Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi er eflaust mörgum landsmönnunum kunnugur fyrir að gefa góð ráð þegar peningar eru annars vegar. Hann afhjúpar hér nokkrar staðreyndir um matarvenjur sínar og það kemur bersýnilega í ljós að hann hugsar vel um innihaldið í veskinu sínu þegar það kemur að því að borða.
Hann starfar sjálfstætt við fjármálafræðslu og fellur það vel. „Vinnudagurinn fer að mestu leyti í fyrirlestra og námskeið eða ráðgjöf á skrifstofu minni í Tryggvagötu í Hafnarhvoli. Ég er kvæntur og tveggja barna faðir,“ segir Björn þegar hann er beðinn að segja nokkur orð um sjálfan sig.
Aðspurður segist hann ekki hafa verið gagntekinn af ástríðu fyrir mat. „Það væri full langt gengið að kalla áhuga minn á mat ástríðu, en mér þykir bæði gaman og notalegt að elda,“ segir Björn og brosir kanvíslega.
Björn segir að matarvenjur hans breytist merkilega lítið á sumrin. „Ég kenni veðrinu um. Eins og flestir Íslendingar reyni ég að vera duglegur að nota grillið á sumrin, en undanfarin ár hefur lítið verið borðað úti í garði. Þetta sumar fer þó vel af stað.“
Hér svarar Björn nokkrum praktískum spurningum um matarvenjur sínar samviskulega.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég fæ mér sjaldan morgunmat, en ef ég er svangur á morgnana fæ ég mér yfirleitt skyr eða jógúrt.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ekki á kvöldin, en á vinnutíma gríp ég mér litlar máltíðir. Ef Stefán vinnufélagi minn hefur ekki klárað sælgætið sem ætlað er viðskiptavinunum á ég svo auðvitað til að stelast í það.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Nei, aldeilis ekki. Ég borða sjaldnast hádegisverð, enda oft mest að gera í vinnunni um það leyti. Skrifstofan mín er í hjarta miðborgar Reykjavíkur og þar læðist matarlyktin oft inn um gluggann. Mér þykir þó vænna um veskið mitt en svo að ég fari út að borða í hádeginu og reyni því að eiga jógúrt í ísskápnum og múslístykki í skúffunni.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Ég reyni að eiga til skyr eða ab-mjólk. Í frystinum á ég svo alltaf góða nautalund sem ég kræki mér í á góðu verði og hægt er að grípa í við tilefni. Risarækjur og pasta er uppáhaldsréttur sonar míns og því eru alltaf nokkur kíló af risarækjum í frystinum.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Ég fer nánast aldrei út að borða og kýs frekar að elda góðan mat heima. Hornið hefur þó alltaf verið í uppáhaldi sem og Austur-Indíafélagið. Þá læt ég stundum plata mig á kjúklingabistro Helga Vilhjálmssonar.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Quattro stagione-pítsan á Horninu hefur verið mín pítsa síðan ég man eftir mér. Pepperóní, skinka, sveppir og paprika. Hún væri þá enn betri ef við bættum ætiþistlum á hana.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„Tómatsósu, sinnep og steiktan lauk. Nema ég sé fyrir norðan, þá fæ ég mér djúpsteikta pylsu með bræddum osti og kartöflukryddi.“
Hver er uppáhaldsgrillrétturinn þinn?
„Ég hugsa að svínarif séu í fyrsta sæti en svo þykir mér voða gott að grilla lambakjöt. Þegar ég er að passa upp á veskið grilla ég grísahnakka og grænmeti.“
Áttu grill? Hvort heillar þig meira gas- eða kolagrill?
„Ég á þokkalegt gasgrill og hef vanist þeim. Ég er ekki viss um að ég hafi þolinmæðina í kolagrill og reikna ekki með að það komi til með að breytast.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Ef ekki franskar kartöflur þá salat, með nóg af tómötum. Móðursystir mín var grænmetisbóndi og ég kenni henni um að tómatar séu mögulega með uppáhaldsmatnum mínum. Svo ræktum við salat í garðinum og erum dugleg að gæða okkur á því á sumrin.
Salat með heimalöguðu sinnepsvinaigrette er alltaf gott, en enginn annar í fjölskyldunni deilir þó þeirri skoðun með mér.“
Hver er uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Ískalt gos. Þá á ég erfitt með að velja á milli sexí Max (Pepsi Max með límónu) og Nitro vanillu Pepsi sem ég fékk í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum. Það lifir að minnsta kosti vel í minningunni.“
Ertu með æði fyrir einhverju þessa dagana?
„Ef ég er einn í mat heima elda ég mér oft karrí með kjúklingabaunum, tómötum og papriku. Ég fæ ekki nóg af því. Uppáhaldsrétturinn þessa dagana er þó persnerskur réttur sem ég gríp í ef mikið stendur til. Ég marínera kjúkling í sítrónum, lauk og safran og grilla á spjóti. Hann er svo borinn fram með pilaf hrísgrjónum með trönuberjum.“