Nú má finna rabarbara víða í görðum enda uppskerutími hans í hæstu hæðum þessa dagana og þá er lag að skella í köku þar sem hann er í forgrunni. Hér er á ferðinni syndsamlega góð rabarbaraostakaka sem erfitt er að standast. Heiðurinn að uppskriftinni á Hanna Thordarson, matgæðingur með meiru, sem heldur úti sinni eigin uppskriftasíðu.
Kakan er létt og góð og gott er að gera hana til daginn áður bera á hana fram. Að sögn Hönnu er hún eiginlega betri þegar hún fær að jafna sig yfir nótt í kæli. Nú er bara að fara og næla sér í rabarbara og hefja baksturinn.
Rabarbaraostakaka
Botn
- 300 g digestive kex
- 100 g smjör
Aðferð:
- Setjið bökunarpappír í botninn á 22 cm smelluformi.
- Myljið kexið í matvinnsluvél eða mortéli.
- Bræðið smjör og blandið saman við kexmulninginn.
- Setjið í botninn á forminu og þrýstið á.
Fylling
- 2 blöð matarlím
- 400 g rabarbari
- ¾ dl sykur
- 2 tsk. vatn
- 500 g rjómaostur
- 1½ dl flórsykur
- 1 tsk. vanillusykur
- 1 tsk. lífrænn sítrónubörkur – rifinn fínt
- 1½ dl rjómi
Aðferð:
- Setjið matarlímiðið í kalt vatn í u.þ.b. 5 mínútur.
- Skerið rabarbarann í 3 cm bita.
- Setið í pott ásamt sykri og vatni.
- Hitið og látið sjóða í 7 mínútur án þess að hræra í.
- Látið kólna
- Hrærið saman rjómaosti, flórsykri, vanillusykri og sítrónuberki saman.
- Takið síðan rabarbarabitana varlega upp úr pottinum.
- Hitið löginn, vökvann sem eftir er í pottinum, varlega og látið matarlímið bráðna ofan í – hrærið stöðugt.
- Látið aðeins kólna og blandið saman við rjómaostablönduna ásamt rabarbarabitunum.
- Þeytið rjómann og blandið varlega saman við, dreifið blöndunni yfir kexmulninginn
- Dreifið síðan toppblöndunni yfir í lokin, sjá uppskrift fyrir neðan.
- Setjið síðan plastfilmu yfir og látið standa í 5 – 6 klukkutíma í kæli (eða yfir nótt)
- Takið úr forminu og setjið á kökudisk.
Toppur
- 1½ dl hveiti
- ½ dl sykur
- 3 msk. smjör, u.þ.b. 40 g
Aðferð:
- Stillið ofninn á 175°C hita.
- Myljið saman hveiti, sykur, og smjör.
- Dreifið deiginu yfir bökunarplötu með bökunarpappír í botninum.
- Bakið í ofninum í 15 – 20 mínútur.