Draumkennda appelsínukakan hennar Brynju Döddu

Appelsínukakan hennar Brynju Döddu er draumur að njóta.
Appelsínukakan hennar Brynju Döddu er draumur að njóta. Ljósmynd/Brynja Dadda Sverrisdóttir

Það er komin helgi og þá er það helgarbaksturinn sem nýtur alla jafna mikilla vinsælda á Matarvefnum. Að þessu sinni er það þessi dásamlega appelsínukaka sem þið eigið eftir að fá dálæti af. 

Uppskriftin kemur ofan af fjalli frá Brynju Döddu Sverrisdóttur ástríðubakara en hún er iðin að baka fyrir sína nánustu og segir að innblásturinn fái hún uppi í fjallinu í Kjósinni þar sem töfrarnir gerast. Þetta er lítil og nett kaka sem passar fullkomlega með kaffinu.

„Stundum er gott að breyta aðeins til. Þessi er fersk og frískleg og bragðlaukarnir dansa ef þið elskið appelsínur eins og ég,“ segir Brynja Dadda og bætir við að uppskriftin sé afar einföld og allir geti gert þessa.

Ein sneið sem gleður hjartað.
Ein sneið sem gleður hjartað. Ljósmynd/Brynja Dadda

Appelsínukaka

  • Ein stór appelsína, börkur, fínrifinn á rifjárni og safinn (ca. 1 dl)
  • 115 g mjúkt smjör
  • 2 stk. egg
  • ½ bolli sykur
  • 115 g hveiti
  • ½ tsk lyftiduft
  • 100 g appelsínusúkkulaði, má líka nota venjulegt suðusúkkulaði, í kremið

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 160°C hita.
  2. Blandið appelsínuberki vel saman við sykurinn.
  3. Hrærið saman mjúku smjöri og sykri.
  4. Hrærið eggjum saman við, setjið eitt í einu ofan í skálina og skafið niður á milli.
  5. Setjið að lokum hveitið, lyftiduftið og safann út í. Ef þið eruð heppin með appelsínu er hún safamikil og þetta verður vel blautt.
  6. Setjið deigið í lítið, kringlótt form eða minni gerðina af sandkökuformi.
  7. Setjið inn í heitan ofninn og hafið stillinguna á blæstri og bakið í um það bil 45 mínútur – ofnar eru misjafnir.
  8. Best er að prófa með kökuprjóni hvort eitthvað festist við ef stungið er í miðjuna, til að kanna hvort kakan er bökuð.
  9. Bræðið appelsínusúkkulaði yfir vatnsbaði með örlitlu smjöri úti og setjið yfir kökuna þegar hún hefur kólnað.
  10. Smjörið kemur í veg fyrir að súkkulaðið verði alveg stíft og brotni þegar skorið er í.
  11. Berið fram og njótið með þeim sem þér þykir bestur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert