„Mér finnst matarmenningin í Danmörku betri en á Ítalíu“

Sirrý Arnadóttir á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni.
Sirrý Arnadóttir á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. mbl.is/Hákon

Sirrý Arnadóttir á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni og er hann hinn girnilegasti og minnir á það sem sumarið býður upp á.

Hún hefur komið víða við í gegnum tíðina og er einstaklega hæfileikarík. Hún er fjölmiðlakona, rithöfundur, háskólakennari og fyrirlesari svo fátt sé nefnt. Hún er líka með grænar fingur og er iðin við að rækta grænmeti í garðinum sem fjölskyldan fær að njóta með matnum mörgum sinnum í viku.

Fer alveg eftir uppskriftum

Árum áður sá hún ein um að elda á heimilinu en í dag hefur það breyst.

„Á miðjum aldri fékk maðurinn minn, Kristján Franklín, áhuga á að taka líka til hendinni í eldhúsinu og á meðan ég var eitt árið í útlöndum í mánuð að klára að skrifa bók og hanna nýtt námskeið þá bara tók hann sig til og sérhæfði sig í ýmsum réttum.

Hann fer alveg eftir uppskriftum, öfugt við mig, og er orðinn sérfræðingur í ýmsum réttum sem mér hefði ekki dottið í hug að prófa. Þetta er alveg frábært. Synir okkar eru líka duglegir að elda á sínum heimilum og þetta bætir fjölskyldulíf og eykur lífsgæði allra aðila,“ segir Sirrý.

Eitt af því sem Sirrý heldur mikið upp á er að geta verið með sitt eigið grænmeti. „Á sumrin rækta ég grænmeti í gluggunum í sólstofunni og í köldu gróðurhúsi og það er svo skemmtilegt að geta náð sér eitthvað ferskt í matinn beint úr garðinum.

Mér finnst sniðugt að gera vikumatseðil en ég vil frekar skipuleggja um það bil fjórar máltíðir, elda meira en minna og hafa afganga daginn eftir.Hafa einn dag þar sem bara er skapað eitthvað skemmtilegt úr því sem afgangs er í ísskápnum. Og svo kannski að kaupa eitthvað óvænt eða fara á veitingastað,“ bætir Sirrý við.

Eitt af því sem Sirrý heldur mikið upp á er …
Eitt af því sem Sirrý heldur mikið upp á er að geta verið með sitt eigið grænmeti. mbl.is/Hákon

Kennir við Bifröst í sumar

Það verður nóg að gera hjá Sirrý í sumar og kennsla er eitt af því sem hún sinnir þessa dagana. „Ég er að kenna út júní á sumarönn við Háskólann á Bifröst, en ég kenni Masterklass - örugga tjáningu. Það er einstaklega sumarlegt og skemmtilegt verkefni. Ég starfa einnig sem stjórnendaþjálfari og fyrirlesari.

Verkefnin koma í törnum. Inná milli get ég notið þess að vera amma, skrifa bækur, hanna námskeið, rækta í garðinum og vera til,“ segir Sirrý með bros á vör.

Sirrý ætlar líka að taka sér gott frí og njóta með eiginmanninum. Í sumar ætlum við hjónin að fara í hjólaferð um Danmörku, hjóla „Hervejen“ sem er aldagömul og þekkt leið og gista í sveitagistingum.

Við verðum svo líka í Kaupmannahöfnþar sem við eigum son og tengdadóttur. Og matur er stór partur af því að njóta Danmerkur. Mér finnst matarmenningin í Danmörku meira að segja betri en á Ítalíu. En bæði Danir og Ítalir kunna að njóta en ekki bara að þjóta. Það finnst mér heillavænlegur lífsstíll,“ segir Sirrý að lokum.

Hér fyrir neðan má sjá vikumatseðilinn sem Sirrý setti saman fyrir vikuna fyrir lesendur.

Mánudagur - Ofnbökuð bleikja

„Mér líður svo vel þegar ég borða bleikju. Þessi uppskrift er frábær byrjun á vikunni. Slær ferskan, léttan tón fyrir vikuna. Og ég rækta klettasalat í köldu gróðurhúsi og á nóg af því, það vex eins og arfi.“

Þriðjudagur – Sælkeraborgari með spældu eggi og lauksultu

Grillaður hamborgari með spældu eggi og lauksultu hljómar mjög vel. Ég myndi samt alls ekki fara út í að baka hamborgarabrauðið eins og í uppskriftinni. Nóg úrval af góðu hamborgarabrauði úti í búð.

Miðvikudagur – Ofnbakaður fiskur með mozzarellaosti

„Ofnbakaður fiskréttur er veislumatur og á við alla daga vikunnar. Ég vil borða fisk æ oftar með aldrinum. Æðislega góður matur. Og tilvalið að hafa afganginn í hádeginu daginn eftir.

Fimmtudagur – Burrata-salat með appelsínum

Tilvalið að gera þetta burratasalat með tómötum og basiliku. Ég rækta basiliku og á alltaf nóg afhenni. Gott að borða þetta girnilega salat með góðum afgöngum sem eru til í ísskápnum. Þetta salat passar með öllu.

Föstudagur – Ferskt kartöflusalat og fiskur

Ég myndi gera þetta ferska og skemmtilega kartöflusalat með smá fyrirvara, kæla vel og borða svo úti á palli þar sem við grillum bleikju sem maðurinn minn veiddi í Vatnsdalnum. Nóg af grilluðum fiski og spennandi kartöflusalat með.

Laugardagur – Grillað rækjutaco

Þessi uppskrift er alveg ómótstæðileg og alveg að mínum smekk. Risarækjur grillaðar, límónur og avókadó, allt í þessu er létt og skemmtilegt. Tilvalinn grillmatur á laugardagskvöldi þar sem setið er lengi og raðað á taco, hvítvín með og auðvitað panta kvöldsól líka.

Sunnudagur – Rabarbaraostaterta

„Ég myndi baka þessa syndsamlega góðu rabbabaraostatertu á sunnudegi – borða af bestu lyst og hafa svo bara stórt en létt og gott salat úr garðinum í kvöldmat.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert