Svona vill Valla hafa grísalundirnar sínar

Girnileg framsetning á grísalundunum með sinnepssósunni hjá Völlu.
Girnileg framsetning á grísalundunum með sinnepssósunni hjá Völlu. Ljósmynd/Valgerður Gréta Gröndal

Valgerður Gréta Gröndal, betur þekkt sem Valla sem heldur úti sínum eigin uppskriftavef, hefur mikið dálæti af grísalundum og finnst ekki síður gott að baka þær í ofni eins og að grilla þær.

Á dögunum deildi hún með fylgjendum sínum uppskrift að grísalundum og meðlæti sem hún er mjög hrifin af.

Hún bakaði grísalundirnar í ofni með gljáa en það er einnig gott að grilla þær en þá er ráð að hafa grillbakka undir til að ná vökvanum sem kemur af þeim og nýta í sósugerð.

„Kjötið sjálft er lungamjúkt, kryddhjúpurinn og gljáinn algjört sælgæti og rjómalöguð sósan kórónar svo allt. Ég myndi segja að þetta væri fullkominn réttur fyrir næsta matarboð eða jafnvel stefnumót heima,“ segir Valla og er alsæl með útkomuna.

Hún bar lundirnar fram með ofnbökuðu spergilkáli, bökuðum kartöflum og salati.

Gljáðar grísalundir með rjómalagaðri kryddjurta-sinnepssósu

Grísalundir

  • 2 grísalundir, samtals um 1200 g
  • 1 tsk. sjávarsalt
  • 1 tsk. nýmalaður svartur pipar
  • 1 tsk. óreganó
  • 2 tsk. timían
  • 1 tsk. rósmarín
  • 1 tsk. laukduft
  • ½ tsk. hvítlauksduft
  • 1 tsk. paprika
  • ólífuolía

Gljái

  • 2 msk. ólífuolía
  • 2 msk. hunangs-dijon sinnep
  • 2 msk. dijon sinnep
  • 1 msk. hlynsíróp
  • 1 msk. worcestershire sósa
  • 1 msk. sojasósa

Rjómalöguð kryddjurta-sinnepssósa

  • 3 msk. smjör
  • 3 hvítlauksgeirar, kramdir
  • 1 msk. sítrónusafi
  • 300 ml vatn
  • 1 msk. nautakraftur
  • 250 ml rjómi
  • 2 msk. hunangs-dijon sinnep
  • 2 tsk. timían
  • 1 tsk. steinselja
  • Sósujafnari ef vill
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Soð af lundunum

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C blástur.
  2. Skolið lundirnar, þerrið vel og snyrtið með því að skera frá himnum og umfram fitu.
  3. Blandið öllum kryddum saman í skál og þekið lundirnar með blöndunni.
  4. Útbúið gljáann.
  5. Hitið 1-2 msk. af ólífuolíu á pönnu og brúnið lundirnar vel.
  6. Setjið álpappír í eldfast mót eða ofnplötu og leggið lundirnar á.
  7. Smyrjið gljáanum á lundirnar og ofnsteikið þær í 15 mínútur.
  8. Snúið þeim þá við, penslið restinni af gljáanum á og steikið áfram í 15 mínútur eða þar til kjarnhiti nær 62°C.
  9. Útbúið sósuna með því setja smjörið út á pönnuna ásamt hvítlauknum. Steikið laukinn í smástund í smjörinu en varist að brenna hann.
  10. Setjið þá sítrónusafa, vatn og nautakraft út á og hrærið vel í.
  11. Leyfið suðunni að koma upp.
  12. Bætið þá rjóma, sinnepi og kryddum út í og leyfið sósunni að malla.
  13. Ef ykkur finnst þurfa að þykkja hana er upplagt að segja ljósan sósujafnara út í.
  14. Þegar lundirnar eru tilbúnar í ofninum takið þær þá út og hellið vökvanum af þeim út í sósuna. Smakkið til með salti og pipar.
  15. Berið fram með ofnbökuðu spergilkáli, bökuðum kartöflum og salati að eigin vali.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert