Camilla Rut, samfélagsmiðlaskvísa, deilir með lesendum skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar að þessu sinni.
Hún er þriggja barna móðir, stafrænn markaðssérfræðingur og segist vera með veikleika fyrir góðum mat, góðri stemningu og skemmtilegu fólki.
„Ég bý á Seltjarnarnesi þar sem ég þrífst best í eldhúsinu með útvarpið í gangi og krakkana að tosa í buxnaskálmina á mér á meðan,“ segir Camilla og hlær.
„Ég vinn við að stýra stafrænum sýnileika og samfélagsmiðlum annarra vörumerkja, tengi saman efnisskapara og vörumerki í gegnum www.fomomedia.is. Ég trúi á mátt jafnvægis í mataræði sem gleður bæði maga og sál,“ segir Camilla enn fremur.
Aðspurð segir hún að matarástríðan sé til staðar og matur sé stór partur af lífinu hennar. „Ég elska að borða mat og tala um hann, stundum panta ég hann og elda þegar ég er í stuði. Svo er ég alltaf að skoða uppskriftir sem ég ætla pottþétt að prófa einn daginn. Síðan er spurning hvenær sá dagur kemur,“ segir Camilla sposk á svip.
Camilla svarar hér nokkrum praktískum spurningum um matarvenjur sínar og gefur lesendum innsýn í hvað henni finnst best þegar matur er annars vegar.
Breytast matarvenjur þínar á sumrin?
„Já, nefnilega. Ef það er gott veður þá færist yfir mig þessi hugljómun að ég búi á Ítalíu þó að ég sé bara stödd á Seltjarnarnesi. Ég verð einhverra hluta vegna aðeins meiri snarlari en ég er á sumrin og þá eiga matseld og salöt hug minn og hjarta.“
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei verið mikið fyrir morgunmat. Ég vakna yfirleitt með koffín í annarri og verkefnalista í hinni.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Já, ég er algjör krönsari og verð helst að hafa eitthvað til að narta í við hendina. Ég get bókstaflega byggt daginn minn á hrökkbrauði, smurosti og kotasælu en svo færast döðlur, möndlur og popp inn í mixið líka.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Algjörlega, annars verð ég skapvond og leiðinleg. Það nennir mér enginn þannig.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Orkudrykki, Coke Zero og 7 up til að svala þorstanum. Svo er alltaf til snarl fyrir strákana eins og jógúrt-skvísur, skyr, ávextir og eitthvað álegg ofan á brauð.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Ég er mjög dugleg að prófa alls konar staði. Ég fór í ekkert smá flotta matar- og drykkjarupplifun á Uppi bar um daginn. Ég mæli sérstaklega með Wagyu tataki og kóngarækjunum svo pistasíu espresso martini í eftirrétt, það verða allir að smakka.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Það er pítsa á matseðli á Pizza 107 sem heitir „Sæta sæta“ en hún er víst tileinkuð mér. Á henni er pepperóní, rjómaostur, döðlur og hunang. Hún klikkar ekki.“
Hvað færð þú þér á pylsuna þína?
„Ef ég er að gera hana heima þá fæ ég mér tómatsósu, steiktan lauk, remúlaði, Blátt Doritos og hvítlaukssósu.“
Hver er uppáhaldsgrillrétturinn þinn?
„Ég viðurkenni að ég er mesta meðlætistýpan, góð steik er æði og allt það en grillaður aspas, fylltir sveppir og svoleiðis góðgæti á grillinu er æði. Gamla góða sprungna pylsan á grillinu er eflaust uppáhaldið mitt samt.“
Áttu grill? Hvort heillar þig meira gas- eða kolagrill?
„Mér er alveg sama, fái ég bara góðan mat af grillinu tuða ég ekki yfir neinu.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Helming og helming. Ef salatið er gott og vel útilátið þá leyfi ég því að fara með ásamt kartöflunum en þeim sleppi ég aldrei.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Það fer eftir stemningu, ef ég ætla að skála þá klikkar ekki gott kampavín annars leita ég mikið í Coke Zero eða 7 up.“
Ertu með æði fyrir einhverju þessa dagana?
„Ég gæti lifað á hrökkbrauði með paprikusmurosti og kotasælu. Það þarf að minna mig á að færa fjölbreytni í leikinn inn á milli og borða eitthvað annað líka,“ segir Camilla að lokum.