Þessi pítsa er svo bragðgóð og fljótleg að gera, osturinn og meðlætið er hreint sælgæti að njóta. Hún á eftir að hitta beint í mark og er fullkomin til að bjóða upp á í næsta vinahitting.
Heiðurinn af þessari gleðipítsu á Helena Gunnarsdóttir hjá Eldhúsperlum. Það sem gerir þessa pítsu líka svo góða er mynta og chili-ið, það passar mjög vel með grillostinum. Síðan er hún toppuð með örlitlu hunangi og útkoman verður stórfengleg fyrir bragðlaukana.
Það er æðislegt að bera pítsuna fram í góðra vina hópi og vera að bjóða upp á kaldar búbblur eða aðra góða drykki með.
Sumarpítsa með grillosti
Fyrir 2
- 2 stk. tilbúið pítsadeig, litlar kúlur
- 1 stk. grill- og pönnuostur frá Gott í matinn
- 1 dl söxuð fersk mynta
- 1 stk. rauður chili
- 4 msk.ólífuolía
- safi úr hálfri sítrónu
- salt og pipar eftir smekk
- klettasalat eftir smekk
- tómatar eftir smekk
- ristaðar furuhnetur eftir smekk
Aðferð:
- Fletjið pítsadeigið út og grillið eða bakið þar til eldað í gegn.
- Grillið grillostinn við háan hita á báðum hliðum þannig að það komi fallegar grillrendur. Standið yfir ostinum og gætið þess að grilla hann ekki of lengi.
- Gott er að nota spaða til að snúa honum á grillinu.
- Hrærið saman saxaðri myntu, chillipipar (án fræja ef þið viljið ekki of sterkt), ólífuolíu og sítrónu.
- Smakkið til með salti og pipar.
- Smyrjið smá af kryddjurtaolíunni á bakaðan pítsabotninn.
- Dreifið þá klettasalati og tómötum yfir.
- Raðið grillostasneiðunum yfir.
- Toppið með meiri kryddolíu, furuhnetum, sjávarsalti og örlitlu hunangi og berið fram strax.