Guðdómlegt jarðarberjatart úr smiðju Gulla Arnars

Það er þess virði að töfra þetta jarðarberjatart fram og …
Það er þess virði að töfra þetta jarðarberjatart fram og njóta á góðum degi. Jarðarberin og vanillukremið passa ákaflega vel saman og kitla bragðlaukana. mbl.is/Hákon

Gunnlaugur Arnar Ingason, betur þekktur undir nafninu Gulli Arnar bakari, er afar góður í því að baka og skreyta sælkerakökur og tart. Hann á bakaríið Gulli Arnar sem ber nafn með rentu og hefur frá upphafi verið iðinn við að baka eftirrétti og tart, sem er bæði fallegt fyrir augað og ómótstæðilega ljúffengt.

Hann gefur lesendum Matarvefsins uppskrift að guðdómlegri tertu með jarðarberjum sem á án efa eftir að slá í gegn.

„Þetta er mjög fersk og góð terta sem hentar bæði sem eftirréttur eða í kaffiboðið. Hún er tilvalin til að bjóða upp á á sólríkum sunnudegi og með góðum undirbúningi er mjög einfalt og fljótlegt að gera hana,“ segir Gulli Arnar.

Miklar annir hafa verið hjá Gulla Arnari í vetur en hann sér fyrir sig aðeins rólegri tíma í sumar. „Núna er ansi mörgum stórum dögum lokið á undanförnum vikum. Fyrri partur árs er alltaf mjög annasamur í heimi bakara með hinum ýmsu dögum einsog bónda og konudegi, Valentínusardegi, bolludegi, páskum svo fátt sé nefnt.“

Gunnlaugur Arnar Ingason, alla jafna kallaður Gulli Arnar, bakari býður …
Gunnlaugur Arnar Ingason, alla jafna kallaður Gulli Arnar, bakari býður lesendum upp á uppskrift að jarðarberjatarti í tilefni sumarsins. mbl.is/Karítas

Fjórir útskrifaðir bakarar og fimm nemar á samningi

Ég tek því sumrinu fagnandi með von um gott veður. Það er alltaf nóg um að vera í bakaríinu en núna í maí útskrifuðust frá okkur tveir bakaranemar með glæsibrag og höfum við þar með útskrifaða fjóra bakara í það heila. Hjá okkur eru svo fimm aðrir nemar á samning svo framtíðin í bakstrinum er björt,“ segir Gulli stoltur í bragði.

Það hefur verið gaman að fylgjast með uppganginum sem hefur átt sér stað í stéttinni undanfarin ár og þessi mikla fjölgun bakaranema er mjög ánægjuleg,“ bætir hann við.

Það sem ber hæst í sumar eru brúðkaup og útskriftir en tíminn líður hratt svo áður en maður veit af þarf maður að fara undirbúa næsta vetur.“

Fagnaði 5 ára afmæli í vor

Í vor fagnaði bakaríið 5 ára afmæli og hefur framboðið á bakkelsi og kræsingum vaxið töluvert frá því Gulli Arnar opnaði fyrst.

„Þetta hefur verið ótrúlega skemmtilegur, krefjandi og gefandi tími. Bakaríið hefur verið í stanslausri þróun og mun það halda áfram þar sem ég og mitt samstarfsfólk deilum þeim metnaði að vilja ávallt reyna að gera betur.

Við hlökkum til að halda áfram að taka á móti okkar tryggu viðskiptavinum með bros á vör og óskum öllum gleðilegs sumars,“ segir Gulli Arnar að lokum.

Hér er uppskriftin að jarðarberjatartinu sem á vel við á sólríkum degi eins og Gulli Arnar segir. Fyrst þarf að búa til skelina. Deigið má gera áður og geyma í kæli í nokkra daga ef vill.

Guðdómlegt jarðarberjatart úr smiðju Gulla Arnars sem á vel við …
Guðdómlegt jarðarberjatart úr smiðju Gulla Arnars sem á vel við með kaffinu eða sem eftirréttur í sumar. mbl.is/Hákon

Jarðarberjatart

  • 175 g smjör
  • 65 g flórsykur
  • 65 g sykur
  • börkur af hálfri sítrónu
  • 75 g egg
  • 3 g salt
  • 340 g hveiti
  • 40 g möndlumjöl

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 180°C hita.
  2. Hrærið saman smjöri, flórsykri, sykri og sítrónubörk.
  3. Setjið eggin saman við í tveimur skömmtum.
  4. Þegar eggin eru komin saman við bætið í salti, hveiti og möndlumjöli.
  5. Kælið deigið í nokkra klukkutíma eða lengur.
  6. Þegar deigið er kalt og meðfærilegt er það rúllað út í ca. 1/2 cm þykkt lag og sett í tartformið.
  7. Bakið við 180°C hita í um það bil 10 mínútur eða þar til skelin hefur fengið á sig gylltan lit.

Massarínumassi

  • 200 g kransamassi
  • 100 g sykur
  • 150 g smjör
  • 1 eggjarauða
  • 2 egg

Aðferð:

  1. Hrærið saman kransamassa og sykri.
  2. Bætið smjöri saman við og hrærið saman.
  3. Bætið eggjarauðu saman við og að lokum eggjunum hvert í sínu lagi.

Vanillukrem

  • 300 g mjólk
  • fræ úr einni vanillustöng
  • 45 g eggjarauður
  • 60 g sykur
  • 30 g maizenamjöl
  • 10 g smjör

Aðferð:

  1. Hitið mjólk og fræ úr vanillu.
  2. Pískið saman eggjarauður, sykur og maizena í skál.
  3. Þegar mjólkin sýður hellið þá helmingnum af henni í eggjablönduna meðan þið hrærið.
  4. Setjið svo blönduna aftur í pottinn með restinni af mjólkinni og hrærið saman vanillukreminu meðan það sýður og þykknar í 1-2 mínútur.
  5. Setjið kremið í einhvern bakka eða skál, setjið plastfilmu yfir og inn í ísskáp yfir nótt.

Fyrir skreytingu:

  • Fersk jarðarber eða önnur fersk ber

Samsetning:

  1. Smyrjið ca. 1 cm þykku lagi af massarínumassa í tartskelina.
  2. Bakið skelina aftur með massanum í við 180°C hita í um það bil 10 mínútur eða þar til massinn hefur fengið gullinbrúnan lit; hægt er að klára þetta skref deginum áður.
  3. Kælið.
  4. Bræðið smá suðusúkkulaði og penslið súkkulaðiðinu yfir tartskelina.
  5. Setjið vanillukremið í skál og pískið kremið létt þar til það hefur fengið mjúka áferð.
  6. Stífþeytið um 150 g af rjóma og blandið saman við kremið.
  7. Smyrjið kreminu inní tartskelina.
  8. Raðið jaðarberjumeða ykkar uppáhaldsberjum yfir vanillukremið.
  9. Alla hlutina í tertunni er hægt að gera nokkrum dögum áður og geyma í kæli og þannig hægt sér að vera vel undirbúinn þegar bera á þessa dýrð fram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert