Ómótstæðilegir súkkulaðikleinuhringir úr smiðju Elenoru sem þú átt eftir að elska

Elenora Rós Georgsdóttir bakarastelpan knáa gerði þessa dásamlegu sumarlegu súkkulaðikleinuhringi …
Elenora Rós Georgsdóttir bakarastelpan knáa gerði þessa dásamlegu sumarlegu súkkulaðikleinuhringi og skreytti með ætisblómum. Samsett mynd

Elenora Rós Georgsdóttir bakari er engum lík og kann svo sannarlega að gleðja aðdáendur sína með ómótstæðilegu bakkelsi með sumarívafi. Hún henti í þessa súkkulaðikleinuhringi nokkrum sinnum í síðustu viku og sló rækilega í gegn.

Allir sem smökkuðu misstu sig alveg og kláruðu kleinuhringina á augabragði. Hún setti síðan punktinn yfir i-ið þegar hún skreytti þá með ætisblómum. Hún býr í Lundúnaborg og starfar þar í bakaríi þar sem hún heillar alla með sinni einlægu framkomu og útgeislun í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.

Sjáið Elnoru leika listir sínar í kleinuhringjabakstrinum hér fyrir neðan.

View this post on Instagram

A post shared by Elenora Rós (@bakaranora)

Ómótstæðilega girnilegir súkkulaðikleinuhringir með sumarlegu ívafi.
Ómótstæðilega girnilegir súkkulaðikleinuhringir með sumarlegu ívafi. Ljósmynd/Elenora Rós

Heimagerðir kleinuhringir með súkkulaði

Kleinuhringir

  • 14 g þurrger
  • 60 ml volgt vatn
  • 360 ml volg mjólk
  • 70 g sykur
  • 30 g púðursykur
  • 2 stk. egg
  • 3 g salt
  • 80 g smjörlíki
  • 700 g hveiti
  • Bragðlítil olía til steikingar

Súkkulaðiganche

  • 200 g suðusúkkulaði frá Freyju
  • 30 ml mjólk
  • 270 g rjómi

Aðferð:

  1. Byrjið á að búa til súkkulaði ganache.
  2. Hitið rjómann og mjólkina upp að suðu.
  3. Hellið rjómanum og mjólkinni yfir súkkulaðið og látið standa þar til súkkulaðið fer að bráðna. Hrærið súkkulaðinu saman við rjómann með sleif þar til allt er komið vel saman.
  4. Setjið til hliðar á meðan þið gerið kleinuhringina.
  5. Byrjið á að velgja mjólkina og vatnið, bætið svo þurrgerinu saman við og leysið þurrgerið upp í vatninu og mjólkinni.
  6. Setjið öll hráefnin saman í hrærivélaskál og hrærið saman þar til deigið er komið vel saman, er orðið silkislétt og fer að losna frá hliðum skálarinnar.
  7. Leyfið deiginu nú að hefast þar til það hefur tvöfaldast í stærð.
  8. Fletjið deigið út þar til það er um 1cm þykkt og skerið út kleinuhringi.
  9. Haldið áfram að setja deigið saman og fletja það út þar til þið eruð búin að skera út eins marga kleinuhringi og mögulega er hægt að skera út úr deiginu.
  10. Hitið olíuna upp í 170-180°C hita.
  11. Þegar olían er tilbúin er kleinuhringjunum hvolft út í og þeir steiktir á báðum hliðum í 1-2 mínútur eða þar til þeir eru orðnir gullinbrúnir.
  12. Steikið alla kleinuhringina og leyfið þeim að kólna aðeins.
  13. Dýfið þeim næst í súkkulaðiganache og passið að láta súkkulaðið þekja kleinuhringinn vel, það er besti parturinn.
  14. Skreytið með ætisblómum ef vill, berið fram og njótið.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert