UIBC Bakarakeppnin var sett með pomp og prakt um síðustu helgi á bakarasýningunni IBA 2025 í Düsseldorf í Þýskalandi. Lið frá sex löndum kepptu um verðlaunin og stóð keppnin yfir tveggja daga tímabil. Keppnin var haldin nánar tiltekið á iba.FORUM sem er miðpunktur sýningarinnar, sunnudaginn 18. maí og mánudaginn 19. maí síðastliðinn. Frakkland sigraði keppnina og hrepptu gullið í ár.
Íslenska teymið, Sigrún Sól Vigfúsdóttir og Nastasja Kiencke, stóðu sig með stakri prýði og lentu í 4. sæti. Þær hlutu líka sköpunarverðlaun dómnefndarformannsins í keppninni sem er mikill heiður og hvatning og öðrum til eftirbreytni.
Bakarastúlkurnar stóðu sig ekki aðeins framúrskarandi vel og sýndu einstaka hæfileika sína í bakstri, heldur heilluðu þær alla upp úr skónum með framkomu sinni. Sigrún Sól og Nastasja starfa báðar hjá Bakarameistaranum sem bakarar og konditorar.
Sigurður Már Guðjónsson formaður Landssambands bakarameistara var viðstaddur verðlaunaafhendinguna og var að vonum afar stoltur af íslensku stelpunum. „Þær stóðu sig með stakri prýði, landi og þjóð til sóma og ekki síst bakarastéttinni heima á Íslandi. Við erum afar stolt með árangur þeirra og framtíðin er björt hjá íslenska bakaralandsliðinu. Ísland er fyrir löngu komið á kortið sem bakaraþjóð,“ segir Sigurður Már.
Eins og áður sagði þá voru það sex þjóðir sem öttu kappi sín á milli um titilinn bestu bakarnir og það voru fulltrúar frá Þýskalandi, Frakklandi, Íslandi, Jórdaníu, Hollandi og Svíþjóð sem tóku þátt.
Þema keppninnar var list og þurftu þátttakendur að skapa meistaraverk í bakstri sem svöruðu þessu þema. Erfiðasti þátturinn í keppninni var tímapressan. Á innan við sex tímum þurftu tveggja manna lið að framleiða brauð, smábrauð, veislubrauð, danskar sætabrauðstegundir og eitt listaverk úr deigi. Bæði var keppnin í beinni útsendingu og svo voru þúsundir að fylgjast með, pressan var því mikil.
Á hverjum keppnisdegi voru verk þátttakenda dæmd af alþjóðlegri dómnefndsem var skipuð eftirtöldum aðilum: Urs Röthlin (Sviss), Jimmy Griffin (Írlandi), Josef Schrott (Austurríki) og dómnefndarformanninum Andreas Schmidt (Þýskalandi).
Að loknu krefjandi undirbúningsferli var IBA UIBC Bakarakeppnin hápunktur við opnun sýningarinnar, sem er fremsta heimssýning í bakstri og kökugerð.
„Til að ná árangri í þessari keppni þurfa bakarar að sýna framúrskarandi hæfni. Hver hreyfing þarf að vera fullkomin. Undanfarna tvo daga gátu gestir IBA fylgst með því í beinni þegar þessir hæfileikaríku bakarar sköpuðu sannkölluð meistaraverk undir miklu álagi og tímaþrýstingi. Þetta er handverksbakstur á hæsta stigi,“ sagði Andreas Schmidt, formaður dómnefndar frá Þýskalandi.
Matið á ætu sýningarverkunum fór fram í bakaríinu áður en þau voru sett á sýningarborðið. Síðan var allt borðið dæmt í lokin og stigin reiknuð. Allir þátttakendur fengu verðlaunapening og viðurkenningarskjal að keppninni lokinni við hátíðlega athöfn, þar sem margir íslenskir bakarar mættu til að sýna stelpunum stuðning.
Franska teymið, Corentin Molina og Yannis Thouy, sigraði keppnina með glæsibrag. Sigurliðið fékk hina eftirsóttu viðurkenningu afhenta af Dominique Anract, forseta UIBC, og Roland Ermer, forseta þýska bakarasambandsins.
Önnur verðlaun hlutu Johanna Lenhardt og Lea Wagner frá Þýskalandi og þriðju verðlaun fóru til Mike Onase og Gerrit Huckriede frá Hollandi.
Verðlaunin fyrir besta sýningarverk féllu í skaut Þjóðverjunum Johönnu Lenhardt og Leu Wagner.
Hér má sjá nöfn þátttakenda í stafrófsröð:
- Frakkland: Corentin Molina og Yannis Thouy
- Þýskaland: Johanna Lenhardt og Lea Wagner
- Ísland: Sigrún Sól Vigfúsdóttir og Nastasja Kiencke
- Jórdanía: Hala Abu Jbara og Tand Murad
- Holland: Mike Onase og Gerrit Huckriede
- Svíþjóð: Andrea Wiberg og Cassandra Persson