Sumarkokteillinn Aperol Spritz er léttur, frískandi og freyðandi

Aperol Spritz er létt beiskur en þó vel ávaxtaríkur freyðivínskokteill.
Aperol Spritz er létt beiskur en þó vel ávaxtaríkur freyðivínskokteill. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Einn vinsælasti sumarkokteillinn síðastliðin ár er Aperol Spritz og hann er til í mismunandi útgáfum en hér er uppskriftin að hinni klassísku blöndu. Orðið Spritz er talið hafa komið frá þýska orðinu spritzen, sem þýðir að úða eða skvetta. Það varð til í kringum fyrri heimsstyrjöldina þegar hermenn frá austurrísk-ungverska keisaradæminu létu „spritza“ ítalska vínið með vatni, þar sem þeim þótti það of sterkt. Í dag er spritz sérflokkur af kokteilum og er Aperol Spritz án efa sá þekktasti.

Byggður drykkur

Létt beiskur en þó vel ávaxtaríkur freyðivínskokteill. Þennan er upplagt að drekka í sólinni enda léttur, frískandi, freyðandi og ótrúlega einfaldur. Eins og nafnið gefur til kynna er nauðsynlegt að setja Aperol í drykkinn, en það inniheldur meðal annars appelsínur og rabarbara sem tóna vel við þurrt Prosecco.Aperol Spritz er byggður drykkur og því afar fljótlegt að gera hann.

Heiðurinn af þessari uppskrift að Aperol Spritz eiga Andri Davíð Pétursson og Ivan Svan Corwasce barþjónar. En uppskriftina er að finna í kokteilabókinni Heimabarinn sem er eftir þá og er stútfull af uppskriftum að kokteilum og drykkjum sem gaman er að prófa.

Aperol Spritz

  • 50 ml Aperol
  • 100 ml Prosecco
  • 25 ml sódavatn

Skraut

  • Appelsínusneið

Aðferð:

  1. Byrjið á því að mæla fyrst Aperol í vínglas.
  2. Fyllið síðan upp með klökum, fyllið síðan drykkinn upp með freyðivíni og að lokum með sódavatni.
  3. Hrærið þá drykknum saman og setjið appelsínusneið út í.
  4. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert