Á þessum árstíma njóta litrík og bragðgóð salöt mikilla vinsælda. Helga Magga, heilsumarkþjálfi og matarbloggari með meiru, gerði þetta girnilega og matarmikla kjúklingasalat á dögunum sem inniheldur líka hrísgrjón.
Salatið er bæði sumarlegt og ferskt og tilvalinn réttur til að bera fram þegar þig langar dekra við þitt fólk.
Kjúklingasalat með stökkum hrísgrjónum
Stökk hrísgrjón
- 200 g hrísgrjón (eða tveir pokar)
- 1 msk. ólífuolía
- 1 tsk. paprikukrydd, óreganó og hvítlauksduft
Kjúklingur
- 4 stk. kjúklingabringur (3-4 stk.)
- 2 msk. ólífuolía
- 2 tsk. malað túrmerik
- 2 tsk. kúmen
- 1 tsk. kanill
- 1 tsk. hvítlauksduft
- ½ tsk. svartur pipar
Salat
- 1 stk. gúrka, skorin í bita
- 1 askja kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
- ½ stk. rauðlaukur, sneiddur fínt (má vera meira)
- 6 stk. litlar súrar gúrkur, skornar í litla bita
- 1 lúka fersk mynta, söxuð smátt
- 80 g salat
Jógúrtsósa
- 200 g grísk jógúrt
- 2 msk. tahini
- 2 msk. ólífuolía
- 1 stk. sítróna, safinn
- 2 stk. hvítlauksrif
- 1 tsk. flögusalt
- 1 msk. hunang eða hlynsíróp fyrir sætleika
Aðferð:
- Byrjið á að sjóða hrísgrjónin og hita ofninn í 200°C.
- Setjið svo soðin og örlítið kæld hrísgrjón á bökunarplötu og blandið saman við þau ólífuolíu og kryddi, 1 tsk. af hverju kryddi.
- Bakið grjónin í 30–35 mínútur og hrærið einu sinni um miðbik tímans en fylgist með svo þau brenni ekki.
- Á meðan hrísgrjónin eru í ofninum skerið þá kjúklinginn og steikið svo á pönnu ásamt kryddinu.
- Skerið niður öll hráefnin fyrir salatið og setjið í stóra skál.
- Látið kjúklinginn kólna örlítið áður en þið setjið hann ofan á salatið.
- Takið hrísgrjónin úr ofninum og kælið örlítið.
- Gerið næst sósuna og setjið öll innihaldsefnin í matvinnsluvél eða notið töfrasprota og blandið saman þar til sósan er orðin silkimjúk.
- Bætið kjúklingnum og stökkum hrísgrjónum ofan á salatið og hellið að lokum sósunni yfir.
- Berið fram og njótið.