Matthildur María Rafnsdóttir gleðigjafi flettir ofan af matarvenjum sínum að þessu sinni. Hún leggur mikla áherslu á að velja gæðin þegar kemur að hráefni og huga að næringargildinu. Heilbrigður lífsstíll og hreyfing er henni mikilvæg og blandar hún því vel saman.
Hún er fædd og uppalin á Seltjarnarnesi en býr nú í Garðabænum með unnusta sínum, Bergsteini Pálssyni, og dóttur þeirra, Emilíu Ýr. Hún er stjórnmálafræðingur að mennt, starfar sem samskiptastjóri hjá Arctic Circle – Hringborði Norðurslóða, og er einnig hóptímaþjálfari hjá Hreyfingu heilsulind. Einnig kenndi hún golf um árabil í Nesklúbbnum.
„Ég legg áherslu á hreint og næringarríkt mataræði – helst hráefni sem amma mín myndi kannast við og engar innihaldslýsingar sem krefjast efnafræðiprófs. Unnar vörur og djúpsteiktur matur fá að sitja á bekknum, meðan ég kýs mat sem styður við orku, heilsu og góða meltingu – með smá sælkerasniði þegar tilefni gefst,“ segir Matthildur María með bros á vör.
Aðspurð segist hún ekki matreiða mikið en geri þó kröfur til þess sem hún borðar. „Ég viðurkenni fúslega að matarástin mín snýst frekar um að njóta matar en að elda hann sjálf. Bergsteinn er einstaklega fær í eldhúsinu, hann sér um matargerðina, á meðan ég tek að mér hlutverk aðstoðarkokksins. Ég er góð í að baka,“ segir Mathildur María og hlær.
Þegar kemur að mataræði eftir árstíðum segist hún það ekki breytast. „Það er grillað á mínu heimili þó að það sé rauð viðvörun,“ og skelli upp úr.
Matthildur María svarar hér nokkrum praktískum spurningum um matarvenjur sínar sem gefur lesendum smá innsýn í matarsmekk hennar.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég fæ mér gríska jógúrt með hampfræjum, kókos, jarðarberjum og smá möndlusmjöri. Mæli með því.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég borða venjulega á þriggja tíma fresti sem hefur aðeins breyst á undanförnum 9 mánuðum með dóttur mína á brjósti. Þá líða stundum bara tveir tímar á milli og ég er orðin glorhungruð aftur. Þá fæ ég mér eitthvað fljótlegt og próteinríkt eins og eggjahræru, heimagert túnfisksalat eða geri mér þeyting.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Ég fæ mér eiginlega alltaf hrökkkex eða súrdeigsbrauð með pestó og kotasælu.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Ég á alltaf til egg og hleðslu.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Þá förum við á OTO eða Sumac. Frábær matur sem er erfitt að leika eftir heima.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Rjómaost, sveppi, ólífur, klettasalat og hráskinku.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„Ég er lítið fyrir pylsurnar en ef ég væri nauðbeygð þá væri það steiktur og tómatsósa.“
Hver er uppáhaldsgrillrétturinn þinn?
„Það er mikið í uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni að gera heimatilbúna hamborgara. En svo er ekkert sem toppar grillaða hreindýrasteik.“
Áttu grill? Hvort heillar þig meira gas- eða kolagrill?
„Ég á gasgrill og líkar það vel.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Ég set nú alltaf bæði en borða meira af salatinu.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Það er eitthvað við búbblurnar – kampavín er minn uppáhaldsdrykkur.“
Ertu með æði fyrir einhverju þessa dagana?
„Ég er með algjört æði fyrir súkkulaðihringjunum frá Önnu Mörtu og Lovísu. Þeir eru hættulega góðir.“