Portúgalar hafa löngum verið sólgnir í íslenskan saltfisk sem þeir nefna á móðurmálinu bacalhau enda rík hefð að gæða sér á saltfisk í Portúgal af Íslandsmiðum hvort sem það er á heimilum landsmanna eða á veitingastöðum.
Íslenskur saltfiskur hefur lengi þótt vera góðmeti og margir aðdáendur saltfisks flokka hann sem kræsingar. Á öldum áður var þurrkaður og saltaður fiskur, einkum þorskur, aðferð sem var notuð til að auka geymsluþol fisksins þar sem engir kælar voru fyrir hendi og því hentug geymsluaðferð.
Saltfiskur er veigamikill í portúgalskri matarmenningu og er álitinn þjóðarréttur þeirra. Óhætt er að fullyrða að Portúgalar séu mjög framarlega í notkun og framleiðslu á saltfiski og saltfiskréttum. Saltfiskurinn er yfirhöfuð kallaður bacalhau á portúgölsku og hafa Portúgalar löngum verið einn stærsti kaupandahópur og neytendur íslensks saltfisks í gegnum aldirnar. Portúgalar stunda þó jafnframt kaup á saltfiski frá öðrum þjóðum, t.a.m. Noregi og Færeyjum.
Saltfiskur eða bacalhau er mjög eftirsóttur í Portúgal vegna þess að hann er hluti af þeirra menningu, sögu, trúarhefðum og daglegu lífi landsmanna. Til eru hundruð uppskrifta að saltfiski. Saltfiskur er því samofinn sögu og menningu Portúgala og fyrirfinnst á flestum diskum landsmanna um gjörvalla Portúgal.
Íslendingar hafa á undanförnum misserum verið að uppgötva Portúgal meira og meira sem áhugaverðan og spennandi áfangastað enda hefur framboð á beinum flugsamgöngum þangað stóraukist á undanförnum misserum. Fjölmargir landsmenn eru miklir unnendur saltfisks en hafa kannski síður neytt hans þegar þeir eru staðsettir á erlendri grundu. Íslendingar gefa oft og tíðum fiskmeti lítinn gaum þegar þeir eru staddir erlendis enda telja margir að fátt erlent fiskmeti standist íslenskan fisk að gæðum.
Hér eru þrír áhugaverðir veitingastaðir sem sérhæfa sig og bjóða upp á framúrskarandi saltfiskrétti í Portúgal.
Culto ao Bacalhau er veitingastaður í Porto sem einblínir á saltfiskrétti. Veitingastaðurinn hefur fengið viðurkenningu frá Michelin Guide. Á matseðlinum má finna fjölbreytt úrval af hefðbundnum portúgölskum réttum með saltfisk í forgrunni. Ef þú vilt upplifa fjölbreytta og skapandi útgáfu af salatfiskréttum í nútímalegu umhverfi með góðri þjónustu, þá er Culto ao Bacalhau veitingastaður sem vert er að heimsækja.
Restaurante Laurentina – O Rei do Bacalhau er veitingastaður sem er staðsettur í miðborg Lissabon. Veitingastaðurinn hefur sérhæft sig í saltfiskréttum og býður upp á fjölbreytta rétti þar sem saltfiskurinn er í aðalhlutverki. Saltfiskurinn sem notaður er í réttina er af íslenskum fiskimiðum.
A Casa do Bacalhau veitingastaðurinn er staðsettur í svokölluðu Beato-hverfi í borginni Lissabon. Staðurinn er glæsilega innréttaður í gömlum hesthúsum sem tilheyrðu áður hertogahöll. A Casa do Bacalhau býður upp á fjölbreytta saltfiskrétti í glæsilegu umhverfi og skemmtilega upplifun sem margir ferðamenn og heimamenn mæla með. Vínseðillinn er fjölbreyttur og á breiðum grunni.