Þessi dýrðlega rabarbarakaka með kanil á vel við á þessum árstíma enda er rabarbarann hægt að finna víða í görðum og úti í náttúrunni þessa dagana.
Heiðurinn af helgaruppskriftinni fyrir baksturinn á Brynja Dadda Sverrisdóttir, ástríðubakari með meiru. Hún fær gjarnan innblásturinn fyrir baksturinn uppi í fjalli í Kjós þar sem hún býr. Iðulega er mikill gestagangur upp í fjallinu og það kemur enginn að tómum kofanum þegar Brynja Dadda er annars vegar.
„Ég er alltaf að leita að og prófa nýjar uppskriftir með rababara, mér finnst hann svo vannýttur í görðum fólks. Hér kemur ein með aðeins kanilbragði, sæt súr og góð með rjóma eða vanillukremi,“ segir Brynja Dadda þegar undirrituð spyr hana um tilurð þessarar köku.
Nú er ekkert annað í stöðunni en að næla sér í rabarbara og prófa.
Rabarbarakaka með kanil úr sveitinni
- 2 bollar sneiddur rababari
- 1 bolli sykur
- 125 g mjúkt smjör
- 2 egg
- 1 tsk. vanilludropar
- 1 dós sýrður rjómi
- 2 bollar hveiti
- 1 tsk. matarsódi
- 1 tsk. lyftiduft
- ½ tsk. salt
- 1 tsk. fínmalað kaffi
- 1 tsk. kanill
- ½ bolli púðursykur
Aðferð:
- Byrjið á að hita ofninn í 175°C.
- Setjið síðan ¼ af sykrinum yfir rabarbarann og leggið til hliðar.
- Hrærið vel saman smjöri, sýrða rjómanum og restinni af sykrinum.
- Bætið síðan við einu eggi í einu ásamt vanilludropum og hrærið.
- Blandið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda, salti og kaffi.
- Bætið þessu varlega saman við blautefnin í skálinni.
- Setjið að lokum rabarbarann út í blönduna.
- Blandið síðan saman í skál púðursykri og kanil.
- Setjið síðan helminginn af deiginu í kringlótt form og verið búin að smyrja það.
- Stráið því næst helmingnum af púðursykurblöndunni yfir og því næst restinni af deiginu og ásamt rest af púðursykurblöndunni yfir.
- Setjið inn í ofn og bakið í um það bil 45 mínútur, munið að ofnar eru misjafnir.
- Best er að prófa sig áfram með prjóni og kakan er tilbúin. Ef prjóninn kemur hrein út er kakan fullbökuð.
- Berið fram með þeyttum rjóma og/eða ís og vanillukremi.