Tinna Björt Guðjónsdóttir, verkefnastjóri hjá Black Flamingo og leikkona, á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni sem er hinn fjölskylduvænasti. Eitt það skemmtilegasta sem hún gerir þessa dagana er að vera með syni sínum, Þór, í eldhúsinu og leyfa honum að taka þátt í því að undirbúa matinn eins og hægt er.
„Ég elska að borða góðan mat en verð að viðurkenna að kærastinn minn, hann Sigurður, eldar oftast. Strákurinn okkar er að verða tveggja ára og við reynum því að vera með kjöt og fisk tvisvar sinnum í viku en á sama tíma gera matinn spennandi fyrir hann,“ segir Tinna.
„Kærastinn fór til Marokkó í mars og kom með mikið af spennandi kryddum sem við erum duglega að nota. Við förum reglulega í fiskbúð og Kjöthöllina til að fá gott hrámeti. En síðan þekkja allir foreldrar það að stundum er það bara pasta og egg, einfaldleikinn, sem slær í gegn á yngri kynslóðinni,“ bætir Tinna við og brosir.
„Styrkleikar mínir í eldhúsinu liggja í bakstri og búa til eftirrétti. Ég var einmitt að baka kanilsnúða með stráknum mínum í fyrsta skiptið um helgina og honum fannst það svo skemmtilegt. Honum fannst ekkert mál að fletja út deigið og strá kanilsykrinum yfir deigið fyrir baksturinn,“ segir Tinna.
Hér gefur að líta vikumatseðilinn hennar Tinnu sem hún setti saman með það í huga að Þór, sonur hennar, fengi eitthvað af sínum uppáhaldsréttum.
Mánudagur – Ofnbakaður fiskur sem krakkarnir elska
„Það er svo mikið til af góðum fiskréttum og við annaðhvort kaupum tilbúna rétti eða reynum að finna auðvelda uppskrift sem tekur ekki of langan tíma. Þá er þessi til að mynda mjög góð.“
Þriðjudagur – Taco-veisla
„Við notum mjög oft kalkúnahakk og það er rosa gott í taco. Hægt að krydda með góðu kryddi og fer vel í magann. Alltaf gaman að hafa „Taco Tuesday“.
Miðvikudagur – Brakandi stökkur lax
Ég elska lax enda góður og hollur og góð fita handa krökkum. Hérna er ein uppskrift sem er bæði létt og einföld að gera.“
Fimmtudagur – Kjötbollur í rjómatómatsósu
„Ég elska pasta og sérstaklega spagettí. Svo er spagettí með ítölskum kjötbollum algjört sælgæti.. Þá er góð sósa með ítölsku ívafi llykillinn.“
Föstudagur – Kryddlegið lamb með grískri jógúrtsósu
„Sumargrill er eitthvað fyrir okkur fjölskylduna. Grillað grænmeti og gott kjöt er svo gott. Hvað þá ef maður fær sér einn ískaldan með.“
Laugardagur – Heimagerð pítsa
„Laugardagskvöld eru pítsukvöld hjá okkur. Þá finnst okkur mjög gaman að setja ítalska tónlist á og gera pítsu. Allir fá að velja sitt uppáhaldsálegg, sem er svo gaman.“
Sunnudagur - Ommeletta
„Við reynum nota afganga á sunnudagskvöldum og oft erum við bara með góða ommelettu og eitthvað létt með sem þarf að klára úr ísskápnum. Maður getur eiginlega haft allt með góðri ommelettu oghægt að bæta nánast öllu út í hana. Snilldarmatur fyrir alla fjölskylduna.“