„Ég elska að elda með mömmu“

Nói Sær Guðmundsson eyðir ófáum stundum í eldhúsinu heima hjá …
Nói Sær Guðmundsson eyðir ófáum stundum í eldhúsinu heima hjá sér á Eyrarbakka að elda með mömmu sinni. mbl.is/Karítas

Nói Sær Guðmundsson elskar að elda með mömmu sinni og borða og eyðir ófáum stundum í eldhúsinu. Hann er líka iðinn við að grilla með pabba sínum og má segja að hann lifi fyrir góðan mat. 

Hann gefur lesendum Morgunblaðsins uppskriftina að sínum uppáhaldspítsum þar sem botninn er úr sætum kartöflum.

Sætkartöflupítsan hans Nóa er með kryddjurtum, rjómaosti, parmaskinku og rifnum …
Sætkartöflupítsan hans Nóa er með kryddjurtum, rjómaosti, parmaskinku og rifnum parmesanosti í forgrunni. mbl.is/Karítas

Nói býr í fallegu húsi við sjóinn á Eyrarbakka og þrátt fyrir ungan aldur eyðir hann miklum tíma í eldhúsinu með mömmu sinni, Birnu G. Ásbjörnsdóttur. Nói er 15 ára gamall og er nemandi í BES, Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Þegar undirritaða ber að garði eru höfðinglegar móttökur hjá Nóa. Hann hefur einstaklega gaman af því að fá gesti og sýnir það með sinni fallegu framkomu og býður inn í eldhúsið. Útsýnið út um eldhúsgluggann er stórfenglegt þar sem hafið og náttúran skartar sínu fegursta og ekki skrýtið að Nóa líði vel þar.

Er mikill matmaður

Aðspurður segist hann eiga þó nokkur áhugamál og honum líði best þegar hann hafi nóg að gera og fái góðan mat. „Ég æfi sund, golf og er í tónlistartímum. Ég er mikill matmaður og mér finnst gott að borða góðan mat. Mér finnst líka gaman að fara á kaffihús og fá mér heitt súkkulaði með rjóma og glútenlausa súkkulaðiköku með rjóma,“ segir Nói.

„Ég elska að fara út að borða á góða veitingastaði og að velja mér alls konar rétti til að smakka og borða. Mér finnst líka mjög gott að fá góðan eftirrétt og svo vil ég helst alltaf panta mér góðan kokteil. Uppáhaldskokteilinn minn er Mojito,“ segir Nói og brosir sínu bjarta brosi.

Það er sumt sem Nóa finnst ekki gott en hann er með breiðan matarsmekk. „Ég er ekki mikið fyrir ávexti og grænmeti, en borða mjög mikið af kryddjurtum og finnst lambakjöt best. Mér finnast sætar kartöflur líka svakalega góðar og hef ávallt borðað mjög mikið af þeim. Mér finnst líka gott að borða kjúkling og ólíka kjúklingarétti og vil ég helst fá sætar franskar með kjúklingi, það er langbest.“

Feðgarnir eru duglegir að grilla saman

Hann er líka duglegur að matreiða með pabba sínum, Guðmundi Ármanni, og finnst fátt skemmtilegra. „Við pabbi erum duglegir að grilla saman og okkur finnst gaman að grilla lambakjöt og best er að fá alvöru bernaise-sósu með. Svo hef ég verið að búa til heimagerðan ís með lífrænu súkkulaði og hann er bestur,“ segir Nói dreyminn á svip.

Hvar færðu innblástur í matargerðina?

„Við mamma horfum alltaf á Saturday Kitchen live á BBC á laugardagsmorgnum. Þar fáum við oft frábærar hugmyndir og eldum svo oft eitthvað svipað um helgar.“

Áttu þér fyrirmynd í eldhúsinu?

„Já, það eru mamma og pabbi.“

Það er einn réttur sem er í miklu uppáhaldi hjá Nóa yfir sumartímann en hann er sæt kartöflupítsa.

„Minn uppáhaldsréttur er sætkartöflupítsan hennar mömmu, ég elska að elda með mömmu og borða. Ég elska að borða sætar kartöflur. En ég má ekki borða glúten og mér finnast pítsur rosalega góðar þannig að við mamma ákváðum að búa til pítsu úr sætum kartöflum sem mér finnst vera besta pítsan í öllum heiminum,“ segir Nói einlægur.

Það er alveg einstakt að fylgjast með Nóa að störfum í eldhúsinu, hvert smáatriði skiptir máli og handbragð hans sýnir hversu mikla ástríðu hann hefur fyrir matargerðinni.

Nói byrjar á því að baka sætu kartöflurnar í ofni.
Nói byrjar á því að baka sætu kartöflurnar í ofni. mbl.is/Karítas
Þegar hann er búinn að forbaka kartöflurnar í ofninum dreifir …
Þegar hann er búinn að forbaka kartöflurnar í ofninum dreifir hann næst sinni uppáhaldstómatsósu yfir hverja sneið. mbl.is/Karítas
Hvert smáatriði skiptir máli.
Hvert smáatriði skiptir máli. mbl.is/Karítas
Nói nostrar við hvert smáatriði og vandar til verka þegar …
Nói nostrar við hvert smáatriði og vandar til verka þegar hann raðar álegginu á sætkartölfupítsuna. mbl.is/Karítas
Þegar sætkartöflupítsan hans Nóa er tilbúin ber hann hana fram …
Þegar sætkartöflupítsan hans Nóa er tilbúin ber hann hana fram með reisn. mbl.is/Karítas

Sætkartöflupítsa Nóa

  • 1-2 stk. sætar kartöflur
  • uppáhaldstómatsósan, eftir smekk
  • óreganó-kryddjurt, þurrkuð eða fersk, eftir smekk
  • hreinn rjómaostur, eftir smekk
  • fersk basilíka eftir smekk
  • grófmalaður svartur pipar eftir smekk
  • gróft sjávarsalt (flögusalt) eftir smekk
  • parmaskinka, helst lífræn, eftir smekk
  • parmesanostur eða annar góður ostur, rifinn
  • kaldpressuð vönduð ólífuolía

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C hita.
  2. Skerið kartöfluna niður í ca. 1 cm þykkar sneiðar.
  3. Setjið á ofnplötu, gott er að hafa smjörpappír undir og smá ólífuolíu yfir.
  4. Bakið í ofni við 180°C í 10-15 mínútur eða þar til þær eru orðnar mjúkar.
  5. Setjið tómatsósu ofan á hverja sneið.
  6. Stráið óreganó yfir.
  7. Setjið klípu af rjómaosti, nokkur fersk basilkulauf, svartan pipar og rifinn ost yfir hverja kartöflusneið.
  8. Setjið aftur inn í ofn og bakið í 5-10 mínútur.
  9. Setjið síðan parmaskinku, ferskt óreganó eða basilíku og ólífuolíu ofan á.
  10. Stráið yfir þetta smá grófu salti og grófmöluðum svörtum pipar.
  11. Berið fram og njótið í góðum félagsskap.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert