið öll hráefnin saman í hrærivélaskál og hrærið saman þar til deigið er komið vel saman, er orðið silkislétt og fer að losna frá hliðum skálarinnar.
- Leyfið deiginu nú að hefast þar til það hefur tvöfaldast í stærð.
- Fletjið deigið út þar til það er um 1cm þykkt og skerið út kleinuhringi.
- Haldið áfram að setja deigið saman og fletja það út þar til þið eruð búin að skera út eins marga kleinuhringi og mögulega er hægt að skera út úr deiginu.
- Hitið olíuna upp í 170-180°C hita.
- Þegar olían er tilbúin er kleinuhringjunum hvolft út í og þeir steiktir á báðum hliðum í 1-2 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gullinbrúnir.
- Steikið alla kleinuhringina og leyfið þeim að kólna aðeins.
- Dýfið þeim næst í súkkulaðiganache og passið að láta súkkulaðið þekja kleinuhringinn vel, það er besti parturinn.
- Skreytið með ætisblómum ef vill, berið fram og njótið.