Ingrid Kuhlman elskar fátt meira en að njóta góðra stunda með sínu fólki við matarborðið og að njóta góðs matar. Fyrir liðlega 10 árum gerðist hún grænkeri og þá opnaðist heill heimur fyrir henni uppfullur af hráefnum og uppskriftum. Hún ljóstrar upp nokkrum skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni.
Hún er fædd og uppalin í Hollandi en hefur búið á Íslandi í næstum 27 ár. „Ég er með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði frá Buckinghamshire New University og hef frá árinu 2002 rekið fræðslufyrirtækið Þekkingarmiðlun ásamt manninum mínum.
Flesta daga vinn ég við að halda námskeið og fyrirlestra, sem mér finnst bæði gefandi og skemmtilegt. Síðan 2017 hef ég gegnt formennsku í Lífsvirðingu, félagi um dánaraðstoð, sem er mér mjög hugleikið.“
Hvort eitthvað sé til í því að gulrætur bæti sjónina
Ingrid segir að fjölskyldan sé stór hluti af hennar lífi og börnin séu hennar gleðigjafar. „Ég á tvö börn og varð amma fyrir einu og hálfu ári. Litli ömmustrákurinn minn er sannkallaður sólargeisli. Svo fengum við hjónin tvö yndisleg barnabörn í kaupbæti, 6 og 9 ára, sem halda okkur ungum með spurningum um hvort það sé eitthvað til í því að gulrætur bæti sjónina,“ segir Ingrid og brosir glettinslega.
Hún hefur gaman af því að elda og prófa sig áfram með nýja rétti. „Ég hef mikla matarástríðu – þó ekki þegar kemur að bakstri. Ég er frekar sú sem stendur yfir potti með sleif í annarri og smakk í hinni. Þegar ég gerðist grænkeri fyrir um tíu árum opnaðist heill heimur af nýjum hráefnum og uppskriftum. Eldamennska er mín sköpunargleði, mitt leiksvæði,“ segir Ingrid.
Ingrid gaf sér tíma á milli vinnustunda að svara nokkrum praktískum spurningum um matarvenjur sínar og gefa lesendum innsýn í hvað henni finnst gott að borða.
Breytast matarvenjur þínar á sumarin?
„Já, matarvenjur mínar breytast aðeins yfir sumarið. Á veturna er ég mikið fyrir pottrétti og matarmiklar súpur sem ylja líkama og sál. En þegar sumarið kemur verður maturinn léttari og litríkari. Þá elska ég að grípa það grænmeti sem er ferskt og spennandi – eins og brokkolín eða paksoi – og prófa ávexti sem hljóma eins og þeir séu úr Harry Potter: lítsí (lychee), drekaávöxt og kjakfrúkt (jackfruit).“
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ef ég hef tíma á morgnana byrja ég daginn á þeytingin með avókadó, bláberjum, mangó, kanil, kardemommum, vanillupróteini og engiferskoti – það er sprengja af góðri orku. Ef tíminn er knappur gríp ég oft bara gróft brauð með veganáleggi eða avókadó. Og svo er það auðvitað kaffibollinn – hann er heilagur og ómissandi, alveg sama hvað.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Á milli mála næ ég mér oft í hrökkbrauð með hnetusmjöri og gúrku, hnetur, döðlur eða ferskan ávöxt. Og svo verður að viðurkennast að gott súkkulaði er ómissandi öðru hvoru.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Hádegismaturinn er heilagur. Ég elda oft nóg á kvöldin til að eiga afganga sem hægt er að hita upp næsta dag. Það sparar tíma og tryggir að ég borði eitthvað næringarríkt í dagsins amstri.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Í ísskápnum mínum eru nokkur hráefni sem ég verð alltaf að eiga, þetta eru: paprika, sveppir, sódavatn, haframjólk, grískt vegan jógúrt og fullt af fersku grænmeti. Undanfarið hef ég nýtt mér gervigreindina til að fá hugmyndir að uppskriftum úr því sem ég á til í ísskápnum – og það hefur komið ótrúlega skemmtilega á óvart. Ég kalla hana stundum „nýja eldhúsfélagann“ því hún kvartar aldrei og elskar gulrætur jafn mikið og ég.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Þegar mig langar að gera vel við mig í mat og drykk, vel ég oft Forréttabarinn – þeir eru með gómsætan vegan smakkseðil. Ég er líka hrifin af Tapasbarnum, Austur-Indíafjelaginu og Sumac, þar er alltaf eitthvað bragðgott í boði. Úrvalið getur verið aðeins takmarkað fyrir grænkera – oft er hægt að fá bæði forrétt og aðalrétt, en eftirréttirnir eru gjarnan af skornum skammti. En með smá útsjónarsemi og brosi við þjóninn má oft finna góðar lausnir.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Þegar ég fæ mér pítsu fer á hana alls konar – pestó, laukur, paprika, sveppir, kirsuberjatómatar, döðlur, bananar og vegan kjúklingastrimlar. Það sem lyftir pítsunni á næsta plan er heimatilbúna ostasósan okkar, sem er búin til úr gulrótum, sætum kartöflum, næringargeri og góðum kryddum. Hún er algjörlega ómissandi.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þínu?
„Ég hef aldrei verið mikið fyrir pylsur – þær hafa einfaldlega aldrei náð til mín.“
Hver er uppáhaldsgrillrétturinn þinn?
„Það er helst steikt rótargrænmeti og góðar, vel kryddaðar sætar kartöflur. Einfaldur, bragðmikill og hlýlegur matur sem slær ávallt í gegn. Maður þarf ekkert kjöt til að fá almennilegt grillbragð.“
Áttu grill? Hvort heillar þig meira gas- eða kolagrill?
„Ég á ekki grill í dag, en mig langar mikið í pítsuofn.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Ég vel yfirleitt frekar salat en kartöflur. Mér finnst ferskleikinn og litirnir í góðu salati ómótstæðilegir.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Uppáhaldsdrykkurinn minn er líklega engiferbjór þegar ég er í óáfengu stuði og svo er ég líka mjög hrifin af greip, það er eitthvað svo hressandi við það.Þegar ég vil eitthvað með aðeins meiri snúningi, eru Gin &Tónik, Moscow Mule og Espresso Martini í uppáhaldi. Og svo er Aperol Spritz alltaf fullkominn á sólríkum degi.“
Ertu með æði fyrir einhverju þessa dagana?
„Akkúrat núna er ég með smá fíflaæði. Garðurinn minn er fullur af þeim. Um daginn bjó ég til fíflalímónaði og næst á dagskrá er að prófa að gera fíflasíróp. Nýverið steikti ég meira að segja fíflahausa upp úr smjöri með smá pipar og salti – það kom skemmtilega á óvart hvað það var gott.
Ég fór næstum því að hugsa um að opna fíflaveitingastað. Nei, nú er ég bara að fíflast,“ segir Ingrid að lokum og hlær.